top of page

Brautarlækjarannáll 2016

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 22, 2016
  • 3 min read

Updated: Apr 8, 2023

Brautarlækjarannáll 14. - 16. maí 2016



Vorið er komið í framdalinn eins og annars staðar. Við heyrum farfuglana syngja vorsöngva sína og náttúran er rétt að byrja að klæðast sumarskrúðanum. Græn slikja er komiðn á lerkið sem alltaf fer fyrst af stað ásamt öspunum. Brumin á hinu skynsama briki er einnig við það að springa út. Fyrst birkið er komið af stað getum við virkilega farið að treysta því að sumarið er á næsta leiti.

Við smíðuðum kassa undir uppþvottavélina svo eldra fólk og bakveikir þurfi ekki að beygja sig mjög við að setja í hana. Tengdum síðan og prófuðum. Allt virkar rétt. Dældum grugginu úr borholunni í heilan dag út í læk þannig að nú ætti hún að vera hrein.


Lilja vann að heimanáminu sínu. Átti meðal annars að skrifa sögu og notaði sorglegan atburð sem átti sér stað við ána þegar langafi hennar, Brynjólfur, var bóndi í Króki.


Brautarlækjarannáll 27. - 2. maí 2016



Erum aðeins farin að velta fyrir okkur hvernig við getum bætt aðstöðuna í Brautarlæk. Húsið er of lítið fyrir okkur. Aðeins eitt herbergi og frekar lítil stofa. Ein leiðin væri að stækka húsið og endurbæta það. Önnur væri að reyna að einangra það upp á nýtt en breyta eiginlega engu nema færa eldhúsið og útbúa herbergi þar sem eldhúsið er núna. Þetta væri auðvitað ódýrast leiðin svo ég teiknaði þá breytingu.


Fór í Hreðavatn með Haraldri Sindra, systursyni Guðrúnar. Við náðum nokkrum smásilungum á Lambatanganum. Hann var svo óheppinn að stíga á stöngina mína og brjóta hana. Svona gerist.


Brautarlækjarannáll 17. - 19. júní 2016



Komum að kvöldi þjóðhátíðardagsins. Tólf gráðu hiti og nánast logn. Trén eru orðin full laufguð og mófuglarnir á fullu að sinna sínu. Himbrimi flaug yfir um morguninn sem er frekar óvenjulegt. Leiðarlækurinn rennur enn. Rennslið hafði þó minnkað töluvert þegar við fórum í bæinn eftir helgina. Mikil veiði er á neðsta svæðinu í Norðurá en enginn sást laxinn undir brúnni.


Skruppum yfir að Hvammi og heimsóttum Dísu og Ingþór. Farið var heim að Hólum en þar eru bændurnir að reka minni gerðina af húsdýragarði og bjóða ferðamen velkomna. Þar má sjá ketti, grís, geithafur, heimalinga, kalkúna, íslenskar hænur, hunda, önd á eggjum, aliendur, kanínur, naggrísi, silkihænur og hrafnsunga. Þangað var gaman að koma.


Brautarlækjarannáll 22. - 24. júlí 2016



Það er heilmikið framkvæmdastúss í gangi fyrir sunnan en stundum þarf maður aðeins að líta upp úr því. Við Guðrún ákváðum því að dvelja í Brautarlæk yfir helgina. Veðrið var einstaklega hagstætt fyrir gróðurinn. Rigning, logn og hlýtt. Settum eina stafafuru niður í lúpínuhólinn. Þessi fura hefur staðið í potti úti í beði fyrir sunnan og beðið þess í nokkur ár að fara á sinn stað. Hún átti aldreið að fá að vaxa í garðinum fyrir sunnan.


Fórum í grenjandi rigningu í Krókavatn. Köstuðum oft og fallega en enginn var árangurinn.


Brautarlækjarannáll 30. júlí - 1. ágúst 2016



Veðurblíða, sólskin og hiti 15 gráður að degi til en 5 – 8 gráður yfir nóttina. Sigurbjörg var með í för og Imba kom með hjólhýsið til að gista í og lagfæra. Dísa og börn litu við á sunnudeginum og Lilja fór síðan með þeim yfir í Hvamm í Dölum.


Þessa helgi skipti þjóðin um forseta. Guðni tók við af Ólafi Ragnari sem hefur gengt embættinu undanfarin tuttugu ár. Sjáum að fókið í Króki er að dunda sér við að rífa fjárhúsin. Kíkjum öðru hvoru eftir laxi í ánni en höfum ekki séð einn einasta þótt veiðin hafi byrjað ágætlega. Það er lax þótt við sjáum hann ekki.


Brautarlækjarannáll 19. - 21. ágúst 2016



Þetta sumar hefur verið bláberjunum hagstætt. Markmið helgarinnar var að tína ber í stultu til vetrarins. Við náðum að tína eina fimmtán lítra. Sumarið hefur ekki verið krækiberjunum eins hagstætt því minna var af þeim. Stefán, Hilda og Aðalheiður komu einni í húsið og tíndu slatta af berjum einnig.Veður var afskaplega milt og þægilegt til berjatínslu.


Við skruppum á laugardeginum í heiðarvatnið og sáum þrjá menn við vatnið sem létu sig hverfa þegar þeir sáu okkur nálgast. Þarna voru greinilega veiðþjófar á ferð. Hittum einnig gæskaskyttur þegar við vorum að tygja okkur til heimferðar. Engin var veiðin að þessu sinni en Guðrún setti í einn fisk sem slapp.



Comments


bottom of page