Heiðarvatnið 22. ágúst 2022
- Þorkell Daníel Jónsson
- Aug 28, 2022
- 3 min read
Updated: Sep 10, 2022
Loksins hitti í annan veiðimann

Við hjónin áttum langa fríhelgi fyrir höndum og hana ætluðum við að nýta í að tína ber og veiða fisk. Við vissum að berjatínslan yrði erfið því þetta berjasumar er óvenju slæmt. Sennilega hefur komið næturfrost eftir að lyngið blómstraði í vor því okkur þótti ansi lítið um vísira á lynginu. Hvað um það. Við ætluðum nú samt að þrjóskast við og tína í nokkrar fötur. Þegar við lögðumst til hvílu um miðnættið á föstudeginum stóð hitamælirinn fyrir utan í núll gráðum. Það styttist mjög í næturfrostið. Það er því ekki seinna vænna að tína berin áður en þau frjósa. Birkið og berjalyngið eru nú þegar byrjuð að undirbúa sig fyrir veturinn. Þegar laugardagurinn rann upp var ekki ský á himni og logn. Ég ákvað að gera mér ferð í heiðarvatnið og gefa mér tíma til að ganga upp á borgirnar fyrir ofan vatnið. Ég sá ekki eftir því að hafa lagt það á mig því útsýnið var stórkostlegt og hægt var að sjá hvernig botninn lá í vatninu því það var spegilslétt.

Eftir tveggja tíma göngu var ég komin á bakkann. Fyrsta verk var að setjast niður, fá sér hádegissnarl og horfa yfir spegilslétt vatnið. Yfirleitt sýnir urriðinn sig ekki á yfirborðinu en það gerði hann nú. Var greinilega að eltast við flugurnar sem settust á yfirborðið. Ég græjaði því fimmuna með átta punda taum og þurrflugu. Áttuna græjaði ég með tólf punda taum og teal and black flugu og dropper sem var watson fancy púpa með kúluhaus. Í þriðja kasti tók urriði þurrfluguna út af bakkanum sunnanvert á Réttartanganum. Við toguðumst á í töluverðan tíma en skyndilega varð allt laust. Þessi var farinn. Ég kastaði áfram í svona klukkutíma frá bakkanum og landaði tveim urriðum, 1,5 p og 2 p. Báðir tóku þeir þurrfluguna. Síðan gekk ég fyrir Réttartangann og kastaði þar sem ég fékk tvo urriða í júlí. Eftir nokku köst tók 1,5 p urriði warson fancy fluguna.

Venjulega er ég einn með sjálfum mér við heiðarvatnið og eini félagsskapurinn er himbrimi og álftir ef eiginkonan er ekk með í för. Núna sá ég til mannaferða í hlíðinni ofan við vatnið að vestanverðu. Einhverjir voru að reka fé. Ég gekk yfir á norðurbakkann og sé hvítt torfærutröll birtast í hlíðinni ofan við vatnið þar. Fólkið sló upp tjaldi. Ég veiddi vesturbakkann á Breiðuvíkinni en þar hef ég aldrei fengið fisk. Sá sem sló upp tjaldinu kom niður í Breiðavíkina og kastaði út fyrir henni miðri. Hann setti strax í vænan urriða. Ég hélt áfram að kasta af vesturbakkanum og ekkert gerðist. Sem var eðlilegt því það var engin fluga á taumnum. Ég sæki þá stöngina með droppernum og kasta nokkrum sinnum. Fæ öfluga töku og landa skömmu síðar 3.5 punda urriða sem tók watson fancy púpuna.

Síðan tók ég tjaldbúann tali og hann reyndist hafa nokkra reynslu af vatninu. Faðir hans hafði verið í sveit á næsta bæ á sjöunda áratug síðustu aldar og í gegnum þau tengsl hafði hann fengið veiðileyfið. Það var ansi gaman að hitta loks einhvern sem þekkti aðeins til vatnsins því það eru ekki margir sem nenna að leggja það erfiði á sig sem fylgir því að komast að því til að veiða. Þarna var ég búinn að fá nóg af veiðinni. Pakkaði öllum búnaði niður og hélt í gönguna heim mjög sáttur við daginn. Afrakstur ferðarinnar voru fjórir urriðar Tveir 1,5 p, einn 2 p og einn 3,5 p.



Comments