top of page

Heiðarvatnið 8. ágúst 2015

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 9, 2015
  • 3 min read

Vel heppnuð veiðiferð


ree

Fyrir um það bil þrjátíu árum gekk ég fyrst upp að þessu vatni. Þá var gangan öllu erfiðari en hún er í dag því enginn var slóðinn upp eftir hálsinum sem vatnið er á. Aðeins móar, mýrar og melar sem þyngdu gönguna. Ég hef heyrði sögur af netaveiði þegar búskapur var á jörðinni sem vatnið tilheyrir en fáar voru sögurnar af stangveiði. Sennilega þótti full tímafrekt að sækja fiskinn með þeirri aðferðinni.


Fljótlega eftir að ég frétti af tilvist vatnsins fékk ég áhuga á að láta á reyna hvort stangveiði í því væri möguleg. Hafði þá trú að það hlyti að vera hægt að ná upp fiski með stöng finnst það var fiskur í vatninu á annað borð. Fyrstu tilraunir gáfu ekki tilefni til nokkurrar bjartsýni en árangur hefur farið batnandi með árunum. Um Verslunarmannahelgina hitti ég á skógræktarbóndann sem á jörðina í dag. Hann spurði hvort ég ætlaði mér ekki að reyna fyrir mér í vatninu þetta árið. Ég sagðist hafa hug á því einhvern tíman í ágúst. ,,Endilega gerðu það en kíkið nú við í kaffi áður og fáið lykilinn að hliðinu,“ sagði hann og hélt áfram í girðingavinnunni.


Þegar við komum helgina á eftir var enginn á bænum og því ekkert annað að gera en ganga upp að vatninu. Að þessu sinni vorum við hjónin ein á ferð, engin börn og enginn hundur. Gangan tók um klukkutíma og korter og hvað hún er mikið auðveldari en áður þegar ekki var hægt að ganga slóðann.


Við ákváðum að eiginkonan byrjaði í Veiðivíkinni þar sem netin voru lögð í gamla daga. Ég rölti yfir í Grunnuvík og veiddi hana vestanverða. Við ætluðum síðan veiða í rólegheitunum vestur eftir vatninu. Í Grunnuvík hef ég einu sinni fengið fisk og í annað sinn orðið var. Veiðivíkin hefur skilað mörgum silungnum í potta þeirra sem á bænum bjuggu því þar voru netin lögð. En enginn þeirra var veiddur á stöng. Einu sinni fyrir mörgum árum varð ég var við fisk í þessari vík þegar myndarlegur urriði hreinsaði sig upp úr vatninu þegar hann hentist á eftir agninu hjá mér. Sagan sagði að best væri að leggja netin í Veiðivíkina í kjölfar suðaustanvinds. Því sterkari vindur, því betra.


ree
Rauðu punktarnir sýna staðina þar sem við höfum náð fisk úr vatninu.

Í þessari ferð var norðaustanátt sem snerist í hreina austanátt á meðan við vorum að veiðum. Ég veiddi Grunnuvík en varð ekki var við fisk. Þegar ég kem fyrir tangann á milli Grunnuvíkur og Veiðivíkur og vitja konunnar þá er hún búin að landa rúmlega tveggja punda urriða. Honum náði hún með því að kasta meðfram bakkanum svona einn og hálfan til tvo metra út. Maður þarf ekki alltaf að kasta svo langt út sem kraftar leyfa.


Næsta vík við Veiðivíkina er Breiðavík. Í henni hef ég aldrei fengið fisk en að þessu sinni, fyrir henni miðri, tekur þriggja og hálfs punda urriði hjá eiginkonunni. Hún var algerlega að slá karlinum við. Báðir þessir fiskar voru hrygnur, vel hrognafullar. Á veiðiferðum okkar hjónanna er það margendurtekin saga að eiginkonan fyllist samviskubiti og samúð með bráðinni og það á sérstaklega við ef bráðin er farin að nálgast það að hrygna. Austanvert í Breiðavíkinni verðum við bæði vör við fisk. Fjórum sinnum elti silungur hjá mér upp í harða land og sneri við með sporðaskvettum þegar hann missti af agninu.


Næsti veiðistaður er sá staður í vatninu sem hefur gefið okkur mest af fiski á stöng. Hann er á bakkanum sem er á milli Breiðavíkurinnar og Lómavíkurinnar. Þar sem ég var enn fisklaus fékk ég forgang að þessum veiðistað. Ákvað að skipta um flugu og setti kuðung undir því fyrsti silungurinn var fullur af kuðungum. Á bakkanum sat eiginkonan og fylgdist með. Kuðungurinn skilaði engu svo ég ákvað að skipta um flugu og setja eitthvað glannalegt undir. Á meðan ég er að skipta um flugu heyri ég að konan hrópar: „Vá, það stökk stærðar fiskur fimm metra frá þér.“ Ég hvorki heyrði né sá fiskinn en kastaði stærðar flæðamús með keilu sem haus í áttina sem hún benti. Ég var ekki búinn að draga nema svona fimmtíu sentímetra af línu að mér þegar mikið högg kom á stöngina. Stór urriði hafði þrifið flæðamúsina. Ég lenti í hálfgerðum vandræðum með að landa urriðanum því taumurinn var allt of langur hjá mér. Hann endaði þó í háfnum og reyndist vera fimm pund.

ree

Skömmu síðar örlítið austar á sama bakkanum setti eiginkonan í urriða sem reyndist fjögur pund. Ég ákvað að rölta yfi í Lómavík og taka nokkur köst þar. Það tók ekki mörg köst að setja í fallegan þriggja punda urriða sem reyndist sá síðasti í þessari vel heppnuðu ferð. Það voru þreytt en alsæl hjón sem lögðust til hvílu eftir vel heppnaðan veiðitúr.



Comments


bottom of page