Heiðarvatnið 23. júlí 2022
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 24, 2022
- 2 min read
Updated: Aug 7, 2022
Einmuna veðurblíða

Undanfarna daga hefur verið einstaklega mikið staðviðri á heiðinni þar sem Heiðarvatnið er. Logn eða í mesta lagi hægur andvari dag eftir dag. Ég ákvað að kanna hvort Heiðarvatnið væri veiðanlegt við þessar aðstæður. Sagan sagði að best væri að veiða í vatninu eftir stranga suðvestan átt. Það átti auðvitað við um Veiðivíkina því urriðinn virðist leita inn í hana þegar blæs úr suðri.
Ég ákvað að veiða hringinn í kringum vatnið því ég hafði daginn fyrir mér og þóttist vera í ágætlega gönguhæfu ástandi. Var kominn að vatninu klukkan hálf ellefu að morgni. Byrjaði á vesturbakkanum við grjóthrúguna þar sem ég hef einu sinni áður fengið fisk. Varð einskis var og ályktaði að sjálfsögðu strax sem svo að í þessu veðurástandi væri vatnið óveiðandi. Kastaði hér og þar á leið minni fyrir víkina. Út af norðanverðum Réttartanganum varð ég í fyrsta sinn var við fisk í þessu vatni fyrir mörgum árum síðan. Í lygnunni sá ég greinilega að þarna myndast sund á milli grynninganna við bakkann og grynninga úti í miðju vatni. Mér þótti ekki ólíklegt að þarna gæti urriðinn haldið sig. Ég snaraði því af mér bakpokanum og óð út í vatnið þangað sem að auðvelt var að kasta út þar sem dýpra var. Eftir nokkur köst greip 1,6 punda urriði svartan nobbler. Að sjálfsögðu gaf ég þessu svæði meiri tíma og nokkrum köstum síðar greip annar nobblerinn. Sá var 2,2 pund. Þriðji urriðinn tók nobblerinn en hann var lítill og honum var sleppt.
Áfram var veitt eftir Réttartanganum, norður fyrir hann og síðan öll víkin norðan við tangann. Þegar ég er kominn inn í botn víkurinnar er ég aðeins farinn að þreytast því gangan var orðin ansi löng. Þótti af einhverjum ástæðum, sennilega vegna fyrri reynslu, botninn á víkinni þeirri ekki líklegur veiðistaður. Ákvað samt að kasta tvistar í víkina með kaststönginni. Nennti ekki einu sinni að taka af mér bakpokann. Í öðru kasti tekur myndarlegasti fiskur svartan toby. Sá reyndist vera 2,8 pund. Þá skipti ég yfir í fluguna og varð í tvígang var. Sennilega hefði ég á endanum náð öðrum ef ég hefði gefði þessu meiri tíma.
Nú var gengið fyrir víkina og kastað hér og þar. Einu sinni elti urriði sem skemmtilegt var að sjá í lygnu vatninu. Að lokum var gengið að þeim stað á vesturbakkanum þar sem oft hefur orðið vart við fisk. Að þessu sinni var ekkert að gerast þar. Nú var ég eiginlega búinn með orkuna þannig að ég lét þetta gott heita að þessu sinni.

Comentários