Krókavatn, Tangavatn og Djúpavatn
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 22, 2022
- 4 min read
Updated: Jul 24, 2022
Nú varð mér ekki um sel

Í vetur einsetti ég mér að finna tíma í sumar til að ganga inn að Djúpavatni og veiða síðan vötnin þrjú, Djúpavatn, Tangavatn og Krókavatn. Þessi vötn eru á mótum Borgarbyggðar og Húnaþings vestra. Krókavatn og Tangavatn tilheyra Borgarbyggð en Djúpavatn tilheyrir Húnaþingi vestra. Það er reyndar svo að ég er ekki viss um að ég sé með nöfn vatnanna á hreinu. Tengdafaðir minn kallaði fyrsta vatnið sem maður kemur að þegar maður gengur til austurs frá gömlu gryfjunum á Holtavörðuheiðinni Krókavatn og ég held að ég haldi mig við það heiti héðan í frá. Næsta vatn er merkt sem Tangavatn á kortum en ég hef heyrt tvö önnur heiti á þessu vatni, Hólmavatn og Reipavatn. Það væri fróðlegt að heyra í staðkunnugum og fá á heiti vatnanna á hreint. Því miður hef ég ekki lengur aðgang að vitneskju tengdaföður míns en hann hefði eflaust getað frætt mig betur um heiti vatnanna.
Tangavatn er austan við Krókavatn og Djúpavatn norðaustan við Tangavatn. Stutt er á milli vatnanna og þetta er frekar auðveld ganga. Ekki mikið á brattann og aðeins lágir hólar og ásar. Ég gekk til norðausturs frá þeim stað sem ég skildi við bílinn því mér þótti líklegt að þá gengi ég beint á Djúpavatn. Það stóð heima því eftir um það bil hálftíma göngu var ég kominn að vatninu. Veðrið var gott og stillt nema að þegar ég ætla að hefja veiðar í Djúpavatni fer að rigna í logninu og það hreint svakalega. Vöðlujakkinn minn hélt engan veginn þessu vatnsflóði svo ég varð blautur strax í upphafi veiðiferðar. Það gerði svo sem ekki mikið til því það var hlýtt. Vatnið fannst mér vera ágætlega veiðilegt. Við vatnið hafði ég félagsskap Himbrimans. Fuglinn sá er alltaf merki um að í vatninu sé fiskur. Einnig var álftapar við vatnið. Mér varða ekkert ágengt við veiðarnar í Djúpavatni fyrir utan að einn fingurlangur silungur greip fluguna.


Ætli klukkan hafi ekki verið að nálgast sex þegar ég ákvað að segja þetta gott í Djúpavatni og gekk til baka yfir í Tangavatn. Ég gaf vatninu ekki langan tíma því ég ætlaði að skoða Tangavatn einnig og ljúka veiðum í Krókavatni. Ég kom fyrst að norðurbakka Tangavatns. Þar sé ég að mikil froða var við vatnsbakkan. Stundum hef ég heyrt að þessi froða sé merki um fisk en það þarf ekki endilega að vera svo. Froðan er merki um lífræn efni í vatninu sem báran og vindurinn þeyta upp og við það myndast froðan. Ég kastaði nokkrum sinnum þarna á norðurbakkanum því mér þótti ekki óveiðilegt þar. Gekk síðan eftir vesturbakkanum og kastaði hér og þar. Um það bil miðja vegu sé ég að það er örstutt yfir í Krókavatn og ég sé bílinn blasa við uppi á ásnum þar sem ég skildi við hann. Mér þótti ágætt að sjá hve stutt var á milli vatnanna þannig að það yrði lítið mál að rata ef skyggni dapraðist. Tangavatn er grunnt vatn og velti ég fyrir mér hvort það botnfrysi að vetrum. Ekki veit ég það en auðvitað er hugsanlegt að það séu einhverjir pollar sem fiskurinn getur sótt í þegar frystir. Ég ákvað að ganga suður fyrir vatnið í von um að þar væru vænlegir staðir. Ekki varð ég var við fisk en á stærsta tanganum við vatnið vakti gróðurinn athygli mína. Mikið var um burnirót á tanganum og á göngu minni eftir honum sé ég óvenju þéttar breiður af hreindýramosa. Ég sé dálítið eftir því að hafa ekki tekið myndir af hreindýramosanum en nennti ekki að taka af mér bakpokann til að sækja ljósmyndagræjurnar.
Þegar hér er komið við sögu í gönguferð þessari er klukkan að nálgast hálfníu. Skyndilega hellist norðanfýlan yfir og öll kennileiti hverfa. Ég ákvað að rölta þennan stutta spöl yfir í Krókavatn því þaðan taldi ég að auðvelt yrði að rata að bílnum. Ég geng af stað. Ákveð að fylgja slóða sem þarna var því mér þótti það öruggara. Vissi að það var slóði sem lá í austur frá Krókavatni í átt að Tangavatni. Eftir þó nokkra göngu fara að renna á mig tvær grímur því ég kom að smápollum sem ég hélt að væru Krókavatn en svo reyndist ekki vera. Gekk áfram nokkra stund þar til sú hugsun læðist að mér að ég sé kominn í vandræði. Ákvað að prófa hvort Google maps hjálpaði eitthvað sem það gerði ekki. Forritið varaði mig bara við því að það væri erfitt að staðsetja mig og að áttavitinn gæti verið ónákvæmur. Núna var aftur farið að rigna af krafti. Ég ákvað að fylgja slóðanum til baka. Í versta falli yrði ég að hanga þarna þar til þokunni létti en af slóðanum ætlaði ég ekki. Eftir nokkra göngu kem ég að hliðarslóða sem ég taldi að lægi að Krókavatni. Sá slóði endaði í engu svo ég hélt til baka. Að endingu fann ég slóðann að Krókavatni og þá létti þokunni um stund. Mikið varð ég því feginn. Reyndi að veiða þar án árangurs og gekk síðan upp í bíl. Á meðan ég geng þann stutta spöl mætti þokan aftur. Ég held að ég láti mér þetta að kenningu verða og fái mér gamaldags áttavita. Þá þarf ég ekki að treysta á batterísgræjur og samband við gervihnött.
Comments