top of page

Brautarlækjarannáll 2011

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Nov 1, 2011
  • 4 min read

Farfuglarnir eru mættir 19. - 22. apríl 2011


ree
Músarindill að spóka sig á pallinum.

Þegar við komum í Brautarlæk var snjór yfir öllu og þegar við fórum var auð jörð enda hefur rignt af krafti. Ingþór og Dísa komu á miðvikudagskvöldinu með sjónvarp og sólbekki. Inga Dís hafði verið með okkur en hún fór yfir í Dalina. Sigurbjörg kom í staðinn og var með okkur fram á föstudag. Það var frekar gestkvæmt í þessari ferð því Imba, Kristján, Haraldur Sindri og Þröstur komu við á leið sinni norður og það gerður Steingrímur og Jeany einnig. Siggi og Kristbjörg litu við en þau voru á leið suður og það gerður Baldur, Edda, Stefanía og Árni líka og voru á leið norður.

ree
Þröstur á nýklipptum runnunum norðaustan við húsið.

Þetta voru fyrstu gistinæturnar þetta árið en við Guðrún höfðum komið við níunda apríl til að mæla þakskeggið vegna timburkaupa. Vorum í BSRB bústað niðri í Munaðarnesi. Í þessari ferð klipptum við runnana neðan við húsið og einnig neðan af öspunum. Tókum fjörutíu viðarstiklinga og létum þá ræta sig. Harpa hefur reynt að nota dagana til að læra fyrir prófin sem byrja eftir páska og ég reyndi að nýta tíman til að skrifa eitthvað í meistaraprófsritgerðinni minni.


Vatnið var gruggugt enda hefur það ekkert verið notað í vetur en eftir sex klukkustunda dælingu út í læk var það orðið tært og gott. Fuglarnir hafa glatt okkur því þeir eru komnir. Þröstur og músarrindill hafa verið á vappinu í kringum okkur og hrafnahjón eru með hreiður í nágrenninu. Töluvert höfum við séð af álftum.



Gróðursetning 24. - 26. júní 2011


ree

Helginni var varið í gróðursetningu. Birkiplöntur sem voru settar niður í fyrra voru vökvaðar og illgreisi reitt frá þeim. Um það bil 35 bergfurur voru gróðursettar og svipað magn af sitkabastarði einnig. Allt voru þetta bakkaplöntur. Bergfuran er ein af undirtegundum fjallafuru og verður 25 metra hátt tré, einstofna og er harðger. Bergfuran er þéttari en stafafuran sem virðist pluma sig vel á þessu harðbýla svæði. Sitkabastarðurinn er ekki síður harðgert tré og hefur kosti beggja.


Stefán og Hilda ásamt Brynjari vini þeirra litu inn öðru hvoru til að fá verkfæri lánuð. Voru að girða fyrirheitna landið á Hreimstöðum og eiga von á hjólhýsi um næstu helgi. Flugu var kastað í Hreðavatn með litlum árangri. Tvær smáir urriðar komu á land.


Veðrið var ágætt, 7 – 14 gráður, dálítið rok að norðaustan. Örlítið rigndi á laugardag.

Þakskeggið lagfært 25. - 28. júlí 2011


ree

Skiptum um fjöl í þakskeggi að vestanverðu. Nú á aðeins eftir að mála fjölina. Rifum illgresi frá birkinu í hólnum. Guðrún og Lilja voru duglegar í prjónaskapnum. Fórum í heiðarvatnið og lönduðum tveimur ágætum urriðum.

Alaskaöspum plantað 12. - 14. ágúst 2011


ree

Komum seint á föstudagskvöldinu. Fórum að Hvammi í Dölum á laugardeginum og veiddum þrjár punds bleikjur í Hvammsá. Á sunnudeginum var tólf alaskaöspum plantað vestan við læk meðfram girðingunni. Nú er búið að planta alla leið. Aftur rifið frá birkiplöntunum í hólnum og lúpínan slegin.

Berin eru fá og smá 26. - 28. ágúst 2011

Fínt veður á laugardag, 14 gráður, stillt og sól að mestu. Skúrir á sunnudag, vestanátt og 10 gráður. Tíndum bláber. Það er mikið minna af þeim en venjulega. Berin eru fá og smá. Krækiberjasprettan hefur verið enn minni. Sennilega er það kuldinn og þurrkurinn í sumar sem veldur þessu.

Fótbrotinn smali 30. september - 28. ágúst 2011


ree
Lilja fylgist með fénu renna í Þverárrétt.

Brjálað rok á föstudagskvöldi og aðfararnótt laugardags. Mikil rigning og suðvestanátt. Það lak inn um syðri gluggann í stofunni sem snýr í átt að Háreksstöðum.


Ég fór í Hvamm til að smala á laugardeginum. Veðrið var ömurlegt en allir smalar komust til byggða en mis vel á sig komnir. Einn þeirra reyndist fótbrotinn. Aðrir nutu þess að sitja inni í skjóli hússins við að læra, prjóna og lesa. Stefán og Hilda komu til að ganga frá hjólhýsinu á Hreimstöðum. Á sunnudeginum var mikið betra veður.

Ríkmannleg sumarhús 7. - 9. október 2011


ree

Spáin fyrir helgina var slæm en við ákváðum samt að koma í Brautarlæk vegna leka gluggans. Hann varð að gera við. Á laugardeginum viðraði engan vegin til gluggaviðgerða þannig að fyrri hluta dagsins nýttum við til lesturs og náms. Seinni partinn fórum við að skoða Bása, sumarbústaðalandið í landi Svartagils þótt veðrið væri enn leiðinlegt. Á leið okkar niður með ströndinni komum við að hliðinu að nýju húsunum í Skarðshamralandi. Þarna skín ríkidæmif af. Hliðið við veginn jafnast á við hliðið heim að Versölum. Fórum einnig niður að Veiðilæk og skoðuðum höllina sem er verið að byggja þar. Þaðan er útsýnið hreint frábært upp með Norðurá.


Á sunnudag var komið ágætisveður og glugginn í stofunni var tekinn úr falsinu. Falsið var hreinsað og pússað og kíttað upp á nýtt. Töluverður raki var í viðnum en sennilega bjargast þetta.


Til hægri er Veiðilækur en á myndinni til vinstri er Lilja í rokinu við hliðið að Skarðshömrum. Húsið er í baksýn. Húsin eru alltaf kölluð Kínahúsin í Brautarlæk.

Gengið frá fyrir veturinn 28. - 30. október 2011


ree

ree

Komum á föstudagskvöldi. Lært var og leikið á laugardag og sunndag þar til vatni var blásið af húsinu. Muna þarf að loka fyrir klósettkassann því annars næst enginn þrýstingur til að blása út. Grenjandi rigning og rok og hiti um þrjár gráður á laugardegi. Hékk þurrt til hádegis á sunnudeginum.





Comments


bottom of page