Selvatn 13. júlí 2023
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 13, 2023
- 2 min read
Updated: Jul 18, 2023
Öngull í hökunni

Ekkert óskaplega langt frá kofanum okkar í sveitinni er vatn eitt sem eiginkonan er með æfilangt veiðileyfi í vegna dvalar sinnar og vinnu á jörðinni sem vatnið tilheyrir. Það eru að nálgast fjörutíu árin síðan hún var þarna við störf. Jörðin heitir Hreðavatn og var í ábúð á þeim tíma og stundum var sóttur silungur í Hreðavatn. Oft fór hún og lagði net í Hreðavatn en aldrei var farið í Selvatn. Ætli ástæðan hafi verið að það hafi ekki tekið því vegna þess hve lítið er af fiski í vatninu?
Vonandi ekki því Selvatn fær þann heiður að vera fyrsta vatnið sem við veiðum í þetta sumarið.
Síðustu vikuna hefur veðrið verið einmuna gott í Norðurárdalnum. Okkur langaði að bleyta í færi í blíðviðrinu en gáfum við okkur ekki tíma til þess. Langaði að klára að einangra geymsluskúrinn sem við smíðuðum þar síðasta sumar. Loksins þegar við síðan ákváðum að skella okkur í veiði hafði hann snúist í norðanátt þannig að ekki var lengur hlýtt. Eiginkonan nefndi Selvatn. Þrátt fyrir nálægðina og veiðileyfið höfum við aldrei prófað að veiða í því. Höfum þar af leiðandi ekki hugmynd um möguleikana.

Við komum að vatninu að suðvestanverðu og létum nægja að reyna frá bökkunum að vestan og austan og sunnan. Það er bratt niður að vatninu að vestan og austan og grynningarnar eru ekki nema svona meter að breidd og síðan tekur hyldýpið við. Fyrir aftan tekur við kjarri vaxin snarbrött brekka þannig að það reyndist erfitt að kasta flugu nema frá suðurbakkanum. Eiginkonan kastaði spúni og setti strax í ágæta bleikju en missti hana. Ég kastaði flugunni nokkrum sinnum eða þangað til að stöngin brotnaði. Já, Sagestöngin brotnaði. Af fenginni reynslu veit ég að ég mun ekki fá Sagestöngina úr viðgerð fyrr en veiðitímabilinu er að ljúka. Ég er svo sem ekki í vandræðum því ég get veitt með fimmunni minni og síðan á ég þyngri varastöng sem má nota í harðindum þegar vindur hamlar köstum með fimmunni.
Það var ekkert annað fyrir mig að gera en að rölta til baka í bílinn og sækja aðra kaststöng. Prófaði síðan að veiða suðvesturhornið á vatninu. Þar setti ég í ágæta bleikju. Þegar ég er kominn með háfinn í hendurnar og ekkert er eftir nema að landa þá skyndilega losnar úr fiskinum og spinnerinn skýst upp úr vatninu og endar í hökunni á mér og þar hékk hann en fiskurinn synti sína leið. Ég losaði því öngulinn úr hökunni á sjálfum mér en ekki fiskinum og hélt áfram veiðum. Við urðum ekki vör eftir þetta og héldum fljótlega heim í hús.





Comments