Ketuvötn 12. júlí 2010
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 12, 2010
- 1 min read
Maðurinn læsti bílnum.

Síðar í júlí fór smíðaklúbburinn í Ketuvötn á Skagaheiði. Að þessu sinni veiddum við mest í Selvatni og í öðru Kelduvatninu. Í Selvatni er bæði urriði og bleikja. Tvennt sat eftir í minninu eftir þessa ferð. Annað var hegðun bleikjunnar og hitt var hegðun borgarbúans. Greinilegt var að bleikjan sá fluguna sem ég bauð henni því hún elti. En hún gerði ekkert meira en það. Hún bara elti en aldrei tók hún.
Hitt var hegðun borgarbúans sem sá ástæðu, þarna lengst uppi á heiði þar sem ekki sála var á ferli utan meðlimir smíðaklúbbsins, til að læsa bílnum svo fyllsta öryggis væri gætt. Síðan hélt borgarbúinn til veiða. Annar sat á bakkanum við bílinn með einn bjór í hönd og smávegis af beitu. Þegar hann ætlaði að sækja sér meiri bjór kom hann að læstum bíl. Inni í bílnum var bjórinn og beitan. Hann varð að gera sér að góðu að sitja þarna þyrstur mjög í margar klukkustundir. Til sárabótar fyrir hann þá veiddi hann einstaklega vel þarna af bakkanum. Á heimleiðinni var komið við í Aðalsmannsvatni á Eyvindarstaðaheiði. Nóg var af silungnum í því vatni en hann var smár, afskaplega smár.
Í þessari veiðiferð landaði ég 35 silungum og 14 þeirra voru bleikja, restin urriðar.




Comments