Færeyjar 2025
- Þorkell Daníel Jónsson
- Dec 27, 2025
- 8 min read
Updated: Dec 28, 2025
Rigning í Færeyjum

Í Atlandshafinu miðju eru tvær fámennar eyþjóðir hreint ekki svo lítið skyldar. Eyjarnar byggðust upp á svipuðum tíma þegar pirraðir Norðmenn sigldu yfir hafið á níundu öld til að losna undan leiðindunum í norska konungnum. Þessir víkingar höfðu viðkomu á bresku eyjunum og fluttu með sér breskar konur nauðugar eða viljugar. Þess vegna eru báðar þjóðirnar afsprengi norrænna manna og Kelta. Víkingarnir höfðu búfénað með í för en að öðrum húsdýrum ólöstuðum var það sauðkindin sem hélt lífinu í íbúum landanna og sjórinn gaf að sjálfsögðu einnig. Nýlegar litningarannsóknir á Íslendingum benda til þess að rúmlega 80% íslenska karla séu komnir af Norðmönnum og rúmlega helmingur íslenskra kvenna. Ekki er ólíklegt að svipaða sögu megi segja af Færeyingum. Nýjar rannsóknir benda þó til að Færeyingar geti í meira mæli en Íslendingar rakið ættir sínar til Svía og Dana einnig.

Tungumálin sem þjóðirnar tala eru af vestnorrænum uppruna og náskyld. Færeyskt ritmál eiga Íslendingar auðvelt með að skilja en skilningur á töluðu máli er heldur erfiðari. Ástæðan er framburðurinn. Hljóðið fyrir r á íslensku er rúllað en það er frammælt og raddað í færeysku svipað og í ensku. Tanntungumælt önghljóð eins og hljóðin fyrir stafina þ og ð eru ekki til í færeysku. Einnig hefur ýmislegt í málfræðinni einfaldast í færeyskunni. Sagnorðabeygingar eru einfaldari, eignafall er lítið notað og nefnifall og þolfall er alltaf eins í fleirtölu svo dæmi séu tekin.
Svo mikinn skyldleika væri synd og skömm að rækta ekki og þess vegna gerðum við Guðrún okkur ferð til Færeyja þetta haustið í félagi við Sigga bróður Guðrúnar og Kristbjörgu eiginkonu hans. Við Guðrún lögðum af stað frá Reykjavík eftir vinnu fimmtudaginn 8. október í stórgóðu ferðaveðri. Við höfðum nú samt vaðið fyrir neðan okkur og keyptum ný nagladekk fyrir ferðina þótt þrjár vikur væri í lögleg dekkjaskipti. Það átti svo sannarlega eftir að koma sér vel vegna þess að þegar við komum að skiltinu sem segir veðurtíðindi af Öxnadalsheiðinni þá stóð bara lokað á því. Á heiðinni var fljúgandi hálka og hríðarveður. Heiðin var aðallega teppt vegna bíla sem voru ekki nógu vel búnir fyrir vetrarfærð. Við lögðum nú samt á heiðina enda þóttumst við vel búin og yfir komumst við án nokkurra vandkvæða. Gistum í Tónatröðinni hjá Sigga og Kristbjörgu yfir nóttina. Daginn eftir ókum við til Seyðisfjarðar þar sem Norræna leggur að landi. Með henni ætluðum við að sigla til Færeyja.
Siglingin var tíðindalaus. Smávegis veltingur og mest sex metra ölduhæð. Sem betur fer fundum við ekki fyrir sjóveiki og gátum vel notið þess að hafa ekkert fyrir stafni þá tuttugu klukkustundir sem siglingin tók. Að endingu risu eyjarnar snarbrattar í sjó fram upp úr sjónum. Við sigldum síðan inn á milli eyjanna og lentum að endingu í Þórshöfn höfuðstað Færeyja. Hótelið sem við gistum á heitir Hótel Hafnia. Hótel Hafnia er ágætis hótel á góðum stað í miðbæ Þórshafnar.
Við gátum haft okkar hentisemi þarna úti því bíllinn hans Sigga var með í för. Ekki verður sagt að Færeyjar hafi komið okkur á óvart. Margt er svipað og heima á Íslandi. Landslagið er allt bratt í sjó fram. Bæir og þorp sitja í hlíðum fjallanna. Mér varð hugsað til snjóflóðahættunnar heima þar sem þessar aðstæður eru. Ég man ekki eftir fréttum frá Færeyjum af snjóflóðum eða aurskriðum. Veðurfarið er greinilega annað í Færeyjum en á Íslandi. Það frýs ekki oft og sjaldan kemur snjór. Það rignir samt eitthvað eina 270 daga á ári. Færeysku veðri fengum við að kynnast því það var þoka og rigning alla dagana okkar í Færeyjum. Þessi mikli bloti virðist samt ekki vera nægur til að mannskaðar verði vegna aurskriða. Snjóflóð eru ekki heldur vandamál í Færeyjum. Það er varla hægt að segja að snjó festi á eyjunum.
Á meðan Íslendingar rífast um jarðgöng þá grafa Færeyingar jarðgöng. Það er væntanlega ástæðan fyrir því að í Færeyjum eru 21 jarðgöng en á Íslandi 12. Áður voru eyjarnar tengdar með ferjusiglingum þar til Færeyingar kynntu sér Hvalfjarðargöngin og sáu að göng væru leiðin til að bæta samgöngurnar. Þeir hefjast handa en við þrösum, þráttum og rífumst. Gerum áætlanir, samþykkjum áætlanir, skrifum skýrslur, rannsökum pælum og endurskoðum áætlanir en við framkvæmum ekki neitt. Það fyrsta sem við skoðuðum í Færeyjum var Sandey. Til að komast þangað ókum við í gegnum Sandeyjargöng, nýjustu jarðgöng Færeyinga á milli eyja. Sandeyjargöng voru opnuð árið 2023 og eru tæplega 11 kílómetra löng.

Í Sandey búa rúmlega 1300 manns. Stærsti bærinn er Sandur þar sem íbúar eru um það bil 660. Við stoppuðum nú ekki þar en ókum í átt að Húsavík. Á leiðinni þangað sáum við fjölda bíla sem var lagt við veginn og fólk á göngu. Það hlýtur að vera
einhver hátíð hér sögðum við og héldum för okkar áfram þar til vegurinn endaði í pínulitlu fallegu þorpi á austanverðri Sandey. Í þorpinu búa 70 íbúar. Mikið var um

hlaðin hús í þorpinu og hlaðnir veggir og garðar um allt. Við áttum eftir að sjá þetta um allar eyjar. Sennilega eiga Færeyingar auðveldar með að viðhalda steinhleðslunum en við Íslendingar vegna veðurfarsins. Mjög víða voru timburhús byggð ofan á steinhleðslurnar og torf á þakinu.

Þegar við komum til baka hafði fólkinu við veginn fjölgað svo við ákváðum að finna út hvað væri um að vera. Eltum fólkið inn með sveitaveginum. Þetta reyndist vera Eplafestivalin í Tröð. Eplafest er kartöfluhátíð en ekki eplahátíð og tilefnið var kartöfluuppskeran. Á hátíðinni sá maður lítið af símaglápi og ekki voru börnin kjamsandi á nammi eins og á öllum hátíðum hér heima. Nammið þeirra voru epli sem var búið að sykra. Veðrið þennan fyrsta dag í Færeyjum var nákvæmlega eins og við var að búast. Það var blautt, hiti 11 – 13 gráður. Eina stundina sást til fjalla, sólin skein og regnbogi rammaði landslagið inn. Aðra stundina var þoka dimm og útsýni sáralítið.
Næsta morgun eftir ríkulegan morgunverð á Hótel Hafnia var ekið í norðaustur yfir í Austurey. Niðurlút af skömm urðum við annan daginn í röð yfir framkvæmdaleysi og þrasgirni Íslendinga þegar við ókum eftir nýlegum jarðgöngum á milli Straumeyjar og Austureyjar. Fyrsta stopp var í Norðragöta þar sem við rákumst á styttu af frægasta Færeyingnum fyrr og síðar, Þránd í Götu. Áfram var ferð haldið yfir í Klakksvík, næststærsta bæjar Færeyja. Það bjó annar Færeyingur sem er Íslendingum að góðu kunnur, Jógvan Hansen söngvari. Klakksvík er fimm þúsund manna fiskiþorp. Okkur þótti svo sem ekki mikið markvert að sjá í þorpinu en nutum þess að ganga göngustíginn meðfram nýlegu elliheimilinu og virða fyrir okkur bátana og byggðina baða sig í sólinni sem skein glatt þarna um morguninn.

Fuglafjörður var næsti viðkomustaður okkar. Þorpið í Fuglafirði er sæmilega mannmargt. Þar búa um 1600 manns. Þorpið situr fyrir botni fjarðarins og er umlukið háum fjöllum á alla vegu. Samt nýtur þar sólar árið um kring. Frá Fuglafirði var ekið um heilmikinn fjallveg yfir í Gjögv eða Gjögur. Vegurinn var að sjálfsögðu malbikaður með fjölda útskota þannig að aksturinn

þótti ekki erfiður fyrir Íslendinginn sem öðru og verra er vanur. Bærinn er fyrst nefndur í heimildum árið 1584 en vitað er að þarna var búið löngu fyrir þann tíma. Lifibrauð þorpsbúa var fiskur sem var þurrkaður, saltaður og seldur. Sem sagt saltfiskur upp á íslensku en klippfiskur upp á færeysku. Innsiglingin er hreint mögnuð. Bátarnir sigla eftir tvö hundruð metra langri gjá og síðan þarf að draga þá á þurrt innst í gjánni. Í dag búa ekki nema 19 manns í þorpinu en áður fyrr voru 13 bátar gerðir út frá þorpinu og íbúar voru yfir 200 talsins. Við Íslendingarnir vitum mætavel að sjórinn gefur og sjórinn tekur. Skammt frá kirkjunni er minnisvarði um þá sem fórust í hafi. Móðir situr þar ásamt tveimur börnum sínum og horfir til hafs. Þar mátti sjá að gjáinn sem skóp svo góða innsiglingu tók einnig sinn toll.
Næsti áfangastaður var helsti sögustaður Færeyinga, Kirkjubær. Kirkjubær er lítið þorp á suðvestanverðri Straumey. Þorpið var áður stærra. Sagan segir að flestum húsanna hafi skolað á haf út í ofviðri á 16. öld. Þarna var biskupssetur frá tólftu öld og fram að siðaskiptum á sextándu öld en þá tók Paturssonfjölskyldan við búskap á jörðinni og nú býr sautjánda kynslóð fjölskyldunnar í húsinu. Elsti hluti íbúðarhússins er frá elleftu öld og er því elsta timburhús í heimi þar sem enn er búið í.
Kirkjan í Kirkjubæ ber heitið Ólafskirkja. Hún þjónar enn sem sóknarkirkja og hefur svo verið frá því hún var byggð árið 1.111. Reyndar er varla nokkuð eftir af upphaflegu kirkjunni. Ólafskirkja gegndi hlutverki dómkirkju Færeyinga í kaþólskum sið. Um 1300 var hafist handa við að byggja Magnúsarkirkju sem nú er kölluð Múrinn. Veggir hennar standa enn og eru til vitnis um mikinn stórhug því þetta var ein veglegasta kirkja á Norðurlöndum. Einhver áhöld eru um hvort Magnúsarkirkja hafi einhvern tímann verið kláruð. Leifar hennar eru í daglegu tali kallaðar Múrinn.
Fyrsta myndin er tekin frá bílastæðinu. Ólafskirkja er til hægri á myndinn Rökstovan en næsta hús vinstra megin við kirkjuna. Rökstovan er síðan á mynd fjögur. Mynd tvö uppi sýnir veggi Magnúsarkirkju og Rökstovuna. Mynd þrjú sýnir aftan á Ólafskirkju og Magnúsarkirkju.
Guðrún hafði sá um að panta kvöldverð fyrir okkur á Angus steikhúsi í miðbæ Þórshafnar. Við fengum okkur að sjálfsögðu nautasteik með wiskysósu. Dýr var steikin en góð einnig.

Við höfðum ákveðið að byrja síðasta deginum í Færeyjum í Gásadal og ljúka þessu ferðalagi með því að skoða höfuðstaðinn. Þokan reyndist vera ægidimm svo við urðum því miður að slaufa ferðinni í Gásadal. Fórum í staðinn í Norræna húsið og fengum okkur kaffi þar. Næst röltum við um Tinganes. Ásamt Þingvöllum og Tynwald Hill á eyjunni Mön er Tinganes elsti þingstaður heims. Þarna hittust víkingarnir um 900 og réðu ráðum sínum. Enn þann dag í dag er landstjórn Færeyinga á nesinu. Við röltum um Tinganesið í rólegheitum. Rákumst á Aðalræðisskrifstofu Íslands og litum inn. Þar hittum við á konu sem ég kannaðist mjög svo við en gat ekki með nokkru móti áttað mig á hvaðan. Er búinn að átta mig á því núna.

Miðbærinn er nú ekki stór í Þórshöfn þótt þar búi 25% af íbúum Færeyja. Í Færeyjum búa nefnilega ekki nema rúmlega 56 þúsund manns og rúmlega 14 þúsund í höfuðstaðnum Þórshöfn. Á þessu rölti okkar um miðbæinn gerðum við pissustopp á hótelinu. Fórum út um bakdyrnar á fyrstu hæð og vorum þá lent í bakgarði dómkirkjunnar. Þá var

auðvitað ekkert annað að gera en að skoða hana. Þar inni hittum við á framhaldsskólakennara á eftirlaunum. Hann fræddi okkur um ansi margt tengt sögu kirkjunnar. Þegar hann heyrði tungumálið sem við töluðum okkar á milli áttaði hann sig á að við vorum frá Íslandi. Þá var auðvitað farið að tala um tengsl Íslands og Færeyja. Við nafngreindum þekkta Færeyinga á Íslandi. Þar á meðal Eyvöru. Þá kom í ljós að eiginkona framhaldsskólakennarans var óperusöngkona sem hlutaðist til um að Eyvör færi í söngnám hjá Ólöfu Kolbrúnu óperusöngkonu og eiginkonu Jóns Stefánssonar organista í Langholtskirkju. Á ferðum okkar um eyjarnar höfðum við komið við í Syðrigötu heimabæjar Evörar en þar sem fyrrnefndur Þrándur í Götu bjó.
Lokamáltíðin var síðan snædd á Áarstova veitingahúsinu við Gongin 1 í Torshavn. Rétturinn sem við fengum okkur var Áarstovubógvur með rótfruktum og sós. Þ.e hægeldaðan lambabóg.

Norræna kom að landi á Seyðisfirði um níuleitið að morgni sem var afskaplega þægilegt vegna þess að þá höfðum við allan daginn til að komast heim. Gerðum eitt stopp á leiðinni í Beitahúsinu í Möðrudal.












Comments