Þingvallavatn 16. júlí 2018
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 17, 2018
- 2 min read
Öfundsýki og háfurinn gleymdist

Ég stóð á bakkanum norðan við Arnarfellið eldsnemma á mánudagsmorgni. Það var örlítil norðanandvari og ekkert sérstaklega hlýtt. Andvarinn var ekki meiri en svo að það var dálítil fluga. Þarna var ég búinn að berja vatnið með ýmsum flugum í einar tvær klukkustundir þegar ég heyri varúðarkall himbrimans. Það sem olli áhyggjum himbrimans var hundur sem kom hlaupandi eftir bakkanum. Í kjölfar hans fylgdu þrír menn sem slógu upp tjaldi og hófu veiðar. Þeir voru ekki búnir að vera lengi að þegar einn þeirra hrópar upp. Ég sé að fiskur hefur hlaupið á snærið hjá honum. Ég viðurkenni að ég fylltist öfund og hugsaði: „Æi, nei! Ég trúi þessu nú ekki. Á ég aftur að horfa upp á aðra veiða en fá ekkert sjálfur?“ Venjulega kætist ég bara með þeim sem setja í fisk en ég lenti nefnilega í þessu tveimur dögum áður. Fór fisklaus heim en aðrir fengu fisk. Það hefur greinilega vakið upp vantrú á hæfni mína sem veiðimanns. Um hálftíuleitið næ ég þó jafnvægi að nýju þegar 1,1 kg kuðungableikja tók fluguna Friskó. Friskó hékk í 2 feta taumi sem hnýttur var á hálfsökkvandi línu. Skömmu síðar skipti ég yfir í hefðbundinn búnað sem er flotlína með 15 – 18 feta taumi. Hnýtti fluguna Watson Fancy með kúluhaus á tauminn. Hana tók 0,8 kg bleikja.

Um hálftólfleitið var ég farinn að huga að heimferð. Ákvað samt að prófa álitlegan stað örlítið sunnar á bakkanum. Þarna hafði ég nefnilega séð menn tveimur dögum áður uppveðrast mjög yfir einhverjum fiskum sem þeir sáu. Þarna er frekar önugt til athafna, botninn grýttur og takmarkað pláss fyrir bakköstin. Ég kom þó fluginni sem nú var komin undir ágætlega út, Killer með kúluhaus og rauðum kraga. Eftir þrjú köst tók 1,6 kg bleikja og nokkrum köstum síðar tók önnur sem reyndist 1,2 kg þegar hún var á land komin. Þriðja bleikjan tók einnig Killerinn en hún slapp eftir að hafa togast á við mig um stund.
Ég tel mig nokkuð góðan að hafa einungis misst eina af þeim bleikjum sem tóku því ég varð að vaða með þær allar í land og sporðtaka því háfurinn gleymdist í bílnum.
Comments