Brautarlækjarannáll 2024
- Þorkell Daníel Jónsson
- Oct 14, 2024
- 14 min read
Updated: Nov 25, 2024
Seinni hluti - ágúst til desember
Langur bíltúr

Hér erum við Guðrún við útsýnisskífuna á Kambsnesi við Álftafjörð. Eyrarfjall í baksýn.
Áfram heldur undirbúningur fyrir reisingu nýs Brautarlækjar. Núna er heldur betur að nálgast að smiðirnir mæti. Við fengum óvænt þær upplýsingar að við ættum að sækja verkfæri smiðanna á Svarthamar. Við vonuðum að Svarthamar væri ekki allt of fjarri. Ekki varð okkur að ósk okkar því Svarthamar er bærinn sem Jón Indíafari var frá og stendur við Álftafjörð í Ísafjarðardjúpi. Í ljós kom að við vorum að sækja verkfærin í Súðavík en ekki á Svarthamar. Hvers vegna Dominykas sem stýrir verkefninu fyrir verktakana Ekobustas nefndi Svarthamar vitum við ekki.

Til að stytta för fórum við Guðrún í Brautarlæk á fimmtudagskvöldinu. Í föstudeginum var síðan tekinn langur akstur frá Brautarlæk norður á Súðavík. Við tókum smávegis hlé frá akstrinum á Hólmavík. Fórum í þá ágætu sundlaug sem þar er og fengum okkur saltfisk á Cafe Riis. Okkur þótti málsverðurinn sá kosta skildinginn en engu að síður þá mælum við með saltfiskinum á Cafe Riis. Hann var einstaklega góður.
Á Súðavík hittum við teymið sem var að smíða hús fyrir mann að nafni Björn Oddsson sem er búsettur í Sviss. Guðrún átti áhugavert samtal við hann um framkvæmdina hans sem er reising húss undir fjallinu Hesti sem er á Hestnesi við Ísafjarðardjúp. Björn sagði okkur frá vandræðum sínum með íslenska verktaka í tengslum við gerð grunnsins. Þessi vandræði ollu tveggja ára töfum. Hann sagði því ekki saman að jafna þegar kom að vinnubrögðum Ekobustas. Þar stóð allt eins og stafur í bók og vinnubrögðin góð. Þetta styrkir okkur í trúnni á við höfum gert rétt með því að skipta við þá.
Við reyndumst hafa gert rétt með því að taka stóru kerruna hans Valla í þennan túr því verkfæramagnið var ansi mikið. Bæði kerran og skottið í bílnum var troðfullt. Á heimleiðinni blés vel á köflum og rigndi nokkuð um tíma. Það var eins gott að við gengum vel frá farminum.
Við stoppuðum öðru hvoru á leiðinni til að tryggja að farmurinn væri enn í skorðum á kerrunni. Saltfiskurinn á Cafe Riis var heldur betur gómsætur.
Eftir að hafa gengið frá verkfærunum teiknuðum við herbergjaskipan á sökkulinn og reyndum að setja upp vatnsklósett á grunninn. Það gekk nú ekki vel svo við ákváðum að geyma þá uppsetningu þangað til að smiðirnir koma. Við munum spyrja þá hvort þeir vilji að við setjum upp klósett á grunninum áður en þeir reisa húsið.
Húsið rís
Kristján fór í Brautarlæk á þriðjudeginum til að taka á móti fyrsta gámnum. Það var smávegis léttir þegar í ljós kom að það reyndist auðvelt að setja hann niður utan við veg á Melatúnið. Verra var að þetta var ekki rétti gámurinn. Við Guðrún sóttu smiðina út á flugvöll en þeir komu með Icelandair flugvél frá Kaupmannahöfn eftir að hafa millilent þar. SAS flutti þá frá Litháen til Kaupmannahafnar. Þeir reyndust allir hafa unnið hér áður þannig að ekkert í íslenskum aðstæðum kemur þeim á óvart. Við vorum komin með þá í húsnæðið á Bifröst um þrjúleitið um nóttina. Þeir voru síðan mættir í Brautarlæk um hálfellefuleitið á fimmtudagsmorguninn til að gera grunninn kláran fyrir reisingu hússins. Það var næsta stress. Er grunnurinn nógu vel gerður?
Þeir virtust vera sáttir við grunninn. Það var reyndar 1,5 cm munur á hæð grunnsins en það kemur ekki að sök sagði teymisstjórinn. Slíkar skekkjur geta þeir leyst. Ég nýtti fimmtudaginn í að reyna að fá gámana tvo sem allra fyrst á svæðið því það liggur á því. Ekki er gott að vera með fjóra smiði og einn kranastjóra verklausa því á svæðinu er ekkert nema steypukassi en ekkert til að setja á hann. Smyrill stóð sig vel og rétti gámurinn kom á föstudagsmorgninum. Bílstjórinn var eitthvað hikandi með bæði Melatúnið og hvort það væri mögulegt að bakka gámnum upp að húsinu. Hann fékkst þó til þess að reyna og okkur til mikils léttis þá gekk það en tæpt var það.
Við vorum stressuð vegna þess að við töldum að aðstæður væru of erfiðar en þegar kranabíllinn og tveir gámar voru komnir upp að húsi voru aðstæður frekar góðar og hratt gekk að raða einingunum saman. Smiðirnir byrjuðu á að reisa norðausturhliðina.
Kranamaðurinn okkar hann Árni Jón ætlaði að koma á föstudagskvöldinu með kranabílinn en lenti í þeim leiðindum að einn tjakkurinn bilaði. Föstudagskvöldið fór því í að laga það. Mér létti þegar hann hringdi um kvöldið og sagði mér að viðgerð hefði tekist og hann yrði í Brautarlæk á milli níu og tíu á laugardagsmorgninum. Þegar byrjað var að hífa hlutina úr fyrsta gámnum gengu hlutirnir hratt. Eftir fyrsta daginn var austurhliðin farin að taka á sig mynd og eftir annan daginn var búið að loka húsinu og smiðirnir farnir að huga að þakinu.
Eftir fjórða daginn voru gámarnir allir orðnir tómir og þakið komið á húsið. Þetta þykir mér með ólíkindum hraður gangur á hlutunum. Húsið var reist á þremur og hálfum degi og ég gat ekki séð að smiðirnir hafi lent í miklu brasi við að raða einingunum saman. Einingarnar koma með gluggum og hurðum, einangraðar og raflagnir eru tilbúnar í veggjum.
Losum okkur við rakann 16. - 18. ágúst
Þetta sumar er með alverstu rigningasumrum og að sjálfsögðu rigndi öðru hvoru á meðan verið var að reisa húsið. Þess vegna leigðum við rakaeyðingartæki hjá Vinnupallar ehf og hitablásara yfir helgina. Við vorum í vandræðum með blásarana því þeir taka svo mikið rafmagn. Rafmagnskeflin voru sífellt að slá út. Rakatækið tók greinilega minna því það mallaði stöðugt. Hægt og sígandi minnkuðu rakablettirnir af steypunni á gólfinu og þegar helgin var úti á sunnudagskvöldinu voru þeir allir horfnir. Æskilegt rakastig á heimilum er á milli 40 – 60%. Mælirinn á rakatækinu sýndi undirlokin 60%. Þannig að við ákváðum að láta rakatæki og blásara damla einn sólarhring í viðbót og þá fór rakinn niður í 43% og hitinn í húsinu í 23 gráður.

Smiðirnir voru í vinnu á laugardeginum. Þeir voru að tryggja kjölfestu hússins svo það tækist ekki á loft í verstu vetrarveðrum. Tveir þeirra byrjuðu á að setja álflasningarnar á veggina. Það er eins gott að Límtré vírnet nái að skila af sér þakjárninu og klæðningum á öðrum eða þriðja degi frá pöntun eins og þeir segjast geta gert. Við fórum eina ruslaferð í Borgarnes og sóttum rennurnar sem voru loksins tilbúnar. Kaupfélagið var að halda upp á 120 ára afmælið sitt á sama tíma o og við notuðum að sjálfsögðu tækifærið og fórum í veisluna. Þar vakti Farmal Cub einn upp minningar úr sveitinni og Guðrún hafði á orði að svona græju hefði hún ekið í sveitinni þegar hún var níu ára gömul.
Neysluvatnslagnir niður fyrir frost 6. - 8. september

Á leiðinni í Brautarlæk komum litum við inn til kunningja okkar í Leirársveitinni til að skoða framkvæmdirnar sem hann stendur í þar. Hann er að byggja nýtt hús á jörð foreldra sinna. Hann tengir nýja húsið við gömlu fjárhúsin og breytir þeim í hesthús. Ansi skemmtilegt verkefni og heldur flóknara en það sem við erum að gera. Gagnlegt var að heyra af þeim vandamálum sem hann hefur lent í á sinni vegferð. Það var komið niðamyrkur þegar við komum í Brautarlæk. Bílljósin lýstu húsið upp og ánægjulegt að sjá að húsið okkar í Brautarlæk er að taka á sig endanlega mynd. Það er búið að klæða það að hluta til og þakskeggið komið á. Morgunin eftir sáum við að þetta verður sérlega fallegt hús.
Við höfðum ætlað okkur að koma með nýja dælu í borholuna þessa helgina en ákváðum að gefa okkur meiri tíma til að átta okkur á hvaða lausn væri snjöllust í dælumálunum. Þetta reyndist nefnilega ekki vera eins sjálfgefið og við höfðum haldið í fyrstu. Það er sennilega rétt að rasa ekki um ráð fram svo við gerum ekki einhver óþarfa mistök.
Það er víst orðið svo að haustið er að setjast að. Óvenju snemma þykir okkur. Veðurspáin segir að það eigi að vera fimm gráðu frost á Holtavörðuheiðinni í vikunni og mínus ein gráða hjá okkur þarna efst í dalnum. Þess vegna var ekkert annað að gera en að einhenda okkur í að ganga frá tengingu vatnslagna við borholufóðringuna og tryggja að lögnin verði orðin frostfrí áður en frostið læðist að. Eiginkonan og mágkona ákváðu að bjóða litháísku smiðunum upp á lambakótilettur í lok vinnudagsins. Það boð þáðu þeir með þökkum og þótti lambaketið gott. Sögðust aldrei hafa smakkað það kjöt áður. Ég fór hins vegar á fjall til að veiða. Á sunnudeginum rauk ég síðan í að tengja vatnslagnirnar við fóðringuna í borholunni og moka yfir. Það var dálítill léttir þegar því verkefni lauk. Í þessu ágæta landi erum við alltaf í kappi við veðrið.
Smiðirnir fara heim 13. - 16. september

Alveg er það magnað hvað allt er á áætlun í þessari framkvæmd okkar. Smiðirnir áttu að skila húsinu þann fimmtánda september og þeir skiluðu húsinu klukkan þrjú þann fjórtánda september. Næsta verk var síðan að skila þessum ágætu mönnum til síns heima. Þeir viðurkenndu það blessaðir á föstudeginum að þeim var dálítið létt að verki var lokið og að þeir áttu flug heim á sunnudagsmorgninum. Við Guðrún fórum þann morgun á fætur klukkan hálf fimm svo við næðum að koma körlunum í tæka tíð út á flugvöll.
Við sjáum ekki eftir að hafa ákveðið að skipta við Ekobustas. Fyrirtækið virtist vera vel að sér í íslenskri byggingareglugerð og allt sem sagt var stóðst eins og stafur í bók. Ég tók að mér að vera bílstjóri þennan morguninn og Guðrún þreif og skrúbbaði íbúðina á meðan. Þegar ég kom til baka hófumst við strax handa við að rýma íbúðina sem við höfðum leigt og mublað upp fyrir smiðina svo þeir gætu nú haft það sæmilega notalegt á meðan þeir voru að vinna fyrir okkur. Sem betur fer þá fengum við góða hjálp að sunnan því það tekur aðeins á að bera húsgögn úr heilli íbúð af annarri hæð. Við vorum minnug þess hve framlág við vorum orðin þegar við drösluðum húsgögnum og öðru upp í íbúð. Í byrjun ágúst.
Á mánudeginum lögðumst við Guðrún síðan í að smíða inngang inn í húsið. Lóðin fyrir utan er auðvitað ófrágengin og aðgengi að nýja húsinu þannig að hætta er á að einhver steypist á hausinn í mölina. Við náðum að rigga upp einum bráðabirgðapalli áður en við þurftum að drífa okkur í bæinn því það þurfti að skila vinnupöllunum svo fljótt sem auðið var. Ekki viljum við borga leigu fyrir fleiri daga en þörf er á. Vinnupallana leigðum við hjá Verkpallar ehf.
Dæla og gifs 20. - 23. september

Við keyptum nýja borholudælu í vikunni af Landvélum og settum hana niður um helgina. Dælan er af tegundinni Speroni SX 40-13. Dælan er 0,55 kw sem á að vera nægjanlegt afl til að skila vatninu upp úr holunni og inn í húsið. Hún er með innbyggðan einstefnuloka svo ekki er hætta á að vatn leki til baka á móti dælunni. Dælan var tengd við 32 mm plaströr. Öryggisvír og og rafmagnskapallinn voru strappaðir á plaströrið. Rörið inn í hús er síðan 25 mm sem á að vera nógu breitt miðað við ráðleggingar. Við Kristján höfðum reynt að leggja lagnir frá borholunni inn í hús í þægilegum boga svo það væri auðvelt að draga kapal í gegn. Það reyndist samt ekki eins auðvelt og við vonuðum því það reyndist dálítið bras að koma honum frá holu og inn í hús. Á endanum tókst það þó. Kapallengdin var 45 metrar frá dælu inn í lagnaherbergi. Við erum ekki enn komin með vatn því það á eftir að ganga frá öllum pípulögnum í húsinu og tengingum í lagnaherberginu og síðan þarf að setja upp stýringu fyrir dæluna. Við viljum síður lenda í því að bræða úr nýju dælunni eins og við gerðum með gömlu dæluna. Dælan kostaði 116.000 kr. en þegar stýringin og annað sem þurfti er talið með kostaði dælubúnaðurinn 248.000 kr. Vonandi reynast allar upplýsingar sem við fengum réttar og búnaðurinn reynist vel.
Borholudælan var ekki eini búnaðurinn sem var keyptur í vikunni. Við keyptum varmadælu og 200 lítra neysluvatnskút ásamt fylgihlutum ýmsum fyrir 1.834.000 kr. Við náðum að drösla henni uppeftir og er hún nú í geymslu inni í gám. Dælan sem við keyptum er af Mitsubishi PUD-SHWM100 VAA Zubadan 1 fasa gerð. Við gátum því miður ekki keypt þriggja fasa vélina sem við vorum áður búin að velja því við getum ekki fengið þriggja fasa rafmagn í Brautarlæk. Slíkur möguleiki er víst ekki í kortunum hjá RARIK á næstunni. Við keyptum einnig 200 lítra neysluvatnskút og hitatúpu, Mitshubishi EHST20D – TM9E Split Ecodantank.

Við náðum einnig að klæða einn vegg í lagnaherberginu með gifsi. Ástæða þess að við rukum í það var bara að við neyddumst til þess því von var á píparanum í vikunni til að setja kistuna upp fyrir gólfhitalagnirnar. Síðan þurfti að færa rafmagnsdósir til á baðherberginu því þær voru á frekar óheppilegum stað. Síðan var rokið með tvær fullar kerrur, samtals 1,6 tonn af flotefni því nú þarf að fara að flota gólfin svo þau verði slétt þannig að hægt sé að leggja gólfefni á þau.
Undirbúningur fyrir flotun 27. - 29. september
Við komum með restina af flotefninu í Brautarlæk um helgina Þannig að nú bíða tvö tonn af flotefni þess að vera fleytt yfir gólfið. Ef þykkt flotsins verður að jafnaði 10 mm munu þessi tvö tonn duga. Kristján hafði unnið að ýmsum undirbúningi í vikunni eins og að koma geymsludóti í geymsluna svo þeir séu ekki fyrir og að laga raflagnagötin í veggjum svo rafmagnsdósirnar pössuðu í þær þegar búið er að gifsa.
Markmið helgarinnar var að síðan að undirbúa herbergin fyrir flotunina. Kristján hafði unnið hörðum höndum í vikunni við ýmsan undirbúning og Toddi pípari hafði sett upp kistuna fyrir gólfhitann og sett upp rafhitunartúpu til bráðabirgða fyrir veturinn. Við steyptum síðan í gólfplötuna í kringum öll niðurföll. Urðum að bíða með að steypa í sturtubotninn því við þurfum að setja sementsplöturnar upp í sturtuhornið áður. Síðan renndum við yfir gólfin í herbergjunum með slípirokk. Nú nálgast að allt sé klárt fyrir flotun um næstu helgi. Við tókum reyndar eftir því að það virtist hanga raki í horninu á suðurherberginu. Við teljum að það sé vegna þess að allt regnvatn af þakinu kemur niður í þetta horn. Það er þess vegna mikilvægt að drena það almennilega. Við lögðumst þess vegna í að grafa skurð fyrir hornið og niður með suðausturhlið hússins. Ætlum síðan að drena þá hlið að minnsta kosti fyrir veturinn.
Flotun og drenun 4. - 7. október
Við héldum að skýringin á rakanum í horninu þar sem sökkullinn er grynnstur lægi því mikla vatni sem kemur af þakinu og niður rennuna þarna í horninu. Við Kristján kláruðum að grafa skurðinn sem við Guðrún byrjuðum á um síðustu helgi og lögðum drenlögn meðfram lengstu hlið hússin og fyrir hornið. Við ákváðum að drífa þetta af fyrir veturinn. Upp úr þessu gröfum við víst ekki mikið úti við fyrr en um miðjan maí á næsta ári. Það er nefnilega allt að frjósa núna.

Við ætluðum að flota í tveimur áföngum og fyrri áfanginn var flotaður á laugardeginum. Mér hefur aldrei gengið vel að flota en Valli er vanur maður og hjálpaði okkur Kristjáni við þetta. Undirbúningurinn fólst í að slípa gólfið til. Bæði til að slípa allar nibbur niður og lækka bungur aðeins niður til að draga úr hæðarmun. Flot er nefnilega dýrt efni. Þetta var heilmikil púlsvinna á meðan á henni stóð en við vorum ekkert óskaplega lengi að ljúka við öll þrjú herbergin, baðið, lagnaherbergið og ganginn.
Þegar flotið var orðið þurrt sáum við að suðlægu hornin í syðsta herberginu þornuðu ekki. Það er áhyggjuefni því núna hefur verið þurrt. Núna teljum við að ástæðan hljóti að vera kuldaleiðni því varla er það vatnsuppsog því nú er ekkert vatn á ferð. Við eigum eftir að einangra sökkulinn að utan og einnig eigum við eftir að kveikja á gólfhitanum. Ég hef þá trú að þegar því er lokið muni þetta vera til friðs. Síðan fórum við Kristján í að undirbúa næsta hluta flotuninnar. Þ.e að rýma stofu og eldhússvæðið og síðan stendur til að slípa gólfið niður í vikunni.
Flotun – seinni hluti 11. – 13. október

Rakinn er greinilega kuldaleiðni. Þessa helgina hefur verið óhemju kalt. Mínús tíu gráður að nóttu. Núna sjáum við raka meðfram öllum veggjum og mest í hornum. Við ætluðum að flota seinni umferðina um þessa helgi en þar sem við erum ekki enn farin að dæla vatni upp úr borholunni þá þurtum við að sækja vatnið í lækinn. Til þess notuðum við brunndælu sem við áttum fyrir sunnan.

Á laugardagsmorgninum var von á Valla til að hjálpa okkur við að flota stóra rýmið. Áður en hann mætti á staðinn settum við dæluna í lækinn og dælum nægu vatni í fötur til að hafa til taks þegar flotun hófst. Auðvitað hafði frosið í læknum yfir nóttina og þykktin á ísnum var orðin einn og hálfur sentímeter. Flotunin gekk vel en því miður gátum við ekki lokið við flotunina því það er leiðinda bunga á gólfinu miðju þar sem steypan var of þykk þegar við steyptum plötuna. Þessa bungu þurfum við að fræsa niður og flota aftur. Það verður annað hvort verkefni vikunnar eða næstu helgar.
Við ákváðum að setja spörtlun og málun á lagnaherberginu í forgang svo það sé hægt að setja allan þann búnað sem þar á að vera upp um leið og iðnaðarmennirnir mæta á svæðið.
Við óskuðum eftir stækkun á heimtaug hjá RARIK. Stækkun á heimtauginni er bráðnauðsynleg tengingin í gamla húsið var 35 A sem var það slöpp að við gátum ekki eldað á eldavélahellu og ljósin flöktu ef örbylgjuofn var settur í gang. Við náðuðum að spartla eina umferð yfir lagnaherbergið áður en við fórum í bæinn á sunnudeginum.
Spörtlun, málun og einangrun sökkuls 18. - 20. október
Við Guðrún komum í dalinn á föstudeginum og almáttugur hvað rigndi um kvöldið og á laugardeginum. Vegna þess hve kuldaleiðnin upp eftir sökkulvegginn og þar með raki í hornum og meðfram veggjum er mikill ákváðum við að taka tíma í að einangra sökkulinn með 40 mm múrplötum og 20 mm þar sem ekki var hægt að hafa einangrunina þykkari. Það var greinilegt að drenunin virkar og regnvatnið af þakinu fer rétta leið. Að morgni sunnudags var ekki kominn kuldapollur inn þannig að hugsanlega gerir þessi aðgerð eitthvað gagn.
Vetrarfrí 24. - 28. október

Nú er vetrarfrí þannig að nokkrir góðir dagar munu gefast til að þoka verkinu áfram. Fríið hófst á leiðindaverki. Okkur tókst ekki að ljúka við flotun gólfsins vegna þess að í miðri stofunni var bunga sem þurfti að slípa niður. Við leigðum airtec gólfræsivél hjá Byko í verkið og leist þannig á í upphafi að við yrðum fljótir að jafna fræsa bunguna niður. Fyrsta tilraun til verksins fór ekki vel. Fyrir viku síðan leigðum við græuna og ætluðum að hespa verkinu af en vélarskömminn bilaði eftir tíu mínútna fræsingu. Önnur tilraun var gerð á miðvikudagskvöldinu og verkið reyndist ekki það áhlaupaverk sem við héldum. Við fræsuðum sem enginn væri morgundagurinn í fjóra klukkutíma samfellt og lukum verkinu morguninn eftir. Samtals tók verkið sex klukkutíma.

Síðan var restinni af helginni varið í gifsun og spörtlun á forstofuherbergjunum. Tókum reyndar smá hlé á laugardeginum til að taka á móti félögum í smíðaklúbbnum og að heimsækja einn þeirra sem er eins og við að brasa í húsbyggingu. Hann er í Leirársveitinni með sína framkvæmd. Áhugavert mjög er að bera þessi tvö verkefni saman. Núna erum við að vona að Rarik nái að leggja nýjan streng sem ber stærri heimtaug svo við getum keyrt þann búnað sem nútíminn og við gerum kröfur um. Við erum, höldum við, háð veðrinu og veturinn er svo sannarlega að setjast að. Of mikið frost hlýtur að skipta máli þegar plægja þarf streng í jörð hlýtur að skipta máli. Um helgina kom tíu stiga frost í tvígang. Ekki leist okkur á það en síðan hlýnaði og þarð rigndi eldi og brennisteini. Eiginlega dæmigert fyrir íslenskan vetur.
Enn er spartlað 1. - 3. nóvember

Þessi spartlvinna mun ekki ganga hratt því spartlið er heila tvo sólarhringa að þorna. Við getum því ekki spartlað nema eina umferð um hverja helgi. Við Kristján spörtluðum bæði herberginn og forstofuna. Þar sem við gátum ekki pússað herbergin þá gifsklæddum við sjónvarpsholið og klæddum klósettkassana með tettiplötunum. Meira var nú ekki gert þessa helgina.
Við urðum aðeins efins um að pípararnir hefðu stillt hæðina á klósettkössunum rétt því þeir voru í krinum 26 cm háir og verða því í kringum 25 cm þegar búið er að leggja gólfefnið. Leiðbeiningarnar með kössunum segja að þeir eigi að vera 23 cm háir en píparinn sagði það vera af og frá. Það vildi enginn hafa klósettkassana svo lága. Við bara treystum því.
Rafmagn 13. - 17. nóvember

Það var jökulkalt um helgina og snjóföl yfir öllu. Í vikunni lagði Rarik burðarmeiri streng frá fjárhúsunum í Króki og yfir að girðingunni þar sem Brautarlækjarspildan mætir Krókslandinu. Við fjárhúsin var sett spennistöð og tengikassi við Brautarlæk. Strengurinn frá Króki ætti að halda spennunni nógu vel til að strengurinn gamli nýtist okkur áfram. Vandinn áður var sá að strengurinn var allt of grannur til að flytja nægt rafmagn alla 526 metrana frá Króki að Brautarlæk. Granni strengurinn ræður við að flytja nægt rafmagn þessa fáu metra frá tengikassanum yfir í nýja mælikassann sem við Arnar hengdum á nýja húsið. Við erum sem sagt komin með 80A í stað 35A.
Við Arnar nýttum síðan helgina í að leggja rafmagnslagnir frá eldhúsi yfir í lagnaherbergið og Guðrún málaði herbergin og forstofuna. Sem betur fer tókum við eftir því að rörið sem átti að liggja úr suðurherberginu yfir í útiljós hafði skorist í sundur á bárujárninu þannig að það var smávegis aðgerð að lagfæra það. Við getum fljótilega farið að gista í herbergjunum.
Stjörnubjartur himinn 22. - 24. október
Stjörnubjartur himinn, tíu gráðu frost og vindur. Kælingin jafnaðist á við fimmtán gráðu frost. Hiti hélst í húsinu í kringum fimmtán gráðurnar. Við Guðrún kláruðum að mála suðausturherbergið og gifsklæddum norðurvegginn í stofunni. Mikið væri gott ef rafvirkinn kæmi í vikunni því þá gætum við klárað gifsunina.
Mynd hægri: Guðrún við tengikassan á lóðamörkunum. Mynd í miðju: Áfram mjakast gifsunin. Mynd vinstri: Grillað í tíu gráðu frosti.
Comments