top of page

Sporðöldulón 12. júlí 2014

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 13, 2014
  • 2 min read

Betri er lítill fiskur en tómur diskur.


Þegar fiskarnir eru smáir en snjallt að rétta þá að myndavélinni svo þeir sýnist stærri.

Þau standa þarna fjögur í röð lónin á Holtamannaafrétti. Frá suðaustri til norðvesturs eru þetta Krókslón, Hrauneyjalón, Sporðöldulón og Sultartangalón.


Það nýjasta er Sporðöldulón en það var byrjað að safna í það sumarið 2013. Tungnaá rennur úr Sporðöldulóni og Kaldakvísl í það. Það eru staðbundnir stofnar bleikju og urriða í bæði Tungnaá og Köldukvísl en þegar Sporðöldulón var myndað breyttust aðstæður með þeim hætti að ekki er lengur um ármót Köldukvíslar og Tungnaár að ræða því ármótin voru nokkurn vegin þar sem stíflan sem myndar lónið er nú. Þetta hlýtur að hafa heilmikil áhrif á fiskistofnana þarna en nánar má lesa um það í skýrslu Veiðimálastofnunar. Það segir sig nokkuð sjálft að einhver silungur hlýtur að vera í Sporðöldulóni þar sem Tungnaá fellur úr því að sunnanverðu og Kaldakvísl í það að norðanverðu.


Veiðifélagið Betri er lítill fiskur en tómur diskur ákvað að láta reyna á þetta laugardaginn 12. júlí 2014. Veðrið var ágætt, um 12 gráðu hiti, þurrt og lítill vindur. Við ókum inn í norðurenda lónsins þar sem Kaldakvísl rennur í lónið. Okkur þótti líklegast að finna fisk þarna inni í botni ef einhver fiskur fyndist yfir höfuð í lóninu. Þar hittum við leigutakann af Köldukvísl sem upplýsti okkur um að þeir sem veiða í lóninu hafa ekki heimild til að veiða í skilunum sem myndast þar sem Kaldakvísl fellur í lónið. Samkvæmt því sem hann sagði okkur töpuðust 90% veiðistaða í Köldukvísl þegar lónið var myndað. Það kallar væntanlega á heilmikla veiðistaðagerð ofar í ánni.


Við Guðrún við Tungnárfarveg. Fjallið í fjarskanum hægra megin er væntanlega Búrfell.

Þá er það spurningin hvort það hafi verið þess virði að gera þessa tilraun? Nei, það er varla hægt að segja það. Á þessum hálfa degi hlupu aðeins tveir urriðar á snærið hjá eiginkonunni, annar tók makríl og hinn maðk. Af þeim fimm veiðimönnum sem reyndu að veiða var hún sú eina sem varð eitthvað vör. Að þessari veiðiferð lokinni spyr maður sig hvort ekki sé of snemmt að selja leyfi í þetta nýja lón.


Horft inn að farvegi Tungnaár í austurátt. Brúin hægra megin er gamla ferjubrúin.

Comments


bottom of page