Dust in the Wind
- Þorkell Daníel Jónsson
- May 16, 2020
- 2 min read
Höfundur lags og texta: Kerry Livgren

Lagið Dust in the Wind var samið árið 1977 af Kerry Livgren fyrir plötuna Point of Know Return með Kansas. Reyndar var það ekki alveg þannig að hann hafi samið lagið fyrir plötuna því eiginkona hans heyrði hann spila einhverja gítaræfingu. Hún otaði því að honum að semja texta við æfinguna og sýna félögum sínum í hljómsveitinni. Hann var tregur því honum fannst lagið í engum takti við það sem hljómsveitin var að gera.
Þegar hljómsveitin var við það að ljúka upptökum á plötunni hefur hljómsveitarstjóranum þótt eitthvað vanta upp á og spurði þá félaga hvort þeir væru með einhver fleiri lög í pokahorninu. Livgren spilaði Dust in the Wind, hikandi þó. Honum til undrunar voru aðrir hljómsveitameðlimir yfir sig hrifnir og á plötuna fór lagið. Rétt er það að lagið er engan vegin dæmigert fyrir hljómsveitina Kansas. Það er því hálf neyðarlegt að þetta er lagið sem fólk man eftir þegar minnst er á hljómsveitina.
Heimspekilegur texti lagsins fjallar um tilveru mannsins og þá staðreynd að allt okkar æfibrölt er ösköp fátæklegt í stóra samhenginu. Veraldleg auðæfi breyta engu því allt fer þetta á sama veg. Sérhver maður sem lifir mun á endanum deyja og það sem hann skilur eftir sig verður að engu. Rétt eins og ryk sem feykist burt í vindinum.
Lagið er einfalt en seiðandi. Kansas fluttu lagið með tveimur gíturum, fiðlu og lágfiðlu. Útsetningin sem hér er spiluð er plokkuð útsetning fyrir einn gítar. Hana gerði Sungha Jung. Hljómarnir eru einfaldir og maður var fljótur að ná þeim en það tók lengri tíma að ná upp hraðanum í plokkhöndina. Reyndar hef ég ekki náð laginu almennilega enn. Þvergripið í sólkaflanum þvælist fyrir mér.
留言