top of page

Hlíðarvatn í Selvogi 12. júní 2016

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 12, 2016
  • 1 min read

Veiðdagur fjölskyldunnar í Hlíðarvatni


Ég hef lengi rennt hýru auga til Hlíðarvatns í Selvogi. Hef heyrt sögur af vænum bleikjum og skemmtilegri fluguveiði. Í lok vinnuvikunnar hafði félagi minn samband og sagði að veiðifélögin fjögur sem leigja rétt til veiða í vatninu ætluðu að bjóða gestum og gangandi að veiða í vatninu á sunnudeginum. Þar sem við höfðum hvorugur veitt í vatninu en báðir voru forvitnir um hvað það hafi að bjóða fannst okkur kjörið að skjótast þarna suðureftir með veiðistangirnar.


Okkur bar fyrst niður við skála Stangveiðifélags Hafnarfjarðar. Hittum þar á félagsmenn sem voru að fylgjast með veiðimönnum. Við sögðumst vera alveg grænir og spurðum ráða. ,,Á hvað veiðið þið?“ spurðu þeir. ,,Við veiðum bara á flugu,“ svöruðum við. ,,Nú þá eruð þið varla alveg grænir.“ Síðan fengum við smávegis upplýsingar um vatnið áður en við héldum við til veiða. Á meðan við spjöllum við Hafnfirðingana gengur veiðimaður framhjá okkur með rígvæna bleikju sem staðfesti að ef heppnin er með gæti maður lent í ævintýrum.


Bleikjurnar tóku utan við þennan bakka.

Við ákváðum að byrja á bakkanum neðan við sumarhús sem er vestan við aðstöðu Ármanna. Röltum niður á Húsatanga, að við höldum, og veiddum fyrir hann í átt að Gömluvör Það var hlýtt, einar 15 gráður, og bjart. Smávegis gola blés að suðaustan. Frábært veður en hvort þetta teljist vænlegt veiðiveður í Hlíðarvatni veit ég ekki. Ég náði að landa fjórum bleikjum af þessum tanga og félagi minn náði einni. Mínar bleikjur veiddust allar á krókinn og voru í kringum pundið. Næst fórum við austur fyrir veiðihús Stangveiðifélags Hafnarfjarðar og prófuðum að veiða skammt frá A sumarhúsunum tveim sem þarna eru. Sá staður gaf eina smáa bleikju sem var sleppt.

Comments


bottom of page