top of page

Brautarlækjarannáll 2008

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Oct 30, 2008
  • 4 min read

Borholan tengd 11. - 12. maí 2008


ree

Svilarnir þrír dvöldu þessa tvo daga í Brautarlæk til að tengja nýju borholuna við lagnir inn í hús. Þrátt fyrir mikla efnisöflun fyrir sunnan þá þurfti samt að sækja efni bæði í Borgarnes og Hvamm. Á endanum hafðist verkið og dælan og holan skila góðu rennsli. Vatnið er gruggugt sem er svo sem ekki óeðlilegt en þrátt fyrir að hafa látið renna um stund er það ódrekkandi. Við höldum í vonina um að holan nái að hreinsa sig almennilega með notkun.


Svona var staðan í Brautarlæk áttunda apríl þegar við litum við þá. Vorum í bústað í Munaðarnesi og fórum í eftirlitsferð upp í dal.


Járnbragð af vatninu 23. - 25. maí 2008


ree

Skáparnir samsettir og bíða uppsetningar.


Því miður þá virðist borholuæfintýrið okkar ekki hafa heppnast. Við fáum nóg af vatni en það er ónothæft í nánast allt. Við létum renna úr holunni í sex klukkustundir samfellt en þrátt fyrir það var rosalegt járnbragð af vatninu. Þetta er greinilega bara mýrarvatn sem við erum að fá. Þegar við suðum vatnið varð það alveg ryðrautt og mikil rauðamýrarfýla af því. Vatnið litaði postulínsvaskinn á baðherberginu ryðrauðan og klósettið einnig. Það er sem sagt ekki einu sinni hægt að nota vatnið til að sturta niður. Þetta eru mikil vonbrigði og fjárfesting sem fór út um gluggann því þetta var dýrt.


Komum með skápa í eldhúsinnréttingu og skrúfuðum þá saman. Bárum áburð á plönturnar. Geitungar, smáfuglar og krían komin á kreik. Það er glettilega hlýtt þegar sólin skín, 15 gráður. Dísa og co komu til skrafs og ráðagerða og Baldur, Edda, Stefanía og Árni komu við á leið sinni norður á Hvammstanga.


Aspaklónun 5. - 6. júlí. 2008


ree

ree

Höfðum verið í veiði í Bakkaá og Gríshólsá og ákváðum að gista eina nótt í Brautarlæk enda veðrið hrikalega gott. Klipptum sprota af öspunum til að láta þá ræta sig ætlum síðan að setja þær niður síðar í sumar. Mokuðum skít og mold í skurðinn sem er ætlaður fyrir aspirnar. Vökvuðum sumarblómin. Rollur sem sluppu inn fyrir girðingu höfðu gætt sér á einni tegund en sleppt hinum. Síðustu málin tekin til að klára uppsetningu á eldhúsinnréttingunni.


Áframhaldandi borholuraunir 17. - 22. júlí 2008


ree

ree

Síðasta smiðshöggið í innréttingauppsetningunni var rekið. Ákváðum að gera eina tilraun enn til að hreinsa járnbragðið úr vatninu sem er í borholunni. Ætluðum að stilla saman rennsli vatns úr holunni og rennslið í holuna og láta dæla stanslaust. Nú bar svo við að rennslið í holuna var sáralítið þannig að þega jafnvægi á rennsli í og úr holu var náð rétt seitlaði út í læk. Gerðum eftirfarandi tilraun. Dældum með fullum afköstum dælunnar úr holunni niður á tíu metra og tókum tímann á hversu lengi holan var að fylla sig aftur. Það tók dæluna tvær mínútur að lækka yfirborðið niður á tíu metra og það tók holuna um það bil eina og hálfa klukkustund að fylla sig að þremur metrum. Sambærilegar tölur í vor voru að fjórar mínútur tók að tæma holuna og sex til tíu mínútur tók holuna að fylla sig. Þá var 1,6 metrar niður á yfirborðið. Þetta gera þurrkarnir undanfarið. Annars eru góð ráð dýr núna því við erum greinilega í vondum málum með þessa holu.


Héldum áfram við að fylla hyldjúpan aspaskurðinn. Ég fór yfir í Knarrarhöfn til að vinna í múrverki en Dísa, Inga Dís og Arnór voru með Guðrúnu, Lilju og Hörpu yfir helgina í Brautarlæk. Þau fengu mjög svo sólríka og góða daga þannig að litlu krakkarnir gátu svo sannarlega notið þess að velta sér um í buslpottinum. Rabbabarinn var stunginn upp og tilraun gerð með að hressa hann við með skítagjöf.


Við fórum síðan að hitta Sigurð Má frá Veiðimálastofnun en við höfðum keypt rannsókn á ánum hjá þeim. Eigum veiðidaga í framhaldi af því og munum koma aftur þegar þeim er lokið.

Ýmislegt stúss 25 - 28. júlí 2008


ree

Þessa helgina var öspunum plantað í ytra túnstykkið meðfram vegi. Binni, Hanna og Halli litli komu við á leið á ættarmót á Hellisandi. Við skelltum okkur í Tangavatn og Harpa náði einni mjög smárri bleikju.


Erum enn að brasa við holuna. Núna fengum við það ráð hjá Íslenskum orkurannsóknum að prófa að setja klór í holuna því það séu örverur sem gera járnbragðið og klór drepur þær. Þetta breytti engu. Blettuðum járnaklæðninguna á bústaðnum, bárum á garðbekk og gluggar við pall málaðir.

Borholan fullreynd 9. - 10. ágúst 2008

Við verðum víst að sætta okkur við að okkur muni ekki takast að losna við járnbragðið úr vatninu í borholunni. Hún telst því vera fullreynd. Tókum að gamni kvikmynd ofan í holunni og þá kom í ljós að vatn fossar inn í hana undan fóðringunni. Dekkið á pallinum var málað.


Háfætt og langleit forystukind 16. - 17. ágúst 2008


ree

Ókum nýjuan vegslóða upp að gsm sendi á Sýrdalsborgum. Brutum berjatínslulögin þegar við tíndum aðalbláber í ágætu berjalandi sem þarna er. Á leið upp slóðann rákumst við á forystukind eina langleita og háfætta. Hún gerði sig líklega til árásar á Landróverinn og áttum við hestöflunum undir húddinu fjöri að fagna. Hittum Adda frá Sigmundarstöðum uppi á Sýrdalsborgum. Hann bar fyrir kveðju til Halla og minntist fjárleita forðum daga.


Síðar þennan dag var ekið og gengið að heiðarvatninu. Þurrt sumarið veldur því að það er ákaflega lítið vatn í því og hrygningarlækurinn rennur eiginlega ekki. Í ljósaskiptunum náðust tveir urriðar á svartan Toby og einn á straumflugu. Eitt, tvö og þrjú pund.


Ekki má vera kærulaus 24. - 26. október 2008


ree

Náttúran hefur kennt okkur þessa helgina að hún hefur betur sé maður kærulaus í baráttunni við hana. Í Brautarlæk var húsið fullt af músum þegar við komum á föstudeginum. Þær höfðu blessaðar gert sér hreiður þar sem notalegast er að vera. Í hjónarúmunum. Helginni var eðli málsins samkvæmt varið í alsherjar hreinsunarstarf og músaveiðar. Við teljum okkur hafa tekist að músahreinsa húsið og loka fyrir inngönguleiðina. Sjö hagamýs lágu í valnum. Mýs eru skaðræðisskepnur því þær geta valdið miklum skemmdum með nagi sínu. Þeim tókst að skemma þrjár sængur, þrjá kodda og eitthvað af rúmfötum. Kork naga þær af áfergju þannig að allir inniskór með korkbotni voru ónýtir, handfangið á gömlu veiðistönginni var einnig nagað og hitahlífar undir eldhúspottana.


Sáum einmana þröst og snjótittling en annars var lítil hreifing. Losuðum vatnslögnina við bakkann þar sem hún fer í jörð. Við stífluna er kominn mannhæðarhár snjór en við gátum grafið niður á lögnina og náðum síunni af. Það hefur frosið í allri lögninni. Í vor kemur í ljós hvort hún þolir það. Hér var 2. til 5 gráðu frost.



Comments


bottom of page