Lappi við Norðurá
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 9, 2015
- 2 min read
Hundar finna lykt af laxi

Eins og svo oft áður fengum við hjónin okkur kvöldgöngu upp að brú að loknum kvöldverði í Brautarlæk. Við skyggndum hylinn undir brúnni og sjáum að neðarlega í hylnum liggja fimm laxar og þrír þeirra stórir. Ofar í strengnum lágu aðrir þrír. Með í för var Lappi, hundurinn okkar. Hann rauk strax niður að á og stillti sér upp á bakkanum í beinni línu frá löxunum.
Það var áhugavert að fylgjast með atferli hans þar því greinilegt var að hann vissi af löxunum. Hann sperrti sig allan upp eins og hann gerir þegar eitthvað vekur athygli hans og þefaði í átt að hylnum þar sem laxarnir lágu. Síðan óð hann í átt að löxunum eins langt og hann þorði. Sem betur fer þá hafði hann vit á að vaða ekki of langt því þá hefði hann húrrað niður ána.
Eins og hlýðnum hundi sæmir hljóp hann í spretti til okkar þegar við kölluðum á hann. Hann eirði þó ekki lengi hjá okkur því fljótlega var hann farinn að kanna aðstæður á hinum bakkanum. Þær eru heldur verri því þar standa klettar alveg fram í ána. Lappi tefldi á tæpasta vað og um tíma vorum við smeyk um að spenningurinn bæri hann ofurliði og hann færi fram af brúninni og út í ána.
Nú velti ég fyrir mér hvað hafi valdið þessari hegðun hundsins. Er það virkilega þannig að hundar finni lykt af fiski í á eða var það bara tilviljun að hann stillti sér upp á bakkanum á nákvæmlega réttum stað? Sá hann kannski fiskinn ofan af brúnni? Getur verið að hundurinn okkar sé búinn það góðri ályktunargáfu að hann hafi lesið í atferli okkar hjónanna þegar við vorum að skyggna hylinn? Við hjónin höllumst að hinu fyrsta. Að Lappi hafi einfaldlega fundið lyktina af löxunum.
Lyktarskyn hunda er amk. 10.000 sinnum næmara en manna og það hefur verið sannað að hundar finna lykt af hlutum í vatni. Allt Lappi leit aldrei á hylinn ofan af brúnni auk þess að hann hefur mun síðri sjón en við. Þess vegna er ekki svo fráleitt að ætla að Lappi hafi einfaldlega fundið lyktina af löxunum. Nú sé ég mér leik á borði og hætti að reyna að skyggna hylji. Ég bara tek Lappa með mér og læt hann þefa fiskinn uppi.



Comments