Heiðarvatnið 9. ágúst 2025
- Þorkell Daníel Jónsson
- Aug 14, 2025
- 3 min read
Þetta var ekki svo erfitt

Brautarlækjarsmíðin hefur þvælst dálítið fyrir þetta sumarið en nú er húsið okkar komið á þann stað að við ættum að geta slakað á. Það liggur ekki svo mikið á að
klára rest svo við hjónin ákváðum að nú fengi veiði og útivera að vera í forgangi. Tími Heiðarvatnsins er kominn svo þangað var ferðinni heitið þessa helgina. Það er enginn vegur að vatninu, gangan að því öll á fótinn og við hjónin komin á viðhaldsaldur. Þess vegna vorum við hálfkvíðin fyrir göngunni. Aðstæður voru samt okkur allar í hag. Veðrið dásamlegt. Veðrið dásamlegt. Norðanátt sem síðan snerist í austanátt. Það var ekki of hlýtt, bjart og smá gjóla.
Við hjónin komin með veiðibúnað og nest á bakið og tilbúin fyrir gönguna.
Við vorum staðráðin í að láta veiðigleðina ekki valda því að við ofgerðum okkur á göngunni. Við gengum því hægt og virðulega upp brattann og hvíldum okkur nokkrum sinnum á leiðinni. Þess vegna vorum við hin hressustu þegar við vorum mætt á veiðislóð við vatnið. Við byrjuðum á bakkanum á milli Breiðavíkur og Lómavíkur. Heitið á Lómavíkinni vekur furðu. Hvers vegna í ósköpum ætli hún hafi fengið það heiti? Mig grunar að skýringin sé ekki merkilegri en það að einhver í fortíðinni hafi ekki þekkt tegundarheitið á fuglinum sem á vatnið, himbrimanum. Síðan er það hitt. Hvers fékk víkin fékk fuglaheitið þrátt fyrir að himbriminn láti aldrei sjá sig í henni? Við höfum aldrei orðið vör við fisk í víkinni og sennilega himbriminn ekki heldur. Það skýrir hvers vegna hvorki við né fuglinn eigum erindi í víkina.

Ég lét Guðrúnu veiðisvæðið eftir og gekk vestur fyrir vatnið og á bakkann suður af Lóma- og Breiðuvíkinni. Kastaði þar um stund. Sé yfir vatnið að Guðrún er að brasa mikið á bakkanum og grunaði að hún hefði landað einum. Síðan veður hún út í og skömmu síðar sé ég skvamp og Guðrún landar öðrum. Ég varð hins vegar ekki var. Gekk þá yfir Réttartangann og kastaði þar sem þrengist inn í Suðurvíkina. Himbrimann sá ég hvergi og velti fyrir mér hvort eitthvað hafi misfarist hjá honum þetta sumarið. Þá poppaði hann úr kafi rétt fyrir framan mig og var eftir það með okkur. Álftarparið er einnig við vatnið þannig að það er allt eins og það á að vera þarna á heiðinni. Það virðist einnig vera dálítið af rjúpu því á leiðinni upp flaug hópur af rjúpum undan okkur. Ég varð ekkert var svo ég rölti til baka.
Þegar ég kem að veiðislóðinni á milli Lómavíkur og Breiðavíkur liggur frúin flöt á milli þúfna og starði upp í himininn. Ekki vegna þess að hún væri aðframkomin. Bara sátt við tilveruna því tveir urriðar voru komnir á land. Sá fyrri var um fjögur pund en sá seinni heldur léttari. Hann leit ekki vel út því mjósleginn var hann. Á honum voru netaför en við héldum að það væri engin netaveiði í vatninu. Sennilega hafa einhverjir stolist til að leggja net. Ég kastaði á sömu bleiðu þar sem Guðrún fékk sína tvo og set í einn nokkuð vænan og síðan annan sem var um tvö pundin. Þriðji fiskurinn hljóp síðan á snærið í Breiðuvíkinni. Sá var um fjögur pund. Í þessari veiðiferð var sem sagt fimm urriðum frá tveimur til fjögur pund landað.
Við gengum síðan heim í björtu og vorum komin heim í hús um hálf tólfleitið. Höfðum á orði að þetta hafi ekki verið eins erfitt og við áttum von á. Kannski hefur stanslaus vinna við smíðar undanfarið ár elft okkur af þreki og þrótti og auðvitað er allt auðveldara þegar veðrið er gott.







Comments