top of page

Heiðarvatnið 26. ágúst 2024

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 26, 2024
  • 2 min read

Ísskápshiti

ree

Núna eru smiðir að störfum í nýja húsinu okkar. Fyrir vikið er heldur rólegra hjá okkur hjónunum þannig að við gátum gefið okkur stund til að fara í árlega veiðiferð í heiðarvatnið. Við vorum samt ekkert að æsa okkur í dalinn. Fylgdumst með hlaupurum í Reykjavíkurmaraþoninu streyma þúsundum saman hjá húsinu okkar fyrir sunnan. Í ár hlupu 14.300 manns og hafa þeir aldrei verið fleiri. Við vorum komin  í dalin um tvöleitið á laugardeginum.


Á milli hálf sjö og sjö vorum við komin á veiðistað við heiðarvatnið. Við gengum beint niður að vatni og hófum veiðarnar í Breiðuvík. Rétt fyrir átta tók þriggja punda urriði svartan nobbler hjá mér í vesturenda víkurinnar. Á meðan var eiginkonan að reyna fyrir sér fyrir miðri Veiðivíkinni. Hún varð vör þar. Ég gekk áfram til vesturs að bakkanum sem svo oft hefur gefið en ekkert hljóp á snærið þar.


ree

Ég rölti til baka og við tókum kvöldverð fyrir miðri Breiðuvíkinni. Eftir kvöldverðinn kastar eiginkonan fyrir miðri víkinni og setur strax í fjögurra punda fisk sem hún landar. Þá var klukkan fjörutíu mínútur gengin í níu. Sjö mínútum síðar landar hún öðrum fisk sem er eitt og hálft pund. Tæpri klukkustund síðar gekk ég aftur á bakkann vestan við Breiðuvíkina. Ég var viss um að þar væri fiskur eins og venjulega. Flugan gaf ekkert en í vissi að stundum liggur urriðinn þarna lengra út en svo að ég nái til hans með flugunni. Ég tók því kaststöngina og þeytti stórum toby svo langt sem ég náði og þá tók hann. Öðrum fjögurra punda urriða var landað þar.


ree

Það var ísskápshiti þetta kvöld. Þrjár gráður og nokkur vindur þegar við hófum veiðar. Maður verður ansi handkaldur við þessar aðstæður. Sem betur fer lægði aðeins og vindurinn sneri sér aðeins svo hann varð örlítið austanstæðari en samt áfram blés hann frá norðri. Við vorum lögst til hvílu rétt eftir miðnættið. Mjög svo sátt við að eiga nýjan fisk í frystinum og gaman að geta gefið litháísku smiðunum nýveiddan bleikan fisk úr heiðarvatninu.

Commentaires


bottom of page