Þingvallavatn 29. júní 2020
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jun 30, 2020
- 1 min read
Þvílíkt veður!

Eldsnemma á mánudagsmorgni reif ég mig upp úr bælinu, greip nestið og lagði í hann austur á Þingvelli. Í leiðinni pikkaði ég félaga minn upp og saman ætluðum við að veiða í Ólafsdrætti í blíðviðrinu sem spáin sagði að ætti að vera þennan dag. Það leit svo sannarlega vel út með veðrið því þarna klukkan hálf sex um morguninn var 14 gráðu hiti á mælinum í bílnum. Á heitasta tímanum fór hitinn örugglega vel yfir 20 gráðurnar.
Eins og venjulega var maður bjartsýnn með veiðina. Í svipuðu veðri í fyrrasumar gerði ég einmitt bestu veiði sumarsins í Þingvallavatni. Reyndar ekki í Ólafsdrættinum heldur sunnan megin við Arnarfellið. Að þessu sinni var veiðigyðjan ekki með okkur í för því við urðum lítið varir við bleikjuna. Félagi minn náði einni sem var frekar smá og einni murtu og þá er allt talið. Venjulega þá heldur silungurinn í Þingvallavatni sig niður við botninn og sýnir sig lítið á yfirborðinu. Í þessari ferð urðum við öðru hvoru varir við hreyfingu á yfirborðinu og heyrðum öðru hvoru skvamp. Það var greinilega fiskur þarna og sennilega var þetta urriðinn sem við urðum varir við.
Comments