top of page

Laxárvatn í Dölum 5. júní 2022

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • May 1, 2022
  • 2 min read

Updated: Jun 7, 2022

Nú er ég kominn á betri bíl


Hvítasunnudagur og búinn að negla áfellu á þakskeggið á nýja smíðaskúrnum, setja upp þrjá skápa í skúrnum, endurraða verkfærum og geymsludóti og grunnfúaverja glugga og hurðir. Nú gat karl með góðri samvisku farið að leika sér. Í fyrsta sinn þetta sumar var veiðidótið tekið fram. Langaði dálítið að fara í Gullhamarsvatn á Hólmavatnsheiðinni en það verður að bíða betri tíma því heiðin er enn of blaut. Ákvað þar af leiðandi í staðinn að fara í Laxárvatn.


Suðurbakki vatnins er beint niður af þjóðveginum.

Ég þekki Laxárvatn lítið en er samt ekki algerlega ókunnur því. Fyrir þrjátíu árum síðan átti ég forláta BMW. Hljómar betur en það var því þetta var gömul fjögurra gíra Harlem útgáfa af BMW. Á þessum bíl ókum við Halli tengdapabbi yfir Laxárdalsheiðina til að veiða í Laxárvatni. Við gengum þessa fimmhundruð metra niður að vatninu og þar sat Halli Reynis heitinn, tónlistarmaður og síðar tónmenntakennari á bakkanum. Við að sjálfsögðu tókum hann tali. Hann sagðist oft veiða í þessu vatni og sagði að úr því mætti fá ágætis urriða. Ekki varð þessi veiðiferð í vatnið mér minnisstæð fyrir aflabrögð því engan veittum við fiskinn. Hún er öllu minnisstæðari fyrir bílaraunirnar því Laxárdalsheiðin reyndist dempurum bílsins ofviða. Báðir framdempararnir gáfu sig og heimferðin var líkust siglingu mót öldunni í stórviðri.


Fyrsti fiskur sumarsins.

Núna þrjátíu árum síðar er ég orðin betur akandi og minn nýi fjallabíll skilaði mér klakklaust fram og til baka. Laxárvatn er ekki stórt vatn. Einungis hálfur ferkílómeter. Í vatninu er urriði, eitt til þrjú pund. Ég er búinn að kasta flugunni í um það bil klukkustund þegar eins og hálfs punda urriði tekur appelsínugulan Nobbler. Þetta var rétt vestan við miðjan suðurbakkann. Lengi vel gerist ekki neitt þrátt fyrir að ég reyndi að skipta um flugur og prófa hálfsökkvandi línu einnig. Þá gekk ég yfir á austurbakkann, skipti aftur yfir í flotlínu og setti afskaplega fallega púpueftirlíkingu undir. Hvers nafn ég hef ekki hugmynd um. Á þessa fallegu púpu fékk ég síðan rúmlega tveggja punda urriða.


Þarna rennur á út í vatnið og út af henni fékkst seinni fiskurinn. Ég hóf veiðina í níu gráðu hita og vindur blés frá suðvestri. Þegar ég lauk veiðum um miðnættið hafði vindinn lægt mikið og miðnætursólin skein á fjöllin.



Hvað skyldi nú þessi ágæta fluga heita?

Comments


bottom of page