top of page

Make You Feel My Love

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jan 16, 2018
  • 2 min read

Lag og texti: Bob Dylan


Árið 1997, þá 56 ára, sendi Bob Dylan frá sér plötuna Time out of mind. Platan þykir einstaklega vel heppnuð. Hún hlaut þrjú Grammyverðlaun og kom Dylan aftur á kortið. Gagnrýnendur fundu fáa agnúa á plötunni nema þá helst lag númer níu. Lágstemmt, einfalt, gamaldags ástarlag, Make you feel my love.


Greiningar gagnrýnenda munu seint teljast hinn heilagi sannleikur. Hyldjúpar spekúlasjónir þeirra eru ekki endilega í takt við það sem hinn almenni tónlistarunnandi er að hugsa. Hann hlustar á tónlist til að hrífast. Þetta á svo sannarlega við um lag númer níu á þessari stórgóðu plötu. Ekkert lag á plötunni hefur náð þvílíku flugi og lagið Make you feel my love. Fjöldi tónlistarmanna hafa séð eitthvað annað í laginu en gagnrýnendur og gerðu sína eigin útgáfu af því. Í þeim hópi eru ekki ómerkari flytjendur en Billy Joel, Adele, Garth Brooks, Bryan Ferry og Kelly Clarkson.

Listi þeirra sem hafa glímt við þetta lag er óendanlegur. Mínum eyrum náði lagið samt ekki fyrr en Sara Pétursdóttir flutti það snilldarvel í söngkeppni framhaldsskólana árið 2014. Stuttu síðar spilaði dóttir mín píanóútgáfu af laginu í tónlistarskólanum sínum. Þá datt mér í hug að kanna hvort ekki væru til útsetningar af laginu fyrir plokkaðan gítar. Á slíkum útsetningum reyndist enginn hörgull. Mýgrútur fólks hefur glímt við að spila það og birt á netinu. Ég valdi útsetningu eftir Ulli Boegerhausen, skrifaði hana upp, og lærði að spila eins og heyra má í myndbandinu hér fyrir neðan. Strangt til tekið ætti ég ekki að láta útsetninguna fylgja þessari grein en leyfi mér það í ljósi þess að hana er auðvelt að nálgast víða á vefnum. Sennilega eru nóturnar mínar eitthvað ólíkar þeim upprunalegu því þegar ég skrifaði þær upp notaðist ég ekki við nótur Boegerhausen og hef sennilega breytt einhverju hér og þar.

Þegar fjallað er um lag eftir Dylan verður ekki hjá því komist að hugleiða aðeins um textann. Textinn við lagið Make you feel my love er ekki flókinn. Hann fjallar um ástina, þær fórnir sem sögumaður er tilbúinn til að færa fyrir hana og þrá eftir að ástin sé endurgoldin. Eins og í flestum textum Dylans má alveg finna vísanir í honum sem benda til þess að hann sé margbrotnari en í fyrstu sýnist. Ýmsir hafa bent á að það séu sterkar vísanir í Biblíuna í textanum og að sögumaðurinn sé Jesús kristur. Aðrir hafa bent á að textinn hverfist um bágborið hugarástand sögumannsins og eigi jafnvel rætur í skilnaði Dylans og eiginkonu hans nokkrum árum fyrr. Hvað sem í textann má ráða er rétt að hafa í huga það sem Dylan sagði sjálfur. ,,Merking textanna breytist eftir því sem tíminn líður. Fólk getur lagt ólíka merkingu í textana eftir þeim aðstæðum sem það er í hverju sinni. Þeir eru marglaga.“





Comments


bottom of page