Here comes the sun
- Þorkell Daníel Jónsson
- Nov 18, 2017
- 2 min read
Lag og texti: George Harrison

Textinn lagsins, Here Comes the Sun er upplífgandi og vekur von um betri tíð með blóm í haga. Laglínan er einföld og grípandi en takturinn í er sérstakur. Erindin og viðlagið eru í 4/4 takti en í millikaflanum stekkur takturinn yfir í 2/4, síðan í 3/8 og 5/8 og aftur yfir í 4/4. Frekar flókið finnst manni. Hljómarnir eru D dúr hljómar en Harrison spilaði þá með klemmu á sjöunda bandi. Þar hljómar lagið í A dúr.
Jákvæðni og bjartsýni einkenna þessa tónsmíð Harrisons en það er nú varla í takt við ástandið á hljómsveitinni á þeim tíma þegar lagið var samið. Eftir lát Brians Ebsteins þurftu þeir að sinna viðskiptahliðinni og það átti sennilega ekki vel við þá. George í öllu falli hundleiddist þessir viðskiptafundir. Ekki hjálpaði það ekki upp á andrúmsloftið að John og Paul stóðu í argaþrasi um hvern skyldi ná fá til þess að leysa úr peningamálunum. Sjálfur sagði George svo frá að hann hafi í eitt sinn látið sig vanta á einn af þessum leiðindafundum. Í staðinn heimsótti hann vin sinn, Eric Clapton sem átti heima í Surrey á Englandi á þessum tíma. Í bakgarðinum hjá honum samdi hann lagið á einn af gíturum Claptons. Hann sagði að kveikjan að laginu hafi verið léttir yfir því að vera þarna úti í sólinni en ekki á fundinum. Sjálfum þykir mér nú líklegra að sólinn hafi verið kveikjan. Við vitum öll hvernig lundin léttist við það eitt að sjá vorsólina brjótast fram eftir langan og dimman vetur.
Þegar Bítlaæðið stóð sem hæst á árunum 1961 – 1967 var samvinna fjórmenninganna rómuð. Einn þeirra kom með hugmynd að lagi og hinir betrumbættu hugmyndina með gagnrýni sinni, athugasemdum og tillögum. Eftir árið 1967 fór þetta að breytast. Here Comes the Sun var tekið upp fyrir plötuna Abbey Road í Abbey Road hljóðverinu í júlí og ágúst árið 1969. John kom hvergi nálægt upptökunum því hann var annað hvort að jafna sig eftir bílslys eða bara með þvergirðing því á þessum tíma var hann ekki viljugur til að spila í lögum Georges. Paul og Ringu ásamt George tóku bassa, trommur og ryþmagítarinn upp þann 7. júlí og þann áttunda hjálpaði Paul til við sönginn. Síðan sá George um restina.
Ég lærði að spila lagið Here Comes the Sun fyrir mörgum árum síðan og fæ af einhverjum ástæðum aldrei leið á því. Ég spila lagið í plokkaðri útsetningu en George spilaði það með gítarnögl. Í báðum tilvikum er laglínan spiluð með allan tíman. Ég hafði alldrei velt fyrir mér að spila lagið með nögl. Datt í hug að það gæti verið góð æfing að reyna að ná tökum á því einnig þannið núna er ég að myndast við að spila lagið með nögl. Hér fyrir neðan er upptaka af mér að spila Here Comes the Sun. Hér er ég með klemmu á sjöunda bandi en stundum spila ég það bara í D dúr.



Comments