top of page

Brautarlækjarannáll 2007

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Oct 22, 2007
  • 3 min read

Það er fiskur í Tangavatni 8. - 10. júní 2007


ree

Jæja, þá er búið að bora eftir vatni í Brautarlæk og vatn fundum við. Fyrir um það bil mánuði síðan komum við Ingþór í Brautarlæk til að hitta Guðmund borara hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. Sögðum honum hvar við vildum bora. Hve djúp holan verður kemur í ljós en við höfum heyrt að það þurfi að fara djúpt á þessu svæði. Til dæmis var borað á Skarðshömrum fyrir stuttu síðan og þar þurfti að fara hundrað metra niður. Við tengdum vatnið og settum sjónvarpsgreiðuna upp. Undir pallinum var þrastarhreiður með þremur eggjum. Frágangur bormannanna var nokkuð góður. Holan var ekki nema 28 metra djúp og fóðruð tólf metra niður. Hún skilar tíu lítrum af vatni á mínútu og það er 1,8 meter niður á vatnið. Þetta vatnsmagn ætti að duga tveimur bústöðum vel.


Það var ágætt veður á laugardeginum, skýjað og um 15 gráður. Kjörið flugdrekaveður því það var nokkuð hvasst. Um kvöldið skrapp ég í Tangavatn á Holtavörðuheiðinni. Halli tengdapabbi kallar þetta vatn alltaf Krókavatn en á kortum er það kallað Tangavatn. Í vatninu sagðist Halli hafa veitt ágætis bleikjur í gamla daga en fyrir mér hefur það virkað fisklaust. Reyndar var ég í félagskap himbrimans og við vitum að himbrimi gerir sér ekki óðal við fisklaust vatn. Um ellefuleitið lægði skyndilega og ég sé uppítökur á litlu svæði fyrir framan mig. Kasta nokkrum sinnum á uppítökurnar og fljótlega grípur þriggja punda bleikja svarta og rauða púpu. Þar með er það staðfest. Það er fiskur í vatninu.


ree

Skömmu eftir miðnætti gerði feykimikla rigningu en á sunnudagsmorgninum var aftur orðið þurrt á og hlýr andvari og fjórtán gráðu hiti léku við þá sem völdu útiveruna. Það gerðu mamma og stelpurnar en ég sat inni yfir heimaverkefni um notkun upplýsingatækni í kennslu.Kristín Helga dóttir Gunnars og Erlu í Króki bauð Ingibjörgu Lilju hvolp. Foreldrar Lilju hafa ekki verið mjög tilbúnir í slíkt og fékk Lilja þær upplýsingar hjá Kristínu að við þeim vanda dugi bara eitt ráð. Það er að tuða nógu mikið í foreldrum sínum því á endanum gefast þeir upp.


Sumarblíða 16. - 21. júlí 2007


ree

Guðrún og Dísa voru saman í Brautarlæk í þrjá daga í stórgóðu sumarveðri. Hitinn var 15 – 22 gráður. Tímanum var varið í göngutúra, sólbað og geitundastríð. Ég var mest allan tíman að vinna með Ingþóri og Hirti í Knarrarhöfn.

Hollur matur, heilbrigð börn 10. - 12. ágúst 2007


ree

Það var vindasamt um helgina en engin væta fylgdi. Vatnsstaðan í Norðurá er í sögulegu lágmarki. Mikið er af bæði bláberjum og krækiberjum. Héldum að þá væri fullt af aðalbláberjum við Króksfoss en urðum fyrir vonbrigðum með það. Sennilega hefur verið of þurrt í sumar fyrir þau. Í þessari ferð varð þessi dýrt kveðna vísa til.


Hollur matur, heilbrigð börn, hraustir karlar starfa. Fagrar konur, fjörug börn fylla mannsins þarfa.

Svakaleg berjaspretta 1. - 2. september 2007

Við komum á laugadeginum í Brautarlæk en drifum okkur strax í Dalina því samkvæmt áætluninni var meiningin að fara í veiðiferð. Kvenfólkið fór í berjamó að tína aðalbláber en karlarnir veiddu lax. Afrakstur veiðiferðarinnar voru fjórir laxar sem allir voru fjögur til fimm pund. Lofthiti 8 – 11 gráður og aðeins farið að hausta. Loksins er farið að rigna þannig að það er komið dálítið vatn í læki og ár.


Við munum ekki eftir annari eins berjasprettu og bláberin eru stór. Rifsberin á litlu plöntunni sem hér er hafa náð þroska og eru rauð og falleg. Í fyrsta sinn sáum við laxa af Króksbrúnni. Áin hefur verið vatnslítil í allt sumar. Laxarnir voru neðan við brúna og veiðimenn enn á ferð. Gunnar í Króki hefur ekki verið veiðivörður í sumar eins og mörg undanfarin sumur.

Smalahelgin 14. - 16. september 2007


ree

Það er komið haust. Ég og Harpa fórum í Dalina að morgni laugardagsins til að hjálpa til við smölun. Smölun þar gekk vel þótt það væri kalt og hiti við frostmarkið. Guðrún, Halli, Sigurbjörg og Lilja smöluðu Hvammsmúlann saman úr stofuglugganum í Brautarlæk og tíndu ber. Já það er enn hægt að tína ber því lítið hefur frosið.


Óli í Klettstíu leit við og sagði fréttir og það gerðu Binni, Hanna og Indíana einnig en þau skruppu í síðdegiskaffi frá Akureyri.

Þrestir fara um í flokkum 20. - 21. september 2007

Nú var komið að því að ganga frá vatnsleiðslunni fyrir veturinn. Skógarþrestirnir fara um móann í flokkum og eru að tína síðustu berin. Enn geta þeir rótað í laufinu undir runnum og trjám í leit að einhverju að éta. Mikill jarðvegur hefur fallið ofan á vatnsleiðsluna í læknum þar sem dýpst er. Nágrannar af Rauðalæknum litu við á leið sinni norður á Hvammstanga. Mikið hefur rignt og snjór í fjöllum. Það er að koma vetur.


Commentaires


bottom of page