top of page

Harmleikurinn við Einstakaklett

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 19, 2016
  • 3 min read

Baulan, Mælifell og Baulusandur. Einstakilettur fyrir miðri mynd og Þrælavaðið þar sem rennur úr hylnum.

Við hjónin vorum stödd ásamt Ingibjörgu Lilju dóttur okkar og Lappa í Brautarlæk núna í vor. Þetta var fyrsta ferðin í sumarkofann þetta vorið og skólanámið í algleymi eins og gjarnan er þegar skólalok nálgast. Dóttirin sagðist myndu koma með þrátt fyrir annirnar ef hún fengi frið til að sinna náminu. Foreldrarnir lofuðu að hafa sig hæga en athyglisbrestur unglingsins varð þó til þess að skólabækurnar gleymdust við útidyrnar heima í Reykjavík. Hún mundi þó að eitt af verkefnum helgarinnar var að skrifa örsögu í íslensku. Það þarf engar skólabækur til að skrifa sögu. Eitthvað gekk henni erfiðlega að finna söguefni þannig að Guðrún spurði dóttur sína hvort hún hafi heyrt af harmleiknum við Einstakaklett. Rithöfundar fá nefnilega stundum hugmyndir að sögum sínum af raunverulegum atburðum.


Atvikið átti sér stað í búskapartíð Brynjólfs Bjarnasonar bónda í Króki í Norðurárdal og langafa Ingibjargar Lilju. Sennilega á þriðja eða fjórða áratug síðustu aldar. Veðrið var eins og það best gerist á þessu landi. Sólin bakaði heimilisfólkið þar sem það vann að baki brotnu við slátt á túninu neðan við bæinn. Nýmóðins sláttutækni hafði ekki enn fundið sér leið efst upp í Norðurárdalinn. Slegið var með orfi og ljá þannig að svitinn hefur án efa bogað af sláttufólki. Að vinnudegi loknum sagðist vinnumaður sem á bænum var ætla niður að á og skola af sér. Brynjólfur varar hann við ánni því þótt það sé freystandi að baða sig í hylnum undir Einstakaklett þá sé það varasamt því áin sé jökulköld. Hann bendir vinnumanninum á að baða sig aðeins þar sem vatn er staðið og alls ekki þar sem klettarnir varpa skugga yfir hylinn.


Kletturinn miðri ánni er Einstakiklettur. Í kringum hann er djúpur hylur sem freistandi væri að baða sig í á heitum sumardögum.

Vinnumaðurinn kom ekki aftur og heimilisfólkið hefur fundið hann örendan í ánni þegar það fór að vitja hans. Þótt engin hafi orðið vitni að atvikinu taldi heimilisfólk að hann hafi stokkið fram að klettinum í hylinn og líkaminn hafi einfaldlega ekki þolað viðbrigðin þegar kalt vatnið umlukti líkamann. Atvik þetta hvíldi þungt á Brynjólfi og þau hafa án efa verið þung sporin þegar hann dró vinnumanninn á land við Þrælavaðið en svo kallast grynningarnar neðan við hylinn við Einstakaklett.


Hér má nálgast grein sem skrifuð var í tilefni af sjötugsafmælis Brynjólfs. Þar er búskaparbaslinu vel lýst. Sjá hér.

Frásögnin af þessum sorglega atburði varð dóttur okkar kveikja að sögunni sem hér fer á eftir.

Við Einstakaklett

Fuglarnir sungu og sólargeislarnir léku við hvern þann sem ei stóð í skugga. Ég hafði unnið frá því að það byrjaði að birta og yfir daginn meðan sólin var sem hæst á himni. Loks hafði ég lokið dagsverki mínu.


Hendurnar voru bólgnar eftir að halda þétt um orfið sem ég notaði til að slá grasið af túninu, svitinn lak niður eftir öllum líkama mínum og hver vöðvi öskraði á hvíld. Ég gekk eftir slegna túninu að torfbænum þar sem bóndahjónin voru og biðu eftir því að ég kæmi og tilkynnti þeim það að verki mínu þennan dag væri lokið. Þegar ég kom að bænum þakkaði bóndinn mér fyrir vinnuna og samþykkti ósk mína um að fá að baða mig í ánni sem var spölkorn frá bænum.


Áin rann spegilslétt eftir dalnum. Sólin glampaði á hana og þegar ég snerti hana rétt við yfirborðið var hún volg og svalandi. Það var freistandi að stökkva út í en eins og bóndinn benti mér á að gera, fór ég hægt og varlega í hylinn. Í fyrstu var áin köld en eftir örlitla stund fór ég að venjast kuldanum. Ég lokaði augunum og leyfði ánni að bera mig áfram með straum sínum.


Ég opnaði augun aftur þegar ég fann kaldan skugga í stað sólar bera fyrir augu mín. Ég reyndi að synda frá skugganum sem gerði ána svo kalda en það virtist sem líkami minn vildi ekki svara. Ég var fastur í dýpsta hyl árinnar, í köldum skugga sem barst frá Einstaka klett sem stóð upp úr miðri ánni. Ég fann fyrir því hvernig kuldinn læddist upp eftir líkama mínum, í hvern útlim. Ég barðist við að anda en ég gat það ekki. Að lokum læsti kuldinn sig um hjartað mitt.


Höfundur sögunnar með móður sinni og Lappa við Króksbrú.

Comments


bottom of page