top of page

Hóp 10. september 2022

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Sep 10, 2022
  • 2 min read

Updated: Jan 29, 2023

Síðasta veiðiferð ársins.


ree

Alveg rétt, haustið er komið hugsuðum við hjónin þegar við mættum fjársafninu þar sem það streymdi í átt að Hellisá á leið sinni yfir í Þverárrétt. Undruðumst síðan hve mikið fé var enn í hlíðunum fyrir ofan Fornahvamm. Þegar ofar dró á Holtavörðuheiðina fengum við skýringu á því. Hafi leitamenn lagt í að reyna að smala heiðina þá hafa þeir varla séð nokkra rollu því þokan var þétt. Ferð okkar hjónanna var heitið í Hópið og vorum nokkuð viss um að þetta yrði síðasta veiðiferð ársins.


Okkur leist ekki allt of vel á þegar við beygðum til norðurs eftir vegi 716. Það var ansi þétt þoka við Vesturhópsvatn. Okkur langaði helst að sjá landslagið því við erum nú ekki oft á ferð á þessum slóðum. Þokunni létti aðeins en aldrei nóg til að við fengjum eitthvað útsýni. Það var norðanátt, dálítill vindur en ekki fannst okkur kalt þótt hitinn væri ekki nema átta til níu gráður. Við byrjuðum að reyna veiðar við klettana yst á Ásbjarnarnesinu. Þar byrjuðum við einnig árið 2014, síðast þegar við fórum í Hópið. Ekki urðum við vör þar. Fljótlega færðum við okkur norður fyrir klettana. Þar voru aðstæður betri en norðanvindurinn lamdi á okkur þannig að dvölin við bakkann þar var ekki beint notaleg. Náðum einum afskaplega smáum sjóbirting. Færðum okkur síðan suður fyrir klettana. Þar var lygnar og vistin betri. Við urðum ekkert vör við fisk svo við ákváðum að halda heim. Ákváðum að kasta spún nokkrum sinnum áður og eiginkonan setti í eina eins og hálfs punds sjóbleikju. Þar með var síðustu veiðiferð ársins lokið og við héldum heim í kvöldverð.


ree
Eiginkonan með sjóbleikjuna. Í fjarskanum hægra megin á myndinni sér í klettana þar sem við byrjuðum.

ree
Ætli þetta sé nestisaðstaðan sem talað er um á sumum veiðivefum? Við sáum ekkert annað nothæft hús á svæðinu.

Þar sem við erum lítt kunnug veiðum í Hópinu vorum við ekkert ofurbjartsýn á árangur. Við vitum að það tekur tíma að læra á nýtt veiðivatn. Það einfaldar ekki málið þegar vatnsbolurinn er svona ógnarstór. Hópið er fimmta stærsta stöðuvatn á Íslandin, 29 til 44 ferkílómetrar eftir því hvernig stendur á sjávarföllum. Það er ekki djúpt. Einungis 9 metrar þar sem það er dýpst. Við vorum ekki með kunnugum þannig að það var ekkert annað að gera en að reyna hér og þar þangað til vænlegur staður fyndist. Á nokkrum veiðivefum fundum við einhverjar lýsingar á því hvar vænlegt væri að bera sig niður. Það þykir vænlegt að reyna á norðanverðu og austanverðu Ásbjarnarnesinu. Þar byrjuðum við og fengum sjóbleikjuna út af austanverðu nesinu. Einnig hefði verið vænlegt að aka áfram út með vatninu til norðurs og reyna við staðina undir hlíðunum vestan megin í vatninu í átt að ósnum. Reyndar er slóðinn þarna niður eftir frekar torfær. Í lýsingunum er einnig talað um nestis og salernisaðstöðu við Ásbjarnarnes. Okkur hjónunum fannst líklegt að hér væri verið að vísa í kamar sem við sáum út í miðjum móa og bæjarhús bæjarins Ásbjarnarness sem reyndist vera í algerri niðurníðslu. Við hliðbæjarhússins var torfhús sem leit ágætlega út en ekkert benti til þess að það væri umrædd nestisaðstaða því það hús var læst.


ree
Það eru mun fleiri veiðistaðir í vestanverðu vatninu. Sennilega er dýpra þar og töluverður straumur aðeins frá bakkanum. Í austanverðu vatninu eru einnig veiðistaðir en þeir eru færri.



Comments


bottom of page