top of page

Gullhamarsvatn 6. ágúst 2022

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 7, 2022
  • 2 min read

Updated: Aug 19, 2022

Loksins gott veður á Hólmsheiðinni


ree

Mér tókst að sannfæra Guðrúnu um að það gæti nú verið skemmtilegt að rölta yfir í Gullhamarsvatn í stað þess að láta nægja að veiða í Hólmavatni. Þessa dagana eru langar göngur ekki í uppáhaldi hjá henni. Þetta er svo sem ekki löng ganga en þar sem við höfum aldrei veitt í Gullhamarsvatni þá vorum við ekki alveg með það á hreinu hversu erfið þessi gangan er.


Um hálfþrjúleitið smurðum við nestið, skutluðum veiðgræjunum inn í bíl og ókum yfir þessar tvær heiðar og upp á þá þriðju til að komast að vötnunum. Vegaslóðinn upp á Hólmsheiðina frá Sólheimum er ekki fyrir hvaða bíl sem er en nýji bíllinn okkar sýndi að hann er kjörinn í svona hark. Slóðinn er 3,5 kílómetrar og verður ekki ekinn nema á gönguhraða. Eftir um það bil einn og hálfan kílómetra greinist slóðinn. Við tókum slóðan sem liggur austur fyrir Hólmsvatn. Þaðan gengum við yfir í Gullhamarsvatn.


Leiðin lá á milli Hólmavatns og Reiðgötuvatns. Hólmavatn sunnan við okkur og Reiðgötuvatn fyrir norðan. Eftir það var þægilegt rölt yfir mýrar og mólendi þar til komið var að Gullhamarsvatni. Við vatnið á meðan við snæddum kvöldmatinn veltum við fyrir okkur hvort við værum á réttum stað. Samkvæmt leiðarlýsingu er vatnið staðsett undir hamri sem ber heitið Gullhamar. Engan sáum við hamarinn hvernig sem við leituðum en í nokkurri fjarlægð í norðaustri sýndist okkur vera einhver klettamynd sem gæti verið hamarinn með dýra nafnið. Okkur fannst hann samt vera það langt í burtu að ónákvæmt væri að segja að hann stæði við vatnið.


ree

Fiskurinn tók fluguna best, næst beituna en ekkert gekk með spúninn. Við hjónin höfum þrisvar sinnum veitt í Hólmavatni og í öll þau skipti hefur verið leiðindarok. Núna var staðan heldur betur önnur því það var logn lengst af á meðan við vorum við veiðar. Í umsögnum um Sólheimavötnin er sagt að best sé að veiða í dumbungi. Sú lýsing á ekki við um aðstæðurnar í þetta skiptið. Það var skýjað og hlýtt. Veiðin byrjaði rólega en eiginkonan landaði þó einum punds urriða fljótlega. Við færðum okkur aðeins til vesturs. Sáum fljótlega fisk vaka. Hentum letingjanum út, aðeins til hliðar við þar sem fiskurinn var að vaka því við ætluðum að kasta flugunni þar sem sýndi sig mest. Það hljóp nánast strax tveggja punda urriði á agnið. Settum þurrflugu undir og fljótlega fór urriðinn að taka hana einnig. Þegar aðeins slaknaði á skiptum við yfir í appelsínugulan nobbler og í fyrsta kasti tók. Síðan var skipt yfir í teal and black fluguútgáfuna og urriðinn tók hana einnig.


Þegar tók að dimma gengum við til baka yfir í Hólmavatn. Tókum að sjálfsögðu nokkur köst í Hólmavatni frá þeim stað þar sem Guðrún landaði þeim nokkrum í fyrra. Þar tók einn pundari beituna. Fiskurinn tók fluguna best, næst kom beitan en ekkert gekk með spúninn.



Comments


bottom of page