top of page

Ónefndu vötnin 12. - 14. júní 2025

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 16, 2025
  • 3 min read

Ég er ekki öngulsár

ree

Maður getur víst ekki alltaf treyst á að lukkan sé í liði með manni. Hún var svo sannarlega ekki með mér í veiðiferð Smíðaklúbbsins í Ónefnduvötnin. Silungurinn virtist frekar vilja hlaupa á önnur snæri en mín í þessari ferð. Stefnan var sett á að ná 92 silungum vegna þess að ef það markmið næðist væri Smíðaklúbburinn búinn að landa þúsund fiskum í sínum 22 veiðiferðum. Miðað við aflabrögð í fyrri veiðiferðum var þetta alveg raunhæft. Mest höfum við áður veitt 122 silunga í þessum vötnum í einni veiðiferð.


Bleikjan úr Arnarvatni.
Bleikjan úr Arnarvatni.

Arnarvatn var mitt vatn á fyrstu vaktinni. Félagar mínir fóru í Harðarvatn og Vallavatn. Ég lagði bílnum á hefðbundnum stað ofan við vatnið. Var frekar slakur enda veðrið gott og einhver ró yfir öllu. Settist niður við vesturvíkina og tók upp myndband. Setti síðan flugu undir og hófst handa við að köstin. Ekkert gerðist svo ég setti letingjana út. Það leit ekki nokkur fiskur við beitunni. Veiddi bakkann til austurs með flugunni. Fékk töku í næstu vík og landaði tæplega þriggja punda bleikju. Það var nú allur afraksturinn eftir fyrstu vaktina. Félaginn sem fór í Vallavatn gerði betur og landaði heilum tuttugu silungum, bleikju og urriða í bland. Félaginn sem fór í Harðarvatn náði þremur silungum þar minnir mig.


Morguninn eftir átti ég Vallavatn og var frekar bjartsýnn. Af einhverjum ástæðum þá varð ég lítið var. Fékk tvær pundsbleikjur á beituna en ekkert meir. Mig grunar að ég hafi ekki náð að henda almennilega út í holuna þar sem fiskurinn liggur. Ég rölti með fluguna yfir í vatn tvö sem núna hefur fengið heitið Kelavatn. Þar setti ég Svartan nobbler í tveggja punda urriða og náði að landa honum. Varð síðan aftur var en náði ekki að festa í þeim fiski. Þar sem ekkert var að gerast í Vallavatni ákvað ég að sækja beitustangirnar og láta beituna liggja í vatni tvö. Á aðra þeirra hljóp fjögurra punda urriði þannig að ég var þannig séð sáttur við vaktina. Það var félaginn sem fór í Harðarvatn ekki því þar var allt steindautt. Félaginn sem fór í Arnarvatn náði einni bleikju og einum urriða.


Valli með óvæntan urriða úr Óvæntavatni.
Valli með óvæntan urriða úr Óvæntavatni.

Á seinni vaktinni ákvað ég að fara í Harðarvatn. Því hefði ég átt að sleppa því beitan var aldrei snert og ég varð aldrei var á fluguna. Veiddi þó allan suðurbakkann frá vestri til austurs með flugunni. Á meðan veiddi annar félaginn í Vallavatni og fékk sjö ágætis silunga. Hinn félaginn veiddi Arnarvatn og fékk lítið. Ofan við Kelavatn er lítill pollur sem stundum hefur veiðst í og austan við þann poll er annar pollur sem mér hefur aldrei dottið í hug að kasta í. Sá sem fékk tuttugu fiskana í Vallavatni kastaði í þann poll og fær mjög óvænt tvo eða þrjá ágætis urriða. Þar með fékk vatnið heitið Óvæntavatn.


Á síðustu vaktinni var komin rjómablíða. Við fórum tveir í Vallavatn og sá þriðji fór í Arnarvatn. Allir fengu fisk á þessari síðustu vakt en enginn marga. Sá sem fékk fiskana í Óvæntavatni ákvað að prófa það aftur og viti menn. Hann setur í fimm punda urriða. Þegar heim var haldið hafði Smíðaklúbburinn landað 48 silungum. Ég náði sjö, Hörður 13 og Valli 28. Samtals voru þetta 48 silungar. Einn var fimm pund, einn fjögur, sjö þrjú pund og restin smærri. Excelsérfræðingur hópsins lagðist yfir bókhaldið og haldið þið ekki að hann hafi fundið reiknivillu. Smíðaklúbburinn hefur veitt 1019 fiska í veiðiferðum sínum.


Kominn heim, sáttur mjög og búinn að flaka aflann.
Kominn heim, sáttur mjög og búinn að flaka aflann.

Nú gæti einhver haldið að ég sé öngulsár mjög eftir þessa veiðiferð en það er nú öðru nær. Eiginkonan var alsæl með að ég veiddi ekki meira en samt nóg sem duga mun í nokkrar máltíðir. Allt veiðisumarið er fyrir höndum og fiskarnir verða örugglega fleiri. Dvöl með góðum félögum í fallegri náttúru og nokkrir fiskar nægir mér.

Comments


bottom of page