Brautarlækjarannáll 2024
- Þorkell Daníel Jónsson
- Apr 17, 2024
- 8 min read
Updated: Oct 14, 2024
Fyrri hluti - janúar til júlí
Ekkert hús, bara snjór og frost

Þennan veturinn var eðli málsins samkvæmt ekkert dvalið í Brautarlæk. Þar er nefnilega ekkert hús lengur. Við hefðum þannig séð getað dvalið í smíðaskúrnum því í honum er hlýtt og gott en við viljum meiri þægindi en hann hefur upp á að bjóða. Við fórum tvisvar í eftirlitsferð. Fyrst komum við við á leið okkar norður á Akureyri í febrúar. Þá var mikill snjór í Brautarlæk og völd vetursins yfir náttúrunni alger. Í skúrnum var allt eins og það átti að vera utan þess að mús hafði náð að lauma sér inn í síðustu dvöl okkar síðasta haust. Í örvæntingu hafði greyið reynt að naga sig út í gegnum þröskuldinn við útihurðina.

Við leigðum okkur helgi í byrjun apríl í Munaðarnesi og renndum auðvitað fram í Brautarlæk. Enn er veturinn við völd en heldur minni snjór en í febrúar. Samt nógu mikill og glerharður þannig að það er ekkert hægt að gera. Sennilega munum við ekki byrja undirbúning fyrir reisingu á nýju húsi fyrr en um mánaðamótin maí júní. Það verður ekki fyrr en þá sem frost verður farið úr jörðu.
Hvar er heimilið mitt? 11. - 12. maí

Ég var orðinn æði óþreyjufullur að hefja vinnu við sökkulinn svo ég fór einn í Brautarlæk um helgina. Frost er enn í jörðu en það vantar ekki mikið upp á að jörðinn verði alveg þiðnuð. Ég er ekki fyrr búinn að leggja bílnum en vorboðinn okkar, maríuerlan sest á þakið og horfir á mig ásökunaraugum. Mér fannst hún segja: „Hvar er heimilið mitt?“ Maríuerlan deilir nefnilega Brautarlæk með okkur á sumrin. Hún hefur búið í grunninum en við í húsinu. Það er ekki laust við að ég hafi fengið samviskubit. Ég verð eiginlega að smíða varphús fyrir hana.
Markmið helgarinnar var að smíða fyrir götin sem voru áður leiðin í geymslurnar undir grunninum. Einnig ætlaði ég að finna út hvað við þurfum að kaupa mikið efni svo við getum klárað að ganga frá veggjunum og plötunni.
Ég var orðinn hálf slæptur þegar nálgaðist kvöldmat á laugardeginum enda ekki í neinni þjálfun. Ákvað nú samt að skjótast í Hreðavatn til að prófa nýju flugustöngina.
Sandur, möl og smíðavinna 17. - 19. maí

Sumarið er komið í Hollandi en það er enn dálítið í það í Norðurárdal fremra. Í Hollandi er allt orðið laufgað, grænt og blóminn blómstra en í dalnum eru trén rétt byrjuð að bruma. Ég hafði verið í náms- og kynnisferð í Delft í Hollandi og þess vegna vorum við seint á ferðinni á föstudeginum. Við hófum þar af leiðandi engin störf fyrr en á laugardagsmorgninum. Það var mjög svo kalt á laugardeginum en þannig séð ágætis vinnuveður. Síðan fór að hellirigna seinnipartinn. Við héldum áfram að smíða upphækkun á gamla grunninn en lukum því verki ekki. Við erum komin með möl og sand á staðinn þannig að það verður allt klárt fyrir steypuvinnu þegar uppslættinum er lokið.
Silkimjúkar hendur 24. - 25. maí

Tíminn líður hratt og núna er ekkert annað í boði en að mæta um hverja helgi í dalinn og reyna að mjaka hlutunum áfram. Um helgina kláruðum við að slá upp fyrir steypun á veggjum grunnsins. Veðrið var svakalega leiðinlegt á föstudeginum og 36 metrar í hviðum við Hafnarfjallið. Þegar við síðan lentum í Brautarlæk var þar hið besta veður. Bæði laugardag og á sunnudag var síðan dásamlegt veður, hitir 14 – 20 gráður. Sumarið er komið og nú grænkar hratt.
Forsetakosningar og rigning 31. maí - 2. júní

Við vorum komin frekar snemma í dalinn á föstudagskvöldinu. Kristján var búinn að gera klárt svo við gátum einhent okkur beint í að steypa og það gerðum við. Það kom okkur á óvart hvað við vorum snöggir að þessu því klukkan ellefu um kvöldið vorum við búin. Það rigndi látlaust.
Á laugardeginum rigndi enn og það ekkert lítið. Þá slógum við uppsláttinn frá steypunni. Allan mánuðinn og rúmlega það hafa umsækjendur um starf forseta lýðveldisins reynt að sannfæra þjóðina um ágæti sitt. Þegar við lögðumst í hvílu um eittleitið var okkur ljóst að þjóðin ætlaði að ráða Höllu Tómasdóttur í starfið.
Það stytti upp á sunnudeginum en þá sneri hann sér í norðanátt og tilheyrandi kuldi lagðist yfir. Þannig verður veðrið víst alla næstu viku og hryllilegur kuldi í kortunum sem ekki mun láta undan fyrr en við Guðrún erum farin til Porto í Portúgal.
Vinnutörn 17. júní - 10. júlí

Við hjónin komum á laugardegi frá Porto en gátum ekki rokið beint í Brautarlæk líkt við helst vildum. Áttum nefnilega miða á tónleika Jacob Collier. Vorum síðan komin í dalinn á mánudeginum og hófumst handa við verkið sem var framundan. Fyrsta verk var að einangra hliðarnar á grunninum að innanverðu og síðan voru veggirnir á gamla grunninum hækkaðir til jafns við nýja grunninn. Við náðum ekki alveg að ljúka því verki áður en Jói kom með gröfuna sem hann ætlaði að leigja okkur á fimmtudeginum. Þá gátum við hafist handa við moksturinn sem var ærinn. Veðrið var ekki í liði með okkur þessa vikuna, 17. - 21. júní. Það rigndi upp á hvern dag. Kristján mætti síðan á föstudeginum og þá fóru hlutirnir að ganga hraðar. Mikill var moksturinn og eftir helgina var búið að rífa upp staurana sem héldu pallinum uppi og setja niður mótin fyrir undirstöðurnar undir súlurnar sem munu halda uppi þakskegginu. Ég skaust í bæinn til að kaupa jarðskautsvír og einangrun utan um vatnsrörið sem liggur frá borholu og inn í hús. Guðrún þurfti líka að komast í bæinn því vinnan kallaði.
Ég hef ekkert sérstaklega mikið vit á rafmagni en eitthvað þó. Hafði til dæmis ekki hugmynd um tilganginn með því að leggja jarðskaut. Eftir smá lestur er ég orðinn heldur fróðari. Framkvæmdin er einföld. Koparvír er lagður í moldarjarðveg og tengdur við járnabindingu hússins og vatnsinntakið. Tilgangurinn er að spennujafna húsið. Það er víst ekki gott fyrir heilsu manna ef of mikið af neikvæðum jónum sleppa lausar. Það getur valdið því sem kallast húsasótt. Á meðan ég var í þessum úttréttingum járnabatt Kristján undirstöðurnar undir þakskeggið. Á mánudeginum náðum við einnig að grafa fyrir vatnsrörinu frá borholu að þeim stað þar sem vatnsinntakið inn í húsið verður. Þetta var hinn ágætasti skurður, 120 sentímetra djúpur og rúmlega það sums staðar. Rörið var einangrað og lagt í sand. Undir og yfir er sett frostfrítt efni og síðan mokað yfir með þeim jarðvegi sem var fyrir. Á þriðjudeginum í óhemju rigningu var grafið fyrir rafmagnsrörum. Ástandið í kringum húsið var ekki kræsilegt því allt var vaðandi í mold og drullu. Á miðvikudeginum lukum við þessum mokstri og hófum að slétta yfir. Þá loksins stytti upp og það var þvílíkur léttir.
Mynd vinstra megin: Fyrsta verkið eftir að grafan kom var að grafa staurana sem héldu gamla pallinum upp. Ég er ekki búinn að gleyma því hvað við höfðum mikið fyrir því að grafa þá niður.
Mynd hægra megin: Hér má sjá hvar lagnirnar koma inn í hús. Búið að einangra sökkulveggina.
Gröfturinn gekk ekki alveg áfallalaust því við lentum í því að særa inntaksstrenginn fyrir rafmagnið þegar við grófum fyrir vatnslögninni. Það er ekki laust við að okkur hafi brugðið þegar sló út því ekki gengur að vera rafmagnslaus í svona framkvæmdum. Það var því ekki annað að gera en að fá Rarik á staðinn til að laga strenginn. Átti skemmtilegt samtal við bilanaþjónustuna hjá Rarik. Sá sem varð fyrir svörum virtist frekar feginn að við skyldum ekki freistast til að teipa bara yfir sárið og grafa strenginn niður. Hann sagði mér sögur af slíku og vandræðum sem fylgdu í kjölfarið. Stundum mörgum mánuðum seinna.
Mynd vinstra megin: Sárið á rafmagnsinntakinu var ekki mikið en nóg samt til að viðgerð var nauðsynleg.
Mynd hægra megin: Rarik mætti strax morguninn efir og viðgerðamennirnir voru hinir kátustu með að fá morgunbíltúr um sveitina.
Fyrsti skammturinn af möl kom á fimmtudeginum og því lofað að fleiri kæmu á mánudeginum. Við nýttum fimmtudagsmölina til að stífa steypumótin fyrir undirstöðurnar undir þakskeggið niður. Við steyptum síðan í mótin. Á mánudeginum fór mölin að koma og á þriðjudeginum var búið að fylla grunninn og þjappa. Toddi pípari leit við og gaf ráð. Okkur þótti nóg um alla rörasúpuna sem var komin í grunninn en nú bættust tvö rör við. Annað til að mögulegt væri með einföldum hætti að bæta heitum potti við og hitt til að tryggja lagnaleið fyrir varmadæluna. Við höfðum hreinlega gleymt að hugsa fyrir því að við þyrftum að leiða rafmagn að henni. Toddi pípari benti okkur einnig á að snjallt væri að steypa undirstöður undir varmadæluna.
Nú var komið að því að leggja frárennslisrörin. Það var fljótgert. Við lentum í hálfgerðum vandræðum með staðsetninguna á þeim því við áttuðum okkur ekki alveg á þykkt veggjanna vegna þess að það var misræmi í teikningu þeirra sem smíða húsið og teikningu verkfræðingsins. Frágangur frárennslisröranna er eiginlega sá sami og frágangur rafmagns- og vatnleiðslu. Rörin leggjast í sand og síðan kemur frostfrítt efni yfir. Það auðveldaði þessa vinnu verulega að við gátum notað gamla frárennslið niður í rotþró. Neysluvatnslagnirnar voru síðan lagðar. Kaldavatnslagnirnar voru lagðar með frárennslislögnunum en heitavatnslagnir á einangrunarplastið undir járnagrindina.
Efri myndir: Frárennslislagnir, kaldavatnslagnir og rafmagnslagnir.
Neðri myndir: Grafið fyrir kaldavatnslögn niður í læk og ljósleiðaralögn.
Þegar búið var að leggja vatns- og frárennslislagnir var tíu cm þykkt einangrunarplast sett ofan á plötuna og kassar smíðaðir utan um lagnarörin. Því næst var 5 cm þykkum steinum raðað ofan á plastið og gengið frá járnagrindinni. Við gengum einnig frá heitavatnslögn að eldhúsvaski en heitavatnslögnin er lögð undir járnagrindina.

Svona var staðan síðan þegar við héldum heim eftir þriggja vikna törn.
Gólfhitalagnir 16. og 17. júlí
Við Kristján skutumst á þriðjudegi í Brautarlæk til að aðstoða píparana við að leggja gólfhitalagnirnar. Sú vinna gekk vel og náðist auðveldlega að ljúka henni á einum degi. Við þrýstingsprófun pípti úr rörunum á einum stað. Það er greinilega nauðsynlegt að þrýstingsprófa lagnirnar áður en næsta skref er tekið.
Tiltekt og veiði 19. - 21. júlí
Við vorum aftur mætt í dalinn á föstudeginum. Ætluðum ekki að gera mikið þessa helgina en verkefnin urðu samt nokkur. Við Guðrún gáfum okkur samt tíma til að fara í veiðitúr á laugardagskvöldinu. Fórum í Selvatn í dásamlegu veðri og náðum þar fjórum litlum urriðum. Við nýttum helgina einnig til að ganga frá kössum í kringum rörin í grunninum og fylltum kassana af möl til að tryggja að steypan flæddi ekki undir kassana og að rörunum.Við tókum timbrið úr gámnum og stilltum því upp fyrir aftan hann. Eigum núna pláss til að geyma loftaplötur, gifs, hurðir og annað sem þolir ekki að vera úti í rigningu. Síðan var farin ruslaferð í Borgarnes.
Steypudagur 24. og 25. júlí

Þá var loksins komið að því að steypa plötuna. Við mættum seinni partinn á miðvikudag til að ganga frá ýmsu smálegu. Valli gerði sér ferð til okkar til að kanna stöðuna. Hann mætti með dróna og tók loftmyndir af grunninum og landinu. Dróninn tók ansi góðar myndir sem munu verða til mikils gagns þegar smiðirnir fara að setja niður innri veggina. Myndirnar eru það skýrar að lagnirnar eru mjög greinilegar.

Síðan mætti Valli aftur í bítið á fimmtudagsmorgninum. Við vorum heppin því ótrúlegt en satt þá hélst þurrt á meðan við steyptum en ekki mikið lengur samt. Fyrsti skammturinn af steypu var frekar þurr sem gerði það að verkum að það reyndist ekki mögulegt að glatta þann hluta plötunnar almennilega. Restin reyndist viðráðanlegri. Því miður dugði ekki að fá tvo steypubíla. Við þurftum að ég hélt fimmtán og hálfan rúmmetra en hver bíll tekur sjö og hálfan. þegar öllu var lokið höfðum við notað sautján rúmmetra af steypu.
Ég held að steypuvinnan hafi gengið þokkalega vel. Við Kristján höfum aldrei steypt plötu og Valli sagðist vera orðin ryðgaður. Þrátt fyrir það enduðum við með steypta plötu og bara frekar sáttir við okkur. Við sáum að hún er ekki alveg fullkomlega slétt. Það verður áberandi í rigningunni því pollarnir segja söguna.
Lokafrágangur á plötu 26. -28. júlí

Við eigum enn eftir að leysa ýmislegt áður en smiðirnir koma frá Litháen. Frágangur kantanna á plötunni var forgangsverkefnið þessa helgina og að hreinsa mölina upp úr kössunum í kringum lagnirnar. Við þurftum að byrja á því að slípa kantana til að jafna þá og slétta úr öllum nibbum. Notuðum síðan milligrófa viðgerðarblöndu í verkið. Ekki var það nú alveg nógu gott að það skyldi byrja að rigna þegar við vorum hálfnaðir við verkið og það rigndi ákaft. Sem betur fer eru efnin orðin það góð í dag að þetta virtist hafa haldið þrátt fyrir ofankomuna.
Við náðum einnig að rífa hliðið. Tilgangurinn með því er að tryggja að það sé hægt að koma gámunum upp að húsi skammlaust. Hvernig við komum gámunum upp að húsi er eiginlega stóra áhyggjuefnið núna.
Comments