Norðurá - Fjallið 12. - 14. ágúst 2022
- Þorkell Daníel Jónsson
- Aug 19, 2022
- 4 min read
Updated: Aug 28, 2022
Átta laxar, tveir stórir, sex litlir og sundferð í Ferjuhyl

Veiðibloggið mitt er til vitnis um að mínar veiðilendur eru fyrst og fremst vötn og bráðin silungur. Ástæðan er verð á laxveiðleyfum því ekki skortir áhugann. Við hjónin létum þó verða af því að kaupa veiðileyfi á efsta svæðinu í Norðurá í síðustu viku. Norðurá er ein besta laxveiðiá landsins og rennur fram hjá kofanum okkar í sveitinni. Það er því merkilegt að maður skuli ekki hafa gert það að reglulegum viðburði að veiða í ánni. Vissulega vitum við hvar staðirnir eru sem vert er að kasta í en höfum litla hugmynd um hvar fiskurinn liggur. Slík þekking kemur með reynslunni. Veiðisvæðið var frá Símastreng sem er rétt neðan við bæinn Háreksstaði og upp að brúarhylnum við Fornahvamm. Þetta er efsta svæðið í ánni og oft kallað Norðurá – Fjallið. Það eru seldar þrjár stangir á svæðinu og vorum við með þær allar í félagi við Stefán frænda eiginkonunnar og Magga mág.

Tvisvar áður hef ég rennt færi í Norðurá. Í fyrra skiptið háttaði þannig til að Dóri Nikk, fyrrum veiðivörður við ána og fændi eiginkonunnar, birtist í dyrunum á kofanum okkar uppi í dalog segir við tengdapabba: „Halli, nú ferðu í ánna.“ Veiðverðinum var nefnilega algerlega misboðið því hjón nokkur sem áttu veiðina létu ekki sjá sig með veiðistöng við ánna því þau voru svo upptekin við kojufyllerí. Á þessum árum var ég lítið við veiði en fékk þó að renna í einn hylinn og varð meira að segja var. Í seinna skiptið keyptu ég og bróðir eiginkonunnar einn dag í ánni en við vorum frekar óheppnir með veðrið. Veiðidagurinn var sólríkur með eindæmum og einn af mörgum þurrkadögum enda fengum við ekki titt.

Í þetta sinn voru aðstæður okkur hagfelldar þannig að við vorum frekar bjartsýn um að við færum ekki fisklaus frá ánni. Það var töluvert mikið vatn í henni eftir þónokkrar rigningar í vikunni. Það stytti upp skömmu áður en við hófum veiðar síðdegis á föstudeginum. Síðan sjatnaði smátt og smátt í ánni á meðan við vorum að veiðum þessa þrjá daga. Algerlega kjöraðstæður. Við hjónin hófum veiðar efst í ánni í Hvassármótum, Brúarhyl við Fornahvamm og í Klapparhyl. Urðum ekki vör. Á fjórða veiðistað sem er á milli Kattarhryggjar og Kattarhryggsfossar tók sex punda og 69 cm Guðrún að veiða í Poka. Króksfoss í baksýn og laxinn á varla í vandræðum með að komast upp hann í svona vatni.


Morguninn eftir byrjuðum við í Króksfossi og Poka. Þar er örugglega alltaf fiskur. Samkvæmt veiðibókinni höfðu 26 af 52 fiskum sem höfðu veiðst til þessa verið skráðir í Poka. Best er að veiða þessa staði af suðurbakkanum en þá þarf að vaða ána. Núna var svo mikið vatn að nauðsynlegt var að halda í frúna svo hún færi ekki á flot. Enginn náðist nú fiskurinn svo við Reyndum næst ofan við Króksbrú. Síðar í ferðinni sáum við eina sex laxa neðan við brúna. Þar hefur hann nú ekki haldið sig í gegnum tíðina. Ef til vill var það vatnsmagnið sem olli því að fiskurinn lá þarna. Næst héldum við í Neðri – Ferjuhyl og þar settum við í einn þriggja og hálfs punda lax. Aftur var það stærri gerðin af rauðri francis túpu sem hann tók. Við héldum áfram að reyna við Ferjuhylinn eftir að hafa landað laxinum því það var fiskur í flugunni. Syndilega renn ég til og dett kylliflatur á bakið í ánna. Næ að standa upp eftir smá volk en þá vill ekki betur til en að ég renn aftur og þá skutlast ég á magann. Upp rís ég að nýju, rennandi blautur, gleraugun skökk og háfurinn horfinn. Háfinn fann ég síðan á botni árinnar. Skrönglaðist rennblautur á land. Fer úr veiðijakkanum og þá stekkur auðvitað vænn lax fyrir aftan mig. Ég sný mér við, veð út í ánna og hvað haldið þið? Ég renn aftur og flengist aftur fyrir mig og á bólakaf. Sem betur fer var hlýtt þannig að ég reis rennblautur á fætur og kastaði á fiskinn sem stökk. Hann þreif í fluguna en festi sig ekki þannig að við héldum heim í hús í hádegishlé.


Á seinni vaktinni á laugardeginum veiddum við neðstu staðina. Byrjuðum í Símastreng eða því sem við héldum að væri Símastrengur og þótti okkur sá staður ólíklegur. Næst í Hvammshyl, síðan var það Beinhóll og Snagafit. Enduðum síðan í Skógarnefi sem er sennilega ónýtur staður nú. Þegar við komum úr Skógarnefinu sér eiginkonan að Maggi mágur er kominn í Ferjuhylinn og það stekkur lax. Við ákveðum að líta á hann og það fór ekkert á milli mála hvað var í gangi. Hann var að brasa við að þreyta lax sem greinilega var af stærri gerðinni. Laxinn reyndist vera 12 pund og 81 cm. Greyið frekar sjokkeraður eftir meðferðina og um tíma hélt ég að við yrðum að aflífa hann sem hefði verið synd. Það tók hann um þrjár mínútur að ná sér nóg til að synda frá bakkanum og falleg sjón var að sjá hann synda hægt og virðulega út í strauminn.
Eftir þetta ævintýri héldum við Guðrún niður í Símastreng og núna vorum við á réttum stað. Ekkert líf virtist vera þar og ekki heldur í Hvammshyl. Reyndar var fiskur í Hvammshyl en laxarnir þar virtust vera fráteknir fyrir Stefán en úr þeim hyl landaði hann tveimur löxum. Sá stærri var um 8 pund. Þeim laxi var sleppt í samræmi við reglur.
Á sunnudagsmorgninum og síðustu vaktinni fórum við Guðrún aftur á efsta svæðið og köstuðum í hylinn þar sem við fengum lax á fyrstu vaktinni. Aftur settum við í ágætan fisk. Guðrún togaðist á við hann um stund en síðan losaði hann sig við fluguna og kvaddi. Í þetta sinnið var það flugan mýsla sem freistaði hans. Þegar upp var staðið reyndist þetta vera ágætis veiðitúr. Samtals átta laxar komu á land. Tveir úr Ferjuhyl, tveir úr Hvammsyl, einn úr hylnum fyrir neðan Kattarhryggsfoss, einn úr hylnum neðan við Olnboga, einn úr Poka og sá áttundi fékkst einhvers staðar á efra svæðinu. Núna er spurning hvort það verði gert að föstum lið að veiða í Norðurá?
Comments