Brautarlækjarannáll 2013
- Þorkell Daníel Jónsson
- Nov 3, 2013
- 3 min read
Updated: Apr 9, 2023

Dæla sem gafst upp og bílveikur hundur 14. - 16. júní 2022

Veðrið hefur verið eins og best getur verið. Vindátt hefur mesmegnis staðið að austan en snerist til vestanáttar á sunnudagsmorgninum. Hiti í kringum sautján gráðurnar.
Vatnið úr borholunni var gruggugt en eftir að hafa dælt úr henni yfir heila nótt var það orðið ágætlega tært. Síðdegist gafst dælan upp. Dísa og Ingþór komu við á sunnudeginum og í sameiningu var dælan dregin upp úr holunni. Nú þarf að skoða hvort keypt verður ný dæla eða reynt að lappa upp á þessa.
Ég skrapp til veiða í heiðarvatninu en kom tómhentur heim. Gengum meðfram girðingu og lagfærðum það sem þurfti að lagfæra og mældum fyrir nýjum rúðuglerum í gluggan sem snýr í norðvestur í stofunni.

Hvolpurinn Lappi kom í sína fyrstu ferð í Brautarlæk. Hann virkilega naut frelsins en aksturinn reyndist honum kvöl því hann varð svo bílveikur. Ældi tvisvar á leiðinni. Siggi, Kristbjörg og Binni komu við á leið suður í jarðarför Tedda sem lést fimmtudaginn 13. júní.
Drullumall og kakó 19. - 21. júlí 2013

Það er búið að vera hálfgerð rigningatíð á Íslandi undanfarið þannig að við reiknuðum ekki með neitt sérstöku veðri þessa daga. Borholan er komin í gang aftur og vatnið gott. Settum nýja dælu í holuna helgina 21. – 22. júní. Guðrún, Lilja og Sigrún vinkona hennar voru í Brautarlæk á meðan Keli var vestur í Knarrarhöfn af vinna með Ingþóri og Dísu.
Stelpurnar nutu sín vel og drullumölluðu eins og enginn væri morgundagurinn. Komu síðan í hús þaktar drullu frá toppi til táar Guðrúnu til ánægju. Við tóku mikil þrif, fótabað og kakó.
Þvottavélin stífluð 3. - 5. ágúst 2013

Lilja yngri dóttir okkar var á Siglufirði með vinkonu sinni og hafði verið þar í heila tíu daga. Við hjónin vorum því ein í Brautarlæk með Lappa. Spáin sagði norðanátt með tilheyrandi kulda og hún gekk eftir. Það var samt ágætis veður og fallegt á köflum, jafnvel hægt að sóla sig á pallinum.
Við fórum niður að Hreðavatni í hávaðaroki á laugardagskvöldinu. Þvottavélin stíflaðist og náði ekki að dæla af sér vatninu. Lilju var síðan skilað og hún kom með okkur suður.
Smölun 13. - 15. september 2013
Þessa helgina var verið að smala um allar sveitir. Gerðum okkur lítið ferðalag vestur í Hvamm til að hjálpa til við smölun þar. Ókum Laxárdalsheiðina til baka og fengum allar gerðir af veðri á leiðinni. Dæmigert haustástand í veðrinu. Hiti var tvær til sjö gráður og það snjóaði aðeins á sunnudeginum. Snjóinn festi þó ekki. Baulufjöllin orðin grá. Misgrá þó eftir því hve ofarlega er horft.
Húsinu lokað 1. og 2. nóvember 2013

Við urðum að gera okkur ferð í Brautarlæk því það voru orðin síðustu forvöð að hleypa vatninu af húsinu. Vorum komin í stórhættu með að það frysi í vatnslögnum. Veturinn er nefnilega að læsa miskunnarlausum klóm sínum í allt umhverfið. Ís er nú með bökkum Norðurár og hiti rétt neðan við frostmark. Smávegis vindur en fínasta veður.
Við gengum að gamni inn með Hellisá og rákumst þar á eina tvílemba. Önnur tvílemb horfði stórum augum á okkur ofan af klettunum yfir ánni. Tveir bílar biðu rjúpnaskytta á planinu við gryfjurnar. Gengum síðan frá húsinu og trösluðum brúnni frá læknum til að hún skemmdist ekki í snjófarginu sem þar safnast fyrir að vetri. Að við skyldum nenna því er merkilegt. Við munum varla eftir jafn fáum gistinóttum í Brautarlæk á einu ári.
Comments