Brautarlækjarannáll 2009
- Þorkell Daníel Jónsson
- Oct 5, 2009
- 4 min read
Updated: Apr 17, 2023
Tófa á hlaupum og lúpínusláttur 17. - 19. júlí 2009

Þann sautjánda júlí komum Við Guðrún með Hörpu og Lilju í Brautarlæk. Sigurbjörg, Dísa og Ingþór, Inga Dís og Arnór komu einnig Brautarlæk. Karlarnir héldu síðan áfram yfir í Knarrarhöfn í múrvinnu. Konur og börn urðu eftir í Brautarlæk og fundu sér ýmislegt til dundurs. Veðrið gaf tilefni til útiveru og busls í busllauginni því hiti var sautján til nítján gráður. Mældist alveg upp í þrátíu gráður í skjólinu á pallinum.

Það er alltaf gott að hafa markmið og eitt af markmiðum okkar Guðrúnar er að útrýma lúpínunni á hólnum. Hún er búin að gera sitt gagn en núna er hún farin að dreifa sér út í móann og yfir lyngið. Það viljum við ekki sjá og slógum við því alla lúpínuna á hólnum þegar ég kom til baka úr múrvinnunni. Okkur skilst að það sé ekkert auðhlaupið að vinna bug á þessari duglegu plöntu. Best er að slá hana áður en hún ber fræ og rétt er að við séum viðbúin því að þurfa að slá oft áður en sigur vinnst.
Fórum í sund að Kleppjárnsreykjum og ókum Grjóthálsinn sem nú er fólksbílafær. Það má þakka Helgavatnsbóndanum og öðrum bónda sem tóku sig saman þegar Vegagerðin vildi ekkert fyrir veginn gera og keyptu verktaka til að lagfæra veginn. Þess vegna er vegurinn fólksbílafær nú.
Vatnið í læknum er komið í sögulegt lágmark og ætli við verðum ekki bara vatnslaus ef ekki fer að rigna í bráð. Við ókum með Sigurbjörgu á Landróvernum upp að Fiskivatni. Á leiðinni rákumst við á tófugrey sem var undrandi á þessari truflun. Sigurbjörg hafði á orði að þessi sýn minnti hana á Halla sem er ekki að undra því hann felldi marga tófuna á þessu svæði í gamla daga þegar búskapur var í Króki.
Áin er blá af laxi 2. - 28. ágúst 2009

Vorum í Brautarlæk frá sunnudegi til laugardags og loks fór Brautarlækurinn að renna á ný. Það gerðist samt ekki fyrr en á föstudeginum. Á fimmtudeginum fór að rigna en rigningin varð ekki nóg til að hún hreyfði við læknum fyrr en á föstudeginum. Hitin hefur verið í kringum fjórtán gráðurnar að degi til en fellur niður í tíu gráður yfir nóttina.

Settumst inn í kaffi til Gunnars og Erlu í Króki og áttum spjall um vatns- og veiðimál. Gunnar lét breyta farvegi Norðurár í vor þannig að nú rennur hún í gamla farveginum. Þetta hefur skilað fjórum nýjum veiðistöðum í Krókslandi. Áin er orðin blá af laxi eins og Dóri Nikk sagði gjarnan þegar vel veiddist í Norðurá. Á göngu meðfram ánni urðum við vör við Lax í Laxalág, Ferjuhyl og í strengnum ofan við Einstaka klett. Við sáum meira að segja fisk neðan við klettinn og það gerist ekki oft.
Klipptum víðinn í kringum blágrenið við húsið og ókum inn í Sanddal og fengum okkur göngu inn í Illagil. Fórum til veiða í Heiðarvatninu. Þar náðist einn tveggja punda urriði sunnan við Réttartangann.
Ættarmót 15. - 16. ágúst 2009

Upp kom sú hugmynd að setja upp lítið ættarmót í Brautarlæk og það var gert þessa helgina. Þá komu niðjar Arndísar og Brynjólfs, afa og ömmu Guðrúnar. Þau hófu búskap í Króki árið 1917 og ólu börnin sín fimm upp þar. Veðrið var betra en best.
Sumargesturinn kveður og berjatínsla 21. - 23. ágúst 2009

Fallegi sumargesturinn okkar, maríuerlan kvaddi okkur í vikunni og hélt á aðrar slóðir. Heimsókn hennar hefur einungis einn tilgang og sá tilgangur er að koma ungum sínum á legg. Sennilega hefur henni tekist það í sumar. Á laugardeginum var farið upp að Fiskivatni til að tína ber. Fallegt var veðrið en það var kalt. Krakarnir höfðu heilmikið gaman að því að fleyta kerlingar á vatninu enda lítil gára á því.
Þrjátíu tegundir af kartöflum 4. - 6. september 2009

Veðrið var mjög milt yfir helgina. Logn á föstudag og laugardag og andvari á sunnudag. Það gerðu skúrir öðru hvoru. Hiti 4 – 14 gráður. Hentum leyfunum af gamla eldhúsborðinu. Hittum Gumma Daníels þar sem hann var í óða önn að taka upp þrjátíu tegindur af kartöflum. Vinkona Lilju, Stefanía Svala var með í för og Harpa einnig.
Smölun 18. - 20. september 2009
Nú er komið að smalahelginni enn eitt árið. Ég fór ásamt Dísu og Ingþóri yfir í Hvamm og gisti þar til að vera klár í leitina á laugardagsmorgni. Guðrún, Harpa, Sigurbjörg, Lilja, Inga Dís og Arnór fóru síðan í Hvamm á laugardag og hjálpuðu Sveini í fyrirstöðunni og síðan fylgdust þau með rekstrinum niður í Skerðingsstaðarétt.
Enn er hægt að finna nothæf ber. Greinilega hefur ekki komið næturfrost enn. Af einhverjum ástæðum eru meiri haustlitir á birkinu í Hvammsmúlanum hérna megin við ána. Gengum ekki frá því við stefnum að því að koma eina ferð til viðbótar á þessu hausti.

Þessi ferð átti að vera síðast ferð í Brautarlæk þetta haustið þannig að við gengum frá fyrir veturinn. Snjór er sestur í fjöll og hitinn var frá einni gráðu niður í mínus sex. Fundum músaholu við hliðina á frárennslinu frá eldhúsinu. Ég fór í seinni leitina í Dölunum á laugardeginum. Á sunnudagsmorninum gekk ég upp á Fiskivatnsborgirnar til að taka ljósmyndir.











Comments