Brautarlækjarannáll 2025 fyrri hluti
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jan 13, 2025
- 9 min read
Updated: Jun 30, 2025
Nýtt ár heilsar með frosti og snjó 1. janúar

Nýja Brautarlækjarhúsið var vígt í áramótaferðinni þegar sofið var í því í fyrsta sinn. Það voru Harpa, Lilja, hundarnir og Imba og Kristján sem vígðu húsið. Við Guðrún sváfum í smíðaskúrnum eins og áður. Við erum ennþá að hita húsið með tveimur rafmagnsofnum og einum litlum blástursofni. Það er eiginlega magnað hve vel húsið heldur hita því þetta virðist duga og ekki er frostið lítið. Á nýársdag fór frostið í 20 stig, hvorki meira né minna.
Gifs og rafmagn 10. - 12. janúar

Fyrsta vinnuferðin í Brautarlæk var farin aðra helgina í janúar. Það hefur slaknað á frostinu og núna komin hláka. Hitinn er 2 – 4 gráður og engin úrkoma þannig að bráðnunin er ekkert óskaplega hröð. Ennþá er ekkert aðgengi að vatni í læknum. Það verður víst sloti áfram þannig að hugsanlega náum við vatni úr læknum um næstu helgi.
Við Kristján fengum góða hjálp um helgina frá Guðrúnu og Lilju sem komu með okkur og spörtluðu fyrstu umferð á suðurvegginn í stofunni. Á meðan vann ég í rafmagnslögnum í geymslunni fyrir ofan herbergið og Kristján hélt áfram að gifsa.
Áfram er gifsað og unnið í rafmagni 16. - 21. janúar
Í síðustu viku slakaði veturinn aðeins á klónum og það rigndi óskaplega. Mikið tók upp af snjónum en núna hefur veturinn hert tökin á ný. Þessa dvalardaga hefur verið hörku vetrarveður. Fjögurra gráðu frost og skafrenningur. Sem betur fer fylgdi veðrinu lítil úrkoma.
Á fimmtudeginum mætti rafvirki á svæðið og það kætti okkur mjög. Þeirra vinna er orðin forsenda þess að við getum haldið áfram að koma húsinu í íbúðarhæft ástand. Þótt það væsi ekkert um okkur Guðrúnu í smíðaskúrnum erum við farin að sjá að í hyllingum að losna úr honum. Ég vann með rafvirkjanum, bæði á fimmtudag og föstudag sem var mjög gott því þá gat hann spurt um allt sem hann var óviss um. Kristján og Imba mættu um helgina og við unnum áfram á laugardag og sunnudag.
Það hafði slotað nægjanlega mikið til að við gátum sótt vatn í lækinn. Búin að gifsklæða suðurvegginn.
Við klæddum suðurvegginn í stofunni og einnig gestaherbergið. Gott er að losna við gifsið af gólfinu og á veggina. Það þýðir minni forfæringar í framhaldinu. Við unnum einnig aðeins áfram í rafmagninu.
Og það snjóar bara og snjóar 24. - 26. janúar
Strax að lokinni vinnu á föstudeginum ruku vinnumennirnir í Brautarlæk, ég og Kristján úr bænum og upp í dal. Hugur okkar stóð til þess að sjá íslenska karlalandsliðið tryggja sig áfram í átta liða úrslitin á heimsmeistaramótinu í handbolta. Það gerður þeir ekki og eiga núna litla möguleika á því að komast áfram. Það byrjaði að snjóa rétt austan við Borgarnes og hélt áfram að snjóa inn í nóttina. Þegar við vöknuðum á laugardagsmorgninum lá tuttugu sentímetra snjóföl yfir öllu og allt umhverfið mjög fallegt á að líta.
Kristján hafði verið með rafvirkjunum fyrri part vikunnar. Þeim tókst að ljúka að mestu við að leggja fyrir rafmagninu. Einungis á eftir að ganga frá lögnum fyrir hitastýringar í tæknirýminu. Kristján lauk við að græja það á meðan ég lokaði veggjunum í geymslunni fyrir ofan gestaherbergið. Á sunnudeginum settum við veggjadósirnar í veggina.
Næstum strand 7. - 9. febrúar
Það var fínasta veður um helgina. Smávegis snjókoma. Í vikunni fyrir helgina var fádæma slæmt veður, eiginlega fárviðri. Þegar við Kristján komum að hliðinu sáum við að bárujárn lá hér og þar í suðausturhorninu á spildunni okkar. Ég verð að viðurkenna að ég var feginn því að klæðningin var öll enn á húsinu. Þetta var sem sagt járnið sem gekk af þegar húsið var klætt í sumar. Við höfðum greinilega ekki fergt það nógu vel. Allt var í stakasta lagi. Það er ekki einleikið hvað við erum alltaf heppinn. Járnið hefði svo auðveldlega getað fokið í gluggana. Við Kristján einhentum okkur í að leggja flísar á gólf tæknirýmisins og klára að setja rofadósirnar í veggina.

Við sáum að það var ekki ljós í Króki þannig að okkur grunaði að það hefði slegið út. Við ætluðum að skjótast yfir og kanna málið en þá var Hondan steindauð. Við gengum því yfir að Króki. Það var greinilega útleiðsla einhvers staðar en okkur tókst að slá rafmagninu aftur inn. Við vorum níutíu prósent vissir um að geymirinn væri vandamálið svo við fengum Guðrúnu og Lilju til að kaupa nýjan geymi og skjótast til okkar á sunnudeginum. Þær komu með nýjan geymi, reyndar geymi sem passaði ekki en sem betur fer þá startaði bíllinn bara eins og ekkert hefði í skorist. Það hafði hlýnað þannig að sennilega var það frostið sem olli þessu.
Öll hjálp er vel þegin 22. - 25. febrúar

Ekki var dæmigert febrúarveður þegar við Lilja mættum í Brautarlæk um vetrarfríshelgina. Það var hlýtt og rigning. Við gátum ekið alla leið upp að húsi sem er nú sjaldnast hægt á þessum árstíma. Við kláruðum flísalögnina á tæknirýminu, stilltum neysluvatnskútnum upp og fundum út hvernig við gætum gengið frá varmadælunni fyrir utan húsið. Sáum að það er ekki mikið pláss fyrir klósett þegar neysluvatnskúturinn er kominn inn í rýmið en við höldum að það muni samt ganga. Kristján kom á mánudeginum og spartlaði aðeins.
Varmadælan 27. febrúar - 1. mars
Við Kristján hefðum átt að hafa steypustöplana sem áttu að vera undir varmadælunni aðeins stærri. Þessi dæla var heldur meiri að umfangi en við reiknuðum með. Það tókst samt að bora festingarnar í stöplana og með góðri hjálp hraustra kvenna að setja varmadæluna á sinn stað utan við tæknirýmið. Guðrún og Lilja voru öflugar í spörsluninni þannig að okkur tókst að sparsla fyrstu umferð yfir geymsluna og einnig gestaherbergið.
Á myndinni til vinstri erum mæðginin við innganginn í Króki. Á myndinni til hægri erum við feðginin ánægð með okkur eftir að hafa dröslað níðþungri varmadælunni á sinn stað.
Páskafríið 15. - 21. apríl

Við erum aftur mætt í Brautarlæk eftir mánaðarlanga pásu frá framkvæmdum þar. Pásan var nauðsynleg en við getum ekki látið páskafríið líða hjá án þess að gera nokkuð. Það er besta frí ársins og getur verið drjúgt þegar staðið er í framkvæmdum sem þessum. Ég var fyrstu tvo dagana einn og nýtti fyrsta daginn til að taka til. Tiltektirnar tóku allan daginn en að þeim loknum vorum við komin með góðar aðstæður til að djöflast áfram í spörsluninni og það gerðum við. Það leiðindaverk mjakast áfram en ennþá er nokkuð í land. Guðrún kom á skírdag og Harpa, Lilja og hundarnir litu við hjá okkur og borðuðu páskalambið með okkur.
Við náðum einnig að setja loftaplötur í andyrið. Við keyptum loftaplöturnar í Litháen. Þær ættu að þekja 145 fermetra þannig að það mega ekki verða mikil afföll. Loftaplötufestingarnar fengum við í Húsasmiðjunni. Hver pakki með 250 festingum þekja tíu fermetra þannig að við þurfum 13 pakka.
Sumargesturinn er kominn 24. - 27. apríl

Okkur til mikillar gleði kom sumargesturinn okkar á föstudaginn. Þá sáum við til maríuerlunnar að veiðum í kringum húsið. Hún hefur úr einhverju að moða því það ætlar að vora snemma í ár. Veðrið í þessari dvöl hefur verið sérlega gott. Hiti 10 – 16 stig og smávegis væta hefur komið á kvöldin og yfir nóttina. Náttúran er þremur vikum til mánuð fyrr að taka við sér en í fyrra. Það er svo sannarlega góðs viti.
Kristján vann við spörslun frá seinni part þriðjudags og við Guðrún mættum á fimmtudeginum. Þetta varð til þess að það ávannst heilmikið. Guðrún og Kristján náðu að sparsla öll rými og mála. Á meðan vann ég við að ganga frá lagnagrindinni. Ég gróf einnig upp ljósleiðarastrenginn sem við vorum búin að leggja inn í hús því við ákváðum að færa ljósleiðaraboxið inn í tæknirýmið og taka hann inn vestan megin við húsið. Þetta þýðir að við verðum að fá lengri streng. Tókum síðan til og tókum saman efnislista fyrir næstu vinnuferð. Stór áfangi hefur náðst því maður var farinn að halda að sparslvinnan yrði endalaus.
Loftaplötur 30. apríl - 4. maí

Næsti áfangi í smíði nýja Brautarlækjarhússins er að henda upp loftaplötum. Við Guðrún höfum síðustu fjóra daga hamast við en verkið sækist seint því þetta er seinleg vinna. Þetta er víst ekki bara að henda plötunum upp. Það er betra að vanda sig, taka tíma í það og vera ánægður með verkið þegar því loksins lýkur. Það tók okkur einn langan vinnudag að setja steinull í loftið og á næstu þremur dögum lögðum við 19,7 fm af loftaplötum í stóra rýmið í stofunni. Samtals erum við þá búin að setja 23,0 fm af plötum í loftið sem er 18% af þeim 128 fm sem við loftið er. Þetta mun taka dágóðan tíma.
Vor voranna 23. - 25. maí

Þetta er vor voranna. Við höfum ekki upplifað svona gott vor nokkru sinni enda eru trén öll orðin allaufguð og gróðurinn er eins og það sé komið mitt sumar. Nú er bara að njóta á meðan er því enn er í fersku minni hve vorið og sumarið í fyrra var hörmulegt. Jói á gröfunni sagði að það hefði ekki komið svona gott vor síðan 1973.
Jói á gröfunni kom þessa síðustu helgina í mánuðinum til að grafa fyrir nýrri rafmagnslögn frá tengikassanum við lóðarmörk að húsinu. Þetta reyndist síðan óþarfa verk. Starfsmenn Rarik hafa verið að gefa okkur misvísandi upplýsingar. Einn segir að það verði að leggja aflmeiri streng að húsi á meðan annar segir það óþarft. Vegna þessa höfum við verið að kynda húsið með rafmagnsofnum í allan vetur. Það hefði verið hægt að tengja gólfhitann í nóvember. Við erum ekki par sátt við Rarik vegna þessa því þessu hefur fylgt óþarfa kostnaður og óþægindi. Málið endaði nefnilega með því að þurfum ekki nýjan streng. Við erum þá bara tilbúin með lagnaleiðina ef Rarik snýst hugur.
Við höfum ekki fengið almennilega skýringar á því hvers vegna starfsmenn Rarik tala svona í kross. Sá sem lagði strenginn frá Króki sannfærði mig. Samkvæmt honum þá ber 25 karata strengurinn sem er 107 Amper. Við erum að óska eftir stækkun á heimtaug upp í 80 A sem er feykinóg fyrir venjulega heimilisnotkun. Við munum aldrei nýta öll 80 Amperin. Spennufallið á þessari vegalengd verður 3 – 3,5% og það er engin reglugerð sem gerir kröfur um stærri streng. Þetta er víst að gerast víðar með umtalsverðum kostnaði fyrir þá sem lenda í þessari vitleysu.
Kláruðum suðvestur herbergið og komumst mjög langt með suðausturherbergið.
Húsgögn og loftaklæðning 30. maí - 1. júní
Við fluttum dálítið af húsgögnum á svæðið og héldum síðan áfram að klæða loftin.
Náðum að klára að klæða suðausturherbergið, litla herbergið og geymsluloftið. Þá eigum við aðeins eftir að klæða innra anddyrið, baðherbergið og lagnageymsluna. Já, það tekur drjúgan tíma að loka loftunum.
Rafmagn, loftalistar og sturtubotn 15. – 17. júní
Núna eru dagarnir bjartir og næturnar einnig, þurrt og hlýtt. Rafvirkjarnir unnu í rafmagnstöflunni í síðustu viku og settu tengla og rofa í flestar veggjadósir. Nýr inntaksmælir fyrir rafmagnið er kominn á austurvegg hússins.
Við Kristján dvöldum í Brautarlæk og náðum að áorka einhverju. Lukum við að steypa upp í sturtubotninn og ganga frá hallanum. Við grunnuðum gólfið og ættum að geta byrjað að flísaleggja um næstu helgi. Við stækkuðum kassann sem rafmagnsmælirinn er á og fjarlægðum þann gamla. Héldum við áfram að sníða loftalistana. Lukum við að setja lista upp í öllum herbergjunum, anddyrið og ganginn.
Laxinn er mættur 20. – 22. júní

Sumarið er að komast í algert algleymi. Venjulega mætir laxinn upp að Króki í kringum þjóðhátíðardaginn. Við Guðrún röltum því meðfram ánni og kíktum eftir laxi í leiðinni. Engan laxinn sáum við. Þegar einhver fiskur kominn liggur hann gjarnan í hylnum undir brúnni en ekki var hann þar. Núna er frekar lítið í ánni miðað við hve snemma sumars er og hylurinn krystaltær. Þegar við litum síðan á breiðuna ofan við Efri Ferjuhyl kemur einn gríðarstór syndandi upp breiðuna, áfram undir brúna og síðan í gegnum Brúarhylinn áður en hann hvarf upp í strauminn ofan við hylinn. Þetta var falleg sjón. Laxinn er mættur.

Við erum núna að fást við sitt lítið að hverju en kláruðum ekkert verk yfir helgina. Kvoðuðum sturtubotninn og lögðum upp hvernig við ætlum að leggja flísarnar á baðherbergisgólfið. Pússuðum og bárum tvær umferðir af Kjörvara 14 á burðarbitann í stofunni. Þótt sýnishornið í búðinni hafi verið nákvæmlega eins á litinn og loftaborðin þá náum við límtrésbitanum ekki í nákvæmlega sama lit. Sennilega er það vegna þess að þetta er annar viður eða viðurinn er öðruvísi unninn. Við þessu var svo sem að búast. Veltum einnig fyrir okkur hvernig við listum loftið meðfram burðarbitanum því það gengur ekki að hafa þá lista hvíta. Best væri að fá viðarlista í sama útliti er þeir nú fengjust einhvern staðar. Frágangur í kringum gluggana gluggana krefst einnig smá útsjónarsemi. Höldum að við séum búin að finna lausnina á því og byrjuðum að vinna í efstu gluggunum.
Áfram það sama 27. - 29. júní

Héldum áfram þeim verkum sem við vorum að vinna í um síðustu helgi. Fjórða umferðin máluð með Kjörvara 14 á bitann. Ákváðum að láta ekki vinna sólbekkina fyrir okkur en kaupa þá frekar í Bauhaus. Ástæðan sú að verðmunurinn var heilar 300 þúsund krónur. Sögunarvinnan er einföld þannig að við vinnum þetta bara sjálf á frekar góðu kaupi.
Við grófum skurð fyrir ljósleiðarann en því miður þurfum við að lengja hann svo hann nái inn í tæknirýmið. Það mun sennilega kosta okkur töluvert. Hefðum getað haft hann í stofunni og þá hefði hann náð en þá hefðum við þurft að græja lagnaleið áfram innanhúss inn í tæknirýmið og það hefði verið þó nokkuð mál.



























Comments