Streets of London
- Þorkell Daníel Jónsson
- Mar 13, 2020
- 2 min read
Updated: Aug 5, 2023
Lag og texti: Ralph McTell

Þegar ég var að byrja að læra að spila á gítar keypti ég gítarkennslubókina The Complete Guitar Player, Book 4. Samkvæmt bókinni átti ég bara að vera orðinn nokkuð frambærilegur gítaleikari eftir að hafa spilað mig í gegnum hana. Jæja ég get nú ekki sagt að bókin hafi staðið undir þeirri fullyrðingu því ég var ennþá mjög svo stirðbusalegur spilari þótt ég hafi þrælað mér í gegnum lögin í bókinni. Eitt af þessum lögum var lagið Streets of London eftir Ralph McTell. Mörgum árum seinna þegar ég og nokkrir vinnufélagar áttum að koma með atriði á jólaskemmtun starfsmanna mundi ég eftir þessu ágæta lagi. Það passaði svo ljómandi vel við texta ljóðsins Tindátarnir eftir Stein Steinarr. Við ákváðum að flytja ljóðið með stuðningi þessa lags. Ég skrifaði upp einfalda útsetningu af laginu og hér er hún. Þér er velkomið að sækja útsetninguna ef þig langar til að spila hana.
Hann samdi lagið árið 1967 og hafði hugsað sér að setja það á fyrstu plötuna sína, Eight Frames a Second, en hætti við það vegna þess hve niðurdrepandi texti lagsins er. Fyrsta upptakan af laginu er frá árinu 1969 en McTell tók lagið upp fyrir aðra plötu sína, Spiral Staircase. Árið 1970 kemur út smáskífa með laginu og lagið varð hrikalega vinsælt. Á tímabili voru að seljast yfir 90.000 eintök á dag. Yfir 200 listamenn hafa spreytt sig á því. Þar á meðal listamenn eins og Bert Jansch, Sinead O´Connor, Cliff Richard og Roger Wittager. Fimmtíu árum eftir að McTell samdi lagið gerði hann aðra upptöku af því með Annie Lennox og Crisis kórnum. Hægt er að heyra þá upptöku hér.
Í texta lagsins dregur McTell upp myndir af lífi heimilislausra á götum London. Þessar myndir hafa eflaust teiknast upp í huga hans á meðan hann stundaði götuspilamennsku um alla evrópu. Það var reyndar svo að textinn átti upphaflega að fjalla um götufólkið í París því þar hafði McTell spilað mikið. Þegar hann uppgötvaði að það var þá þegar til lag sem hét Poor People of Paris sneri hann textanum upp á London. Textinn getur að sjálfsögðu allt eins átt við um lífið á götum þeirrar borgar.
Comments