top of page

Hreðavatn 11. maí 2024

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • May 12, 2024
  • 2 min read

Ný veiðistöng og fjórir pundarar

ree

Ég skaust einn upp í dal um helgina og ætlaði að byrja á sumarverkefninu. Sumarverkefnið er að steypa grunn undir nýjan Brautarlæk sem verður reistur í ágúst ef allar áætlanir standast. Við verðum heldur betur að halda vel a spöðunum ef við ætlum ekki að lenda í tímaþröng. Það verður nú samt að gefa sér tíma til að veiða og sjálfsögðu hafði ég nýju veiðistöngina með. Nýja stöngin kemur í stað þeirrar sem ég braut við Selvatn í júlí í fyrra. Sú stöng var Sage stöng með ábyrgð. Síðan leið hver mánuðurinn á fætur öðrum og aldrei kom stöngin úr viðgerð. Á endanum gafst ég upp á biðinni og keypti mér Orvis Helios 3F fyrir línu átta. Hörkufína stöng. Daginn eftir þau kaup hringdi söluaðili Sage stangarinnar og tjáði mér að ég gæti fengið nýja Sage stöng á verulegum afslætti. Það væri ekki lengur til efni í gömlu stöngina. Tilboðið var það gott að ég gat ekki hafnað því. Núna á ég tvær hörku góðar stangir fyrir línu átta.


ree
Karlinn að sjálfsögðu ánægður. Þetta er jú fyrsti fiskur sumarsins.

Seinni partinn á laugardeginum skaust ég með nýju stöngina í Hreðavatn. Setti lítinn Killer með kúluhaus undir og hann var á í fyrsta kasti. Þetta veit nú á gott. Urriðinn sem tók var pundsfiskur. Það sem var ánægjulegt einnig var að ég fann ágætlega fyrir honum þótt smár væri. Valið stóð á milli þess að kaupa 3F stöngina eða 3D stöngina. 3F stöngin er heldur mýkri en 3D stöngin en D stöngin býður upp á lengri köst sem er gott í vatnaveiðinni. Ég valdi samt 3F og held að það haf verið rétt val vegna mýktarinnar. Ferðin skilaði fjórum punds silungum á land. Þrír urriðar og ein bleikja.







Comments


bottom of page