Fyrsti tónstiginn
- Þorkell Daníel Jónsson
- May 26, 2023
- 3 min read
Updated: Jul 25, 2023
A moll pentatónískur tónstigi

Ég er orðinn fullkomlega sannfærður um að það sé hollt og gott að spila tónstiga þannig að nú er komið að því að velja fyrsta tónstigann. Nú vandast málið því það bíða mín tónstigar, að mér sýnist í endalausum röðum. Á hverjum þeirra væri skynsamlegt að byrja? Alvitur veraldarvefurinn gaf mér svarið.
Auðvitað byrja ég á að læra pentatónískan tónstiga vegna þess að hann er elstur þeirra allra. Sennilega yfir fjörutíu þúsund ára. Því til vitnis eru þetta gamlar flautur úr hrægammabeinum sem fundust í Þýskalandi. Þær voru settar upp eftir pentatónískum tónstigum. Þessi tónstigi er nýttur í flestum gerðum tónlistar og finnst í tónlist frá öllum heimshornum. Hann er sá sem er mest notaður og þar af leiðandi mjög hentugur tónstigi til að byrja á.
Hefðbundinn tónstigi hefur sjö nótur en sá pentatóníski fimm. Tónbilum tvö og sex í hefðbundnum tónstiga er sleppt. Af einhverjum ástæðum þrælvirka pentatónískir tónstigar þegar á að spinna undir tónlist og flestir blús og rokk gítarleikarar reiða sig mjög á þennan tónstiga. Mjög margir taka tónstigaæfingar sínar aldrei lengra og það er bara í góðu lagi en ef hugurinn stefnir á jassgítarleik eða klassískan þá þarf að sökkva sér í hefðbundna tónstiga einnig. Pentatónískir tónstigar nýtast hins vegar vel í blúsgítaleik því það þarf aðeins að bæta við einstaka ,,blárri“ nótu til sem gefur blústilfinninguna. Flestir byrja á a moll pentatóníska tónstiganum svo ég byrja mitt tónstigaferðalag þar.
A moll pentatóníska tónstigann má spila á fimm stöðum á gítarhálsinum. Hver staður hefur sitt mynstur. Síðan þarf maður að læra alla hina tónstigana í bæði dúr og moll. Vissulega hljómar þetta yfirþyrmandi en það eru samt góðar fréttir. Þegar búið er að læra öll fimm mynstur og staðsetningar tónstigans á gítarhálsinum þá kann maður eiginlega alla hina moll tónstigana því mynstrin færast bara upp og niður hálsinn. Ekki nóg með það. Maður kann einnig pentatónísku dúr tónstigana því mynstur þeirra eru eins og í a – moll pentatóníska tónstiganum og nóturnar eru þær sömu. Fyrir utan að rótin er önnur. Til dæmis eru a moll tónstiginn og c dúr tónstiginn tengdir. Ætli maður að spila pentatónískan c dúr tónstiga þá byrjar maður bara á c nótunni. Meira um það síðar.
Mynstur 1: A moll pentatónískur tónstigi
Nóturnar í a moll pentatónískum tónstiga eru A sem er rótin, C, D, E, G. Á myndinni af gítarhálsinum sérðu mynstur 1 af tónstiganum. Mynstur 1 er spilað frá fimmta bandi.


Tónbilin í a moll pentatóníska tónstiganum eru 3 – 2 – 2 – 3 – 2. Ef tónbilin eru hugsuð frá rót þá eru þau A – C = lítil þríund, A – D = ferund, A – E = fimmund, A – G lítil sjöund.
Hvenær notar maður pentatónískan tónstiga?
Ef maður er að spila lag í a moll tóntegundinni og ætlar að skreyta það með riffi eða spuna þá hljómar vel að nota a moll pentatónískan tónstiga. Hljómarnir í a moll tóntegundinni eru:
A moll
B dim
C dúr
D moll
E moll
F dúr
G dúr
Að æfa tónstigann
Fyrsta versið er auðvitað að æfa tónstigan hægt og ekki auka hraðann fyrr en þú hefur náð að spila hann villulaust tíu sinnum.
Lærðu mynstrið utan að.
Lærðu að minnsta kosti hvar nótan er sem er rót tónstigans.
Byrjaðu og endaðu á lægsta rótarhljómnum.
Æfðu skalann með fingrasetningu eins og hann er skrifaður hér fyrir ofan.
Æfðu skalann einnig með því að nota þriðja fingur í stað fjórða á þynnstu tvo strengina.
Þetta er til að vera tilbúinn í að teygja á nótunum.
Notaðu taktmæli.
Hér eru ýtarlegar útskýringar á Justinguitar á pentatónic tónstiganum.
Hér form 1 kennt á Justinguitar. Hann er reyndar að kenna sóló yfir blús. Þá notar maður einmitt þennan tónstiga en bætir bara bláu nótunni við.



Comments