top of page

Flatey á Breiðafirði 10. - 17. júlí 2020

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 20, 2020
  • 7 min read

Updated: Jun 19, 2022

Félag starfsmanna stjórnarráðsins á sumarhús á fjórum stöðum á landinu. Sem verður nú að teljast frekar gott miðað við að félagsmenn eru ekki nema um það bil 250 talsins. Húsin eru á Akureyri, í Munaðarnesi í Borgarfirði, í Brekkuskógi í Biskupstungum og í Flatey. Við Guðrún höfum nýtt okkur öll þessi hús nema húsið í Flatey. Nú var komið að því. Guðrún og vinnufélagi hennar, Anna María sammæltust um að dvelja saman í Flateyjarhúsinu í sumarfríinu. Ég og Jóhann maður Önnu Maríu fylgdu með í samningi kvennanna.



ree

Höfnin í Stykkishólmi
Höfnin í Stykkishólmi.

Ferðin hófst á óvissu um hvort flóabáturinn Baldur sigldi eða ekki. Skipið hefur verið í viðgerð alla vikuna. Einmitt á þessum föstudegi var ljóst að viðgerð var lokið og með Baldri sigldum við út í Flatey. Gott var í sjóinn þannig að við fundum lítið fyrir því að við værum á sjó. Fjöldi manns ætlaði sér greinilega að dvelja í eyjunni um helgina því ég gat ekki betur heyrt en að 300 manns væru um borð í ferjunni. Þar af ætlaði um helmingur í land í Flatey. Flestir voru aðframkomnir af þorsta og slökktu þorstann með bjór eða hvítvíni. Það gerði nú lítið til því stemmingin var góð. Okkur þótti líklegt að flestir ætluðu sér heim eftir helgina og dagarnir yrðu rólegri í vikunni. Flatey er staðsett Barðarstrandarmegin í Breiðafirðinum. Siglingin þangað tekur um eina og hálfa klukkustund. Þá er um klukkustundarsigling eftir fyrir þá sem ætla áfram yfir að Brjánslæk. Ferjan lagðist að við Tröllenda sem er á suðausturhluta Flateyjar. Þá tók púlsvinna mikil við. Að koma föggum okkar upp í hús.


Það reyndist nokkur handleggur því við þurftum að selflytja dótið upp brekkuna frá bryggjunni að húsinu. Húsið sem við dveljum í heitir Ráðagarður og er nokkur hundruð metra frá bryggjunni. Dráttarvagninn sem okkur skildist að væri annað hvort við húsið eða á bryggjunni fannst hvergi. Það var því ekkert annað að gera en ráðast í burðinn.

ree
Ráðagarður. Hægra megin við húsið sér í jaðrökuna sem var að æsta sig yfir óboðnum gestum.

Reyndar voru karlar á bryggjunni með dráttarvélar og kerrur en þeir voru ekki þarna til að þjónusta okkur heldur fólkið sem ætlaði að dvelja á hótelinu. Einn af dráttarvélarmönnunum reyndist miskunnarsamur samverji og leyfði okkur að snara dótinu á kerruna hjá sér og flutti það síðasta spölinn. Næsta vers var að finna lykilinn að húsinu. Þegar við opnum síðan útidyrnar blasa flutningsvagnarnir við í anddyrinu. Ég hefði betur litið inn um gluggann þar þegar ég skaust upp í hús í leit að vögnunum.


Flatey er ein af 40 Vestureyjum Breiðafjarðar og er hún þeirra stærst. Eyjan er um tveir km að lengd og hálfur km að breidd þar sem hún er breiðust. Eins og nafn hennar bendir til er hún flatlend. Hæsti hryggur hennar er Lundaberg í norðausturhlutanum. Þar er bjargið 10 – 12 metra hátt. Það hefur verið búið í Flatey frá fyrstu tíð. Landnámsmaðurinn Þrándur mjóbeinn var fyrstur til að búa í eyjunni. Flatey liggur vel við gjöfulum fiskimiðum. Höfnin er skeifulaga klettadrangur sem veitir skjól úr öllum áttum. Þegar fyrsta manntalið var tekið árið 1703 bjuggu 106 manns í Flatey. Flestir voru íbúarnir rétt eftir aldamótin 1900 þegar um 200 manns bjuggu í eyjunni. Eftir það fór að draga úr fastri búsetu í Flatey og í dag hafa fimm manns heimilisfesti í eyjunni allt árið. Á sumrin er hins vegar mikið líf í Flatey því eyjan er vinsæll sumardvalarstaður vegna veðursældar. Plássið sjálft er við Gríluvog og er það skemmtilegt safn gamalla húsa frá 18. og 19. öld.

ree
Plássið stendur við Gríluvog eilítið austar á eyjunni en Ráðagarður. Steingarðurinn var hlaðinn um mmiðja 19. öld að tilstuðlan Brynjólfs Benediktssonar. Garðurinn alltaf kallaður Silfurgarðurinn.

Laugardagurinn hófst nákvæmlega eins og maður vill hafa það þegar maður er í sumarfríi. Í rólegum takti Við fórum út eftir hádegið og röltum niður í plássið. Skoðuðum gömlu húsin þar. Húsin hafa flest verið gerð skemmtilega upp og allt umhverfið er snyrtilegt. Reyndar fyrir utan kindaskítinn sem maður stígur hugsanlega í, jafnvel beint fyrir utan útidyrnar. Kindurnar valsa nefnilega óheftar um alla eyjuna. Göngu okkar lauk við Lundaberg sem ber nafn sitt vegna lundanna sem við bergið búa. Þar settumst við á bekk og nutum þess að fylgjast með fuglalífinu. Hittum landvörðinn og áttum við hann langt spjall. Hann er frá Patreksfirði og gátum við þá að sjálfsögðu rætt um það svæði einnig. Það eru ekki svo mörg ár síðan við vorum þar á ferð og síðan bjó ég í næsta þorpi á unglingsárunum. Landvörðurinn sagði okkur að lundastofninn við bergið hefði látið nokkuð á sjá. Rétt utan við bergið er varpfriðland sem er lokað umgengni til 15. júlí. Hugsunin er að veita fuglunum frið til að verpa og koma ungunum á legg. Þar er sérstaklega verið að hugsa um Þórshanann en nokkur pör verpa í eyjunni. Það væri ekki amalegt að sjá Þórshana því sá fugl er sérlega óalgengur hér á landi. Annars sáum við ýmsar tegundir fugla á þessari göngu okkar. Hænur heilsuðu okkur við veginn niður í plássið og við húsið sat jaðrakan á staur. Við Lundaberg var mikið af kríu og sólskríkja vappaði í kringum okkur á meðan við sátum þar. Einnig sáum við tjald, óðinshana og fýl.


Um fjögurleitið komum við til baka í Ráðagarð og mál voru krufin með samferðafólki okkar. Jóhann hefur greinilega gaman að því að finna veikan blett á kennurum enda umsetinn slíku fólki í tengdafjölskyldu sinni. Af honum lærði ég þessa vísu.


ree
Fýllinn er einn algengasti fuglinn við Ísland í dag en svo hefur ekki alltaf verið. Hann hefur verið snjall að nýta sér það sem fellur frá í fiskvinnslunni. Í Flatey fór honum ekki að fjölga fyrr en upp úr 1950.

Eins varð ég áskynja í réttinni. - ekki skal lúrt á fréttinni. Hér hef ég séð hvað sauðkindin er keimlík kennarastéttinni.


Við fréttum að um kvöldið væri ball í Hótel Flatey. Um hálftíuleitið fórum við þangað. Keyptum okkur drykki og um klukkan tíu hófst gleðin. Hljómsveitin Skárri en ekkert (SKE) með Guðmund Steingrímsson í broddi fylkingar hóf að spila fyrir dansi. Lítill salurinn var troðinn fólki á öllum aldri. Allt frá börnum upp í eldra fólk. Við verðum víst að viðurkenna að við vorum nú í eldri kantinum á þessari samkundu. Dansinn dunaði og var hann dæmigerður fyrir nútíma íslenska danslist. Fólk hoppaði upp og niður. Það var svo sem ekkert annað hægt í þrengslunum.


ree
Beint fyrir neðan Ráðagarð liggur þessi trilla í fjörunni. Aftan við hann sér út á Hólsbúðarvog. Ef gengið er áfram eftir ströndinni til vesturs sér yfir Flateyjarsund (Svefneyjasund) til Svefneyja.

ree
Við Guðrún við bókhlöðuna sem upphaflega geymdi bókakost Framfarafélag Flateyinga.

Sunnudagurinn rann upp. Veðrið var ágætt, rignt hafði um nóttina svo það var svaðblautt á. Tókum fyrstu ljósmyndagönguna eftir suðausturfjörunni frá bryggjunni til kirkjunnar. Á leiðinni skimaði ég auðvitað eftir vænlegum stað til að kasta út færi. Ætli ég byrji ekki á því að reyna við víkina neðan við Ráðagarð þar sem trilluhræið liggur í fjöruborðinu. Á göngunni litum við einnig inn í bókhlöðuna sem er merk fyrir þær sakir að vera næst elsta bókhlaðan á Íslandi. Hún var byggð árið 1864 og stóð í níutíu ár þar sem kirkjan stendur nú. Síðan var hún flutt innar á bókhúsaflöt og krikjan byggð þar sem bókhlaðan stóð áður. Upphaflega var bókhlaðan byggð til að hýsa bókakost Framfarstofnunar Flateyinga og var byggð fyrir tilstilli Brynjólfs Benediktssonar.


ree

Veðrið kom okkur skemmtilega á óvart á mánudeginum því hann reyndist bjartur og fagur. Snæfellsjökull blasti við okkur í suðri og fjöllin á Barðaströndinni í norðri. Til vesturs var opið hafið svo langt sem augað eygði. Við Guðrún höskuðum okkur út fyrir hádegi og skoðuðum kirkjuna og umhverfi hennar. Í Flatey hefur verið kirkja frá 11. eða 12. öld. Núverandi kirkja var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og byggð árið 1926.

ree

Árið 1964 málaði Baltasar Samper altaristöfluna og loftmyndir í kirkjuna. Vegna slæmra aðstæðna í kirkjunni skemmdust upprunalegu myndirnar vegna raka og Baltasar ásamt konu sinni endurmáluðu verkið árið 1992. Myndirnar sem þau hjón máluðu rekja menningar og atvinnusögu eyjanna og fyrirmyndir fólksins eru raunverulegir eyjaskeggjar. Fyrir utan Jesú krist sem stendur á lopapeysunni við hlið tveggja síðustu bændanna í eyjunni. Jesú er grunsamlega líkur Baltasar sjálfum. Hvað um það, verkið er stórskostlega flott.


ree
Flateyjarkirkja stendur Bókhúsflöt. Rétt aftan við bóklöðuna sem sendur aftan við kirkjuna er hús sem heitir klausturhólar. Þar var um átta ára skeið á 12. öld klaustur sem flutt var að Helgafelli.

Um hálftvöleitið héldum við Guðrún niður í fjöru beint undan Ráðagarði. Köstuðum færi út í Flateyjarsund eða Svefneyjarsund. Beittum makríl. Létum annars vegar liggja í botni og hanga í flotholti. Eftir um það bil hálftíma byrjar stöngin hvar agnið lá í botni að titra og tveggja punda þyrskling er landað. Fjórum sinnum hljóp fiskur í agnið en þessi eini kom á land. Hinir gerðu sig líklega en hurfu síðan á braut. Aðstæður voru dálítið önugar því síðustu metrana við landið var sjórinn þakinn þangi og yfir það þurfti að draga fiskinn. Það var eins gott að hann var ekki stærri en hann var.


Um kvöldið gengum við Guðrún út á Lundaberg og urðum þar fyrir alvarlegu aðkasti kríunnar. Þar sem við göngum eftir göngustígnum steypir hver krían eftir aðra sig yfir okkur og voru þær illskeyttar mjög. Ósvífni þeirra átti sé engin takmörk og náðu þær að drita á bæði mig og Guðrúnu. Ástæða þess hve illskeyttar þær voru átti sér skýringar. Á göngustígnum voru kríuungar sem fullorðnu fuglunum fannst nauðsynlegt að verja.


ree
Veiddum þennan af fjörunni neðan við Ráðagarð. Rauði liturinn segir okkur að hann lifir í þaranum.

Óvenju djúp lægð miðað við árstíma nálgast nú landið úr suðri og mun hún valda mikilli rigningu á Vesturlandi. Lægðin mun fara hægt yfir sagði veðurfræðingurinn og brosti. Okkur Guðrúna fannst nú engin ástæða til þess að brosa yfir þessu því það þýddi að leiðindin myndu dragast fram á föstudag og að öllum líkindum koma í veg fyrir áform okkar um að veiða í Hraunsfirðinum seinni partinn þann daginn. Við sjáum hvað setur með það. Hugsanlega verður lægðin komin nógu austalega þegar við komum í land að flugu verður eftir allt saman kastað í Hraunsfjörðinn.


Við ákváðum að ganga um austurhluta eyjunnar á miðvikudagsmorgninum. Nutum útiverunnar og fylgdumst með atferli fuglanna. Mikið hefði nú verið gaman að vera með almennilega aðdráttarlinsu því tilefnin til fuglamyndatöku voru endalaus. Við náðum samt góðum myndum með 100 mm linsunni okkar því bæði teistan og sérstaklega lundinn leyfðu okkur að koma býsna nálægt sér. Guðrún taldi sig jafnvel hafa náð Þórshana á mynd en það var á símann þannig að myndin sú er frekar ógreinileg. Það ætlar að verða að reglu að þegar við Guðrún leigjum sumarbústað og Harpa gætir hundsins þá lendir hún í einhverjum hremmingum. Í fyrra fór að flæða inn í kjallarann hjá henni. Núna veiktist Lappi. Veikindin lýstu sér í uppsölum og niðurgangi.


Veðrið á fimmtudeginum bauð ekki upp á mikla útiveru svo tímanum var að mestu varið í að lesa og skrifa. Guðrún útbjó fyrir okkur dýrindis máltíð úr þyrsklingunum sem við veiddum út af Tröllenda. Síðan fengum við vöfflur og rjóma í miðdagskaffi þannig að það væsti svo sannarlega ekki um okkur. Ég skaust reyndar niður í fjöru og kastaði spún en entist ekki lengi við þá iðju. Þótti óþægilega sleypt á blautu grjótinu. Seinni partinn var okkur Guðrúnu farið að leiðast þófið og röltum niður í Vesturvör til að taka myndir af heyfingu sjávarins með plássið og höfnina í baksýn. Ég held að okkur hafi tekist að ná ágætum myndum.

ree
Myndin er tekin frá Vesturvör. Á henni sér til hafnarinnar og plássins.

ree
Fuglarnir voru frekar spakir. Þessir leyfðu mér að sitja í tveggja metra fjarlægð við myndatökuna.

ree
Þessi hefðafrú valsaði um plássið ásamt kynsystrum sínum.

ree
Við Guðrún og samferðafólk. Anna María og Jóhann á veitingasölunni á Hótel Flatey.



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page