Þingvallavatn 4. júlí 2021
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 4, 2021
- 2 min read
Sjóbirtingur í Þingvallavatni?

Föstudagurinn og laugardagurinn höfðu verið sólríkir og heitir. Dagar eins og þeir gerast bestir í íslensku sumri. Á sunnudeginum tók ég daginn snemma. Reif mig upp klukkan hálf sex og dreif mig í Þingvallavatn. Það var dimm þoka á Mosfellsheiðinni. Örlítið léttara yfir var við vatnið en skyggni var samt lítið en logn og hlýtt.
Ég byrjaði veiðar um sjöleitið við steininn á austurbakkanum út af sprungunni undan Arnarfellinu. Þar er oft fiskur og þægilegt að athafna sig við köstin. Ég varð ekkert var en þarna var samt einhver fiskur því í tvígang sá ég og heyrði skvettur á yfirborðinu. Einu sinni synti falleg kuðungableikja framhjá mér. Eftir að hafa veitt þarna í tvo og hálfan tíma færði ég mig á næsta líklegan stað.
Til að finna næsta líklegan stað þarf að ganga aðeins eftir austurbakkanum í átt að Miðfelli þar til komið er að næsta steini. Staðurinn þykir mér líklegur því grjótgarður við bakkann og annar grótgarður úti í vatninu mynda geil eða krubbu sem silungurinn leitar inn í. Krubban byrjar við stein ofan við bakkann og lengd hennar er um það bil 120 skref. Þar sem hún byrjar er hún 15 – 20 metra breið og í enda hennar er hún 3 – 4 metrar. Það er dálítið önugt að feta sig eftir botninum þarna vegna þess hversu grýttur hann er. Það er kjörið að vaða eftir grjótgarðinum fjær landi og kasta flugunni inn í krubbuna. Það má einnig prufa að kasta út fyrir grjótgarðinn fjær landinu því silungurinn gæti allt eins verið að leita að æti í grjótinu þar eins og inni í krubbunni.
Vegna lognsins sá maður vel hvernig botninn lá og hvort einhver fiskur var í krubbunni. Öðru hvoru syntu bleikjur að bakkanum og snudduðu í grjótinu. Þrátt fyrir að hafa mikið reynt fékk ég ekki eina einustu töku. Tíminn var að nálgast hádegi þannig að ég ákvað að halda heim. Ætlaði að kasta nokkrum sinnum á staðnum sem ég byrjaði á áður.

Ég kastaði black zulu flugu í átt að bakkanum undir Arnarfellinu og silungur tók. Ég sá strax að þetta var ekki kuðungableikja því fiskurinn byrjaði á því að skvetta sér upp úr vatninu. Hann var alveg silfraður eins og nýgenginn sjóbirtingur. Á land kom fiskurinn og reyndist þetta vera eins og hálfs punda urriði. Hann hefði nú mátt vera stærri. Skömmu síðar fékk ég aðra töku á black zulu en í þetta sinn kastaði ég í átt að Sandey. Sá fiskur slapp og ég hélt heim á leið.
Comments