top of page

Þingvallavatn 27. maí 2014

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • May 27, 2014
  • 1 min read

Silungurinn tekur á þriðjudögum.


ree

Silungurinn tekur út af Lambhagatá á þriðjudögum hugsaði ég á þriðjudaginn var þar sem ég ók yfir Mosfellsheiðina í átt að Þingvöllum. Þessi fullkomlega órökrétta hugsun sótti á mig í kjölfar hugsunar um öll þau ráð sem ekki hafa gagnast mér um hvernig skuli bera sig að við veiðar í Þingvallavatni.


Þegar ég kem á fyrirhugaðan veiðistað minntist ég þess að hafa lesið að þarna skyldi vaða út af tánni og kasta í átt að svæðinu þar sem bústaður Bjarna Benediktssonar stóð áður en hann brann. Þetta gerði ég og í þriðja kasti setti ég í fallega bleikju. Hélt í fyrstu að þetta væri urriði því hún var ansi öflug en bleikja var það. Ég gleymdi háfinum heima þannig að ég reyndi að dröslast með bleikjuna að landi en skömmin slapp á endanum.


Á meðan ég var að kasta flugunni á svæðið út af Lambhagatánni voru stokkandar- og toppandarpör að snöfla meðfram bakkanum fyrir aftan mig. Greinilega vön veiðmönnum því fuglarnir létu aðfarir mínar ekki trufla sig. Eftir um það bil hálftíma tók önnur bleikja og þessari náði ég að landa. Þetta reyndist ágætis bleikja, um það bil tvö pund. Skömmu síðar tók þriðja bleikjan en hún slapp eins og sú fyrsta.


Á leiðinni til baka lenti ég í einhverjum flækjufót og flaug á hausinn í grjótið með miklum bravúr og braut toppinn af veiðistönginni. Ég er samt ekki frá því að ég láti reyna á þetta með þriðjudagana og fari aftur út á Lambhagatá næsta þriðjudag.


ree

Comments


bottom of page