Brautarlækjarannáll 2025 - Seinni hluti
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 8, 2025
- 10 min read
Updated: 2 days ago

Langþráð sumarfrí er hafið. Við reiknum að sjálfsögðu með því að ná að áorka heilmiklu í sumarfríinu því loksins verður meiri tími til að láta hendur skipta alla daga vikunnar en ekki bara um helgar. Við ætlum nú samt að gæta þess að vinna ekki yfir okkur því við erum búin að vera ansi dugleg undanfarið ár.

Við Guðrún tókum kvöldrölt niður að Beinhól sem er um hálfan kílómeter vestan við Brautarlæk. Þar er búið að gera um 150 fermetra púða undir grunn og bora fyrir vatni. Það er greinilegt að þarna stendur til að byggja hús.
Við byrjuðum á að gifsa í kringum efri gluggana og mála í kringum þá. Síðan gifsuðum við fyrstu umferð í kringum neðri gluggana og hurðirnar. Við fengum Hans Egilsson mjólkureftirlitsmann til að koma og tengja varmadæluna við neysluvatnskútinn. Hann loftæmdi og fyllti dæluna af gasi. Við höfðum ætlað að hækka dæluna aðeins til að lyfta henni örugglega yfir snjóinn. Við gengum þannig frá lögnunum að það verður mögulegt. Þessar dælur eru útbúnar þannig að þær afþíða sig þannig að það lekur niður af þeim vatn. Það gerir það að verkum að það getur safnast klaki upp fyrir neðan dæluna þannig að það er eins gott að lyfta henni aðeins upp. Einnig má gera ráð fyrir að snjór safnist fyrir við húsvegginn fyrir framan varmadæluna. Í vetur kemur í ljós hvort við þurfum að byggja einhvern skjólvegg til að beina snjónum frá dælunni.
Við áttuðum okkur á að við hefðum átt að setja 7,5 cm rör til að auðvelt yrði að þræða pípurnar í gegn en höfðum fengið þær upplýsingar að 5 cm m. rör dygði. Aldrei skyldi maður taka ráðum blint. Vorum með annað rör 3,2 cm fyrir rafmagnskapalinn. Á myndinni til hægri má sjá hvar rörin tengjast við neysluvatnskútinn.
Við lögðum flísarnar á baðherbergisgólfið. Sú lögn gekk vel en lentum í ógöngum þegar við lögðum flísarnar á veggina. Við Guðrún vorum búinn að mæla og strika neðstu röðina kórrétt á vegginn. Síðan þegar við vorum að klára að líma neðstu flísaröðina á þá munar næstum sentímeter þegar við vorum komin hringinn. Hér var einhver ónákvæmni í gangi. Í ljós kom að ég hafði þegar ég lagði flísarnar ruglast á línum. Við vorum búin að strika fleiri línur þegar við vorum að finna út úr þess og ég einfaldlega valdi ranga línu til að elta. Eitt höfum við lært í svona framkvæmdabrasi er að sætta okkur ekki við svona ónákvæmni þannig að við rifum flísarnar sem búið var að leggja og byrjuðum upp á nýtt.
Flísalögnin gekk hratt og vel fyrir sig. Við sáum þó að gólfið var ekki nóg rétt á baðinu sem átti eftir að valda smá heilabrotum þegar hurðin var sett upp. Það er sérlega mikilvægt að vanda sig við fyrstu röðina því eftir það rekur lögnin sig nokkuð sjálf. Skekkjan kom í ljós í horninu hægra megin á myndinni til vinstri.
Það er gaman að fylgjast með fuglalífinu í kringum okkur. Þeir eru allir á fullu að sinna ungum og verja þá. Það er að minnsta kosti eitt kríupar á áreyrunum neðan við Melatúnið. Spóinn er áberandi og heyrist stöðugt vella í móunum í kringum bústaðinn. Rjúpan hefur verið með okkur í allan vetur og hefur gert sér hreiður í Brautarlækjarlandinu. Það er slatti af þröstum í trjánum okkar og maríuerlan er byrjuð að kenna ungunum að bjarga sér. Hér hefur alltaf verið hrossagaukur og lóa en ég hef ekkert orðið var við þá fugla í sumar. Þeir eru nú samt hér því Guðrún hefur heyrt í þeim. Það er ekki svo að fuglarnir lifi hér í fullkomnu öryggi því við höfum orðið vör við fálka á sveimi í kringum okkur. Hrafninn er hér einnig en eins og venjulega heldur hann sig uppi í hömrunum á sumrin.
Nú hefur einn fugl til viðbótar bæst í hópinn, sílamáfur. Toddi píp hefur séð um pípulagnirnar hjá okkur og hann lauk sinni vinnu um miðjan mánuðinn. Loksins, loksins erum við komin með vatn á kerfið. Eða það héldum við rétt eftir hádegi fimmtudaginn fimmtánda júlí. Píparinn nýfarinn og það fór að leka. Ekki skemmtilegt. Okkur sýndist leka með gengju á kaldavatnslögninni. Hugsanlega nægir að herða upp á og málið dautt. Málið vandaðist málið þegar í ljós kom að við eigum ekki skrúflykil sem passar upp á róna. Þann lykil fundum við í Húsasmiðjunni í Borgarnesi og náðum að herða. Núna þurfum við að læra á þetta kerfi því það er frekar óþægilegt að vera með vatnskerfi dælandi um húsið og skilja ekki alveg hvernig það virkar.
Það hefði ekki verið fallegt að vera með áberandi hvíta hringi í loftinu. Við drifum í að redda hornljósinu því við vildum nota stóra vinnupallinn í verkið svona upp á öryggið. Hitaneminn sýnir það hitastig sem er og síðan er ýtt á hakið til að sjá hvaða hita er verið að biðja um.
Við lukum við flísalögnina á baðherberginu og settum hreinlætistækin upp. Það að fá klósett er svo sannarlega tilefni til hátíðarhalda því klósett sem virkar eru mikilvæg lífsgæði. Síðan var áherslan lögð á að klára loftlistana og annað sem krafðist þess að við notuðum stóra vinnupallinn. Hann var síðan tekinn niður og þá varð heldur betur pláss í stofunni.
Um leið og baðflísarnar voru komnar upp var klósettið standsett og bráðabirgðavaskur settur upp. Þá var hægt að flytja inn.

Næst var það parketlögnin. Við völdum að setja vinylparket með eikarútliti á gólfið. Sú lögn gekk hratt og vel. Settum stóra vinnupallinn aftur saman og settum loftljósið í horninu upp. Okkur þótti það öruggara en að reyna að vinna þetta úr stiga enda er hátt til lofts. Síðan færðum við kaffivélina yfir í nýja húsið og þá teljumst við vera endanlega flutt úr smíðaskúrnum. Heimilið er nefnilega þar sem kaffivélin er. Síðasta verk áður en sumarfríi lauk var að setja hurðirnar upp.
Veiðiferð 8. - 10. águst

Núna erum við komin á þann stað í Brautarlækjarverkefninu að við getum leyft okkur aðeins að slaka á og sennilega er bara kominn tími á það. Þess vegna gerðum við hjónin ekki neitt í framkvæmdum þessa helgina en fórum þess í stað í veiðitúr. Ókum á fjall svo langt sem hægt var og gengum rest. Vorum hálf kvíðin fyrir göngunni en merkilegt nokk þá komum við niður af fjalli á fót en oft áður. Í farteskinu voru fimm 2. - 4. punda urriðar.
Símalausir menn 22. - 24. ágúst
Þessa helgina ætluðum við okkur að steypa hækkun á stöpulinn undir varmadæluna. Það er nauðsynlegt að gera það og festa hana niður svo hún þrauki harða veturna þarna uppi í dalnum. Við Kristján skutumst okkur til gamans rétt fyrir myrkur á föstudagskvöldinu upp á Holtavörðuheiðinni. Á háheiðinni bilaði bíllinn. Hann festist í park og við strand. Við vorum sem sagt komnir í vond mál. Hvorugur okkar með síma og báðir á skyrtunni. Það var ekkert annað að gera en að ganga áleiðis af stað til byggða og freista þess að húkka far. Við gengum báðir af stað en hver bíllinn á fætur öðrum ók fram hjá okkur og sumir flautuðu. Við reyndum samt með látbragði að gefa til kynna að við værum í vandræðum. Fólki hefur greinilega þótt eðlilegt að sjá tvo menn á skyrtunni gangandi undan hallanum svona rétt áður en myrkrið skylli og vegalengdin niður af heiðinni um það bil hálft maraþon.

Við ákváðum að sennilega væri betra að annar gengi áfram en hinn biði í bílnum. Kristján sneri því við en ég hélt áfram undan hallanum. Umferðin var orðin lítil og á örskammri stundu skall myrkrið á. Þá loksins stoppaði bíll. Í honum voru fjórir ungir piltar. Það voru fjórir ungir piltar í Knattspyrnufélaginu Hvöt sem lásu rétt í aðstæður. Síðmiðaldra karl á göngu meðfram þjóðveginum uppi á háheiði og tuttugu kílómetrar til byggða. Karlinn hlaut að vera í vandræðum. Þessum ungu mönnum kunnum við góðar þakkir fyrir hjálpina því þeir voru fúsir til að ferja göngumanninn niður af heiðinni. Minni þakkir kunnum við öllum þeim sem óku bara pirraðir fram hjá. Hvernig hefðu þeir viljað að viðbrögð annarra ökumanna hefðu verið ef þeir hefðu lent í svipuðu?
Á laugardeginum fundum við lausn á bílavandamálinu og steyptum síðan stöpulinn undir varmadæluna.
Loftfimleikar 29. - 31. ágúst
Það viðraði vel þessa helgina. Við lukum við að ganga frá varmadælunni á stöplinum sem við steyptum upp um síðustu helgi. Snjóhlífarnar eru komnar á hana einnig og ætti hún því að geta staðið vetraráhlaupin af sér. Við settum húna á allar hurðir og síðan settum við bráðabirgða ljós upp fyrir ofan eldhúsborðið. Það kostað smávegis loftfimleika að koma því upp. Annað var nú ekki gert þessa daga.
Auðnu og þúfutittlingar 5. - 7. september
Það er ennþá sumarhiti í lofti sem er ansi gott í fyrstu vikunni í september. Berin eru ennþá góð og hafa stækkað mikið í vikunni. Í ár er nóg af berjum enda hefur sumarið verið hlýtt og gott. Þau stækkuðu samt seint sem er sennilega lítilli úrkomu að kenna. Trén utan við gluggana hjá okkur voru full af auðnu- og þúfutittlingum. Fuglarnir voru að sækja í fræin sem nóg er að núna.
Ég byrjaði helgina á því að klára að moka yfir ljósleiðarastrenginn og fór síðan í að tengja þvottavélina og setja sturtuklefann upp. Það verk fór ekki vel því skrúfurnar sem áttu að halda hurðunum í sleðunum á veggjunum voru svo veikar að hausinn á þeim brotnuðu. Við gátum því ekki klárað verkið og sleðinn rispaðist aðeins. Byrjuðum á því að setja upp gereftin í kringum hurðirnar. Á sunnudeginum var komið frekar dæmigerður septemberhráslagi. Konurnar tæmdu allt matarkyns úti í smíðaskúr áður en við héldum heim.
Borðsög og sólbekkir 19. - 21. september
Það var norðanátt þegar við komum í Brautarlæk á föstudagskvöldinu. Að morgni var skæni í vatnsfötunni úti við smíðaskúrinn og héla á bílunum. Það hefur greinilega frosið ágætlega um nóttina. Laugardagsveðrið var einstaklega fallegt. Við settum saman nýju borðsögina og fyrsta verkefnið sem hún fékk var að saga sólbekkina niður í réttar stærðir. Nýja grænjan virkaði sérlega vel sem er eins gott því hún kostaði skildinginn.
Veturinn mætti hinn fyrsta vetrardag 26. - 28. október
Veturinn mætti í dalinn vetrardaginn hinn fyrsta. Það var snjóföl yfir öllu og dálítið frost í Brautarlæk þegar við Kristján komum í hlaðið daginn eftir fyrsta vetrardag. Við ætluðum að reyna að mjaka verkum eitthvað áfram. Það er nefnilega svo að þótt við teljum okkur vera langt komin með Brautarlækjarhúsið þá er nú samt ýmislegt eftir.

Vatnið sem við fáum úr borholunni okkar er alls ekki nógu gott. Það er frekar gruggað og þótt við dælum út til að hreinsa holuna þá er alltaf eitthvað stein- eða járnbragð af vatninu. Við fengum það ráð frá tveimur aðilum að færa dæluna ofar í holuna. Hún var á 21 metra dýpi en holan er fóðruð niður á 24 metra. Mögulega fáum við betra vatn ef við látum dæluna vera meira innan fóðringar og nær yfirborðinu. Það eru heilir tíu metrar niður á vatnið þannig að við létum nægja að færa dæluna upp um átta metra. Hún er þá núna á þrettán metra dýpi. Ekki gekk hjá okkur að dæla út í læk vegna þess að núna er allt frosið í lögninni frá húsi niður í læk. Létum vatnið í staðinn renna í gegnum kranana. Í fyrsta sinn gerðist það að dælan stoppaði vegna þess að henni vantaði vatn. Okkur sýnist vatnið vera aðeins hreinna núna en það er samt ennþá járnbragð af því. Við getum samt drukkið vatnið en þykir samt betra að koma með drykkjarvatn að heiman.

Um síðustu helgi fluttum við eldhúsinnréttingu í Brautarlæk. Innréttingin sú kostaði okkur heilar 75 þúsund krónur með eldavél, bakaraofni, viftu og uppþvottavél. Það verður nú að teljast frekar vel sloppið. Innréttinguna keyptum við af konu í Akurhvarfinu í Reykjavík. Hún vildi losna við innréttinguna hið snarasta þannig að við tókum hana niður um síðustu helgi og fluttum í Brautarlæk. Þessa helgina byrjuðum við að setja hana upp. Náðum að setja upp efri og neðri skápa og ísskápahólfið áður en við urðum að drífa okkur í bæinn því það spáði illa fyrir höfuðborgarsvæðið. Það var lítill snjór í Brautarlæk en þegar nálgaðist Borgarnes byrjaði að snjóa og það var ágætir snjór í Borgarnesi. Snjórinn í Borgarnesi var samt ekkert miðað við Reykjavík. Þar var met snjó. Fjörutíu sentímetra snjór lá yfir öllu borgarlandinu. Við tók nokkurra klukkutíma snjómokstur.
Eldhúsinnrétting og útiljós 31. október - 2. nóvember
Snjórinn er allur farinn. Við Kristján settum eldhúsinnréttinguna á vesturvegginn og erum núna erum við komin með hreint ágæta innréttingu þótt ekki sé hún ný. Hún lítur samt ágætlega út. Ég hefði í það minnsta aldrei tímt að láta hana fyrir svona lítið fé.
Núna er tími myrkursins framundan og tími til kominn að hengja upp og tengja útiljósin. Við fengum Límtré Vírnet til að smíða járnplatta undir ljósin. Járnplattarnir eru nauðsynlegir svo við fengjum sléttan flöt til að hengja ljósin á. Það þarf sjálfborandi skrúfur til að festa ljósin á plöturnar og plöturnar á bárujárnið. Skrúfurnar sem við notuðum til að festa járnið á húsið voru kjörnar í þetta verk. Ekki fengum við nú samt ljós. Erum með eitthvað fjandans sólúr sem við gátum ekki stillt. Þessi nýmóðins tækni getur verið alveg hreint hundleiðinleg. Við finnum út úr því næst.
Norðurljós 14. - 16. nóvember
Við lögðum síðustu hönd á uppsetningu eldhúsinnréttingunnar um helgina þegar við klæddum sökklana, settum upp viftuna og framlengdum borðplötuna á vesturskápunum út í vegg. Útiljósin sem við settum upp í síðustu viku loga en á undarlegum tímum. Við hljótum að ná að stilla eitthvað vit í þau þegar við leggjumst í leiðbeiningar með sólúrinu sem stýrir ljósunum. Ljósin til dæmis loguðu í einhvern klukkutíma þegar við komum og síðan slökknaði á þeim. Ég vaknaði síðan klukkan fjögur aðfararnótt laugadagsins og þá loguðu þau glatt.
Takmark helgarinnar var að leggja gólfefni á geymsluna ofan við gestaherbergið og tæknirýmið. Það tók ekki nema einn dag þannig að við höfðum smávegist tíma til að halda áfram með gólflistana á neðri hæðinni. Núna höfum við stað fyrir geymsludótið sem má ekki vera í köldu geymslunni úti. Geymsludótinu var því skutlað upp á loft og það er orðið frekar snyrtilegt hjá okkur.
Getum við ekki haft þetta heimilislegra? 12. - 14. desember

Síðasta ferðin í Brautarlæk á árinu 2025 var rólegheitaferð. Það var nú samt ekki þannig að við gerðum ekki neitt. Okkur fannst kominn tími á að reyna að gera húsið aðeins heimilislegra. Berir, hvítir veggirnir æpa á okkur og það þykir okkur frekar kuldalegt. Við settum þar af leiðandi myndir og dót á veggina. Það sem á veggina fór var það sem var í gamla húsinu og munir eða myndir sem kom úr búi Haraldar og Sigurbjargar. Við erum ekki frá því að nú sé orðið heldur hlýlegra hjá okkur núna. Það þurfti ekki mikið til þess. Við skutluðum einnig upp ljósum sem við áttum í fórum okkar. Erum ekkert að hugsa um samræmi. Notum bara það sem er til.

































Comments