Þingvallavatn 29. júní 2022
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jun 30, 2022
- 1 min read
Updated: Jul 4, 2022
Er urriðinn að yfirtaka Þingvallavatn?

Manni finnst meira verða úr sumrinu ef maður nýtir tímann frá því að vinnu lýkur til kvölds til útiveru. Mér finnst til dæmis kjörið að skjótast austur í Þingvallavatn eftir vinnu og veiða til kvölds. Þetta gerði ég á miðvikudaginn og ók af stað úr bænum í björtu veðri og kyrru. Á Þingvöllum var heldur þyngra yfir en þó var veðrið mjög gott. Skýjað og suðvestan gola. Ég lagði bílnum í litla stæðið ofan við veiðisvæðið sem er á milli Hlíðarkróks og Ólafsdráttar. Dröslaðist síðan með ærinni fyrirhöfn niður grjótin og í gegnum kjarrið þar til komið var að vatninu. Setti léttu græjurnar mínar saman og veiddi síðan meðfram bakkanum fram og til baka.
Ég varð í tvígang var þannig að ég var nokkuð viss um að það væri fiskur á svæðinu. Engan fékk ég þó tökuna fyrr en ég hnýtti Marfló á tauminn og kastaði í átt að Búrfelli. Þá fékk ég öfluga töku. Ég fann strax að þessi fiskur var heldur öflugri en aðrir sem ég hafði fengið í vatninu. Hann hreinsaði sig tvisvar upp úr vatninu og ég gat ekki betur séð en að þetta væri urriði.
Það reyndist rétt því á land kom fjögurra punda urrið. Nú spyr ég hvort eitthvað sé að breytast í Þingvallavatni? Í þeim tveim veiðiferðum sem ég hef farið í vatnið í ár hafa fjórir silungar komið á land. Þrír þeirra hafa verið urriðar og aðeins einn var kuðungableikja. Getur verið að urriðastofnin sé að styrkjast verulega og þá á kostnað bleikjunnar?


Comments