Heiðarvatnið 14. ágúst 2021
- Þorkell Daníel Jónsson
- Aug 15, 2021
- 3 min read
Afleggjari virkar á urriðann

Tími heiðarvatnsins hvers nafn verður ekki getið er kominn. Nú erum við hjónin frekar upptekin um helgar við smíðar og verðum að forgangsraða af skynsemi. Þess vegna tókum okkur frí frá smíðunum einn seinnipart og kvöld til að veiða í heiðarvatninu. Við ætluðum að veiða seinni partinn og kvöldið á föstudeginum en vegna veðurs ákváðum við að fresta veiðinni fram á laugardag. Það var heiðskýrt og tuttugu gráðu hiti.

Laugardagurinn upp og það var heiðskýrt og tuttugu gráðu hiti. Þá var ekkert annað að gera en að leggja í hann og klæða sig létt. Eftir klukkustundar langa svitagöngu sem öll var á fótinn bar okkur við mitt vatnið. Við ákváðum að gera allt eins og í fyrra því þá fiskaðist vel. Gengum austurbakkann að þeim stað sem fiskurinn lá í fyrra og ég gekk síðan áfram suðurbakkann. Fyrst settumst við þó niður á austurbakkanum og gerðum okkur klár.
Við vorum nýbúin að sjá veiðþátt þeirra bræðra Gunnars og Ásbjarnar, Veiðikofann, þar sem þeir eru að veiða urriða í Þingvallavatni. Frá einhverjum sem þekkti til fengu þeir þau ráð að leiðin til að fá urriðann til að taka væri að veiða með afleggjara (dropper) og hnýta litlar flugur á tauminn. Ég hef aldrei veitt með afleggjara en ákvað nú að láta á þessa aðferð reyna. Hnýtti Pheasant tail á annan tauminn og einhverja litla flugu á hinn. Gekk síðan eftir suðurbakkanum, framhjá eyjunni sem himbriminn verpir í og að skerinu til móts við Réttartangann. Þegar vatnsstaðan er lág eins og nú er hægt að vaða út í skerið og það var það sem ég gerði. Að vaða út í skerið er reyndar dálítið önugt og verður ekki léttara með árunum. Við skerið er orðið frekar djúpt og stórgrýtt. Þegar ég er

komin þar sem dýpst er og ætla að klöngrast yfir grjótið finn ég að önnur stöngin er föst. Andskotin, hefur flugan nú krækst í stein hugsaði ég. Ég er með tvær stangir í hægri hendinni og notað þá vinstri til að styðja mig við grjótið við bakkann. Þegar ég rykki í stöngina til að losa festuna rýkur línan út. Urriði hafði gripið fluguna og hann var ekkert lítill. Með tvær stangir í höndunum reyndi ég eitthvað að draga fiskinn að mér en þær voru flæktar saman. Ég sá að svona gengi þetta ekki. Ég varð að ná slaka á flugulínuna til að losa stangirnar í sundur og vona að urriðinn slyppi ekki á meðan. Þegar ég var búinn að ná stöngunum í sundur henti ég annarri stönginni upp á skerið og hófst handa við að ná urriðanum í háfinn. Það tókst og síðan brölti ég upp á skerið. Urriðin reyndist vera fjögur pund. Segið svo að afleggjari virki ekki.

Ég veiddi síðan allt í kringum skerið og fékk eina góða töku. Sá fiskur slapp þó. Þegar ég kom til baka á austurbakkann hafði Guðrún ekki orðið vör. Við gengum þá á suðurbakkann. Ég yfir í skarðið á bakkanum við Lómavíkina en Guðrún veiddi í Veiðivíkinni. Þar missti hún góðan fisk. Nú var þokan mætt og varð á skammri stund mjög dimm. Ég ákvað að hringja í Guðrúnu. Hringinguna heyrði ég skýrt og greinilega því síminn hennar var í bakpokanum sem ég var með á öxlunum. Hún hefur samt fengið hugboð því skyndilega sé ég bjart ljós í þokunni. Við vorum bæði með ljós á okkur því við vissum að það væri orðið niðadimmt þegar við gengjum heim á leið.
Á milli Veiðivíkurinnar og bakkans sem ég veiddi af er Breiðavíkin. Við veiddum hana bæði, hún frá austri en ég frá vestri. Bæði fengu töku, hún missti sinn en ég náði að landa einum tveggja punda urriða. Núna var klukkan orðin hálf tólf og ekki lengur ratljóst. Sólin var löngu sest og þokan jók enn á myrkrið. Við gengum því af stað heim á leið ánægð með góða útivist. Daginn eftir biðu áframhaldandi smíðar.
Comments