top of page

Brautarlækjarannáll 2019

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Dec 31, 2019
  • 5 min read

Updated: Apr 9, 2023

Norðurá brýtur af sér klakann 8. - 9. mars 2019


ree

Fyrsta ferð okkar hjóna í Brautarlæk var þann áttunda mars og gistum við eina nótt. Veðrið á laugardeginum var hreint dásamlegt. Að degi til var hitastigið frá frostmarki og niður í mínus tvær gráður. Um nóttina féll hitinn niður í mínus tíu gráður. Tilgangur ferðarinnar var eins og oft áður að komast í rólegheitin. Af einhverjum ástæðum er það aðeins hér sem við hjónin sitjum hvort á móti öðru og ráðum krossgátur, skreppum öðru hvoru út og horfum upp í stjörnubjartan himininn. Núna var svo sannarlega tilefni til þess. Þvílíkur stjörnufjöld dansaði fyrir okkur á himninum og hleypti ímyndunaraflinu af stað.


Í ár á kofinn í dalnum fjörutíu ára afmæli. Þegar Halli og Sigurbjörg brugðu búi árið 1978 ákváðu þau að byggja sér þetta hús í gamla kúagerðinu. Fyrir um það bil fimmtán árum ákváðu þau að afsala sér húsinu til dætra sinna. Á þessum fimmtán árum hefur svo sem ekki mikið verið framkvæmt annað en að sinna nauðsynlegasta viðhaldi. Við létum þó bora fyrir vatni og leiddum það inn í hús. Núna sátum við Guðrún og bollalögðum um hvað við gætum gert til að bæta húsið. Mældum þykktir á veggjum og veltum fyrir okkur hvernig við gætum bætt einangrun þess.


Að morgni laugardagsins var einstaklega fallegt vorveður og áin sérlega tilkomumikil. Hún hafði greinilega aðeins náð að brjóta af sér klakaböndin þannig að það voru stórir jakar um allar eyrar. Við röltum meðfram ánni og virtum fyrir okkur þetta mikla sjónarspil. Maður hittir yfirleitt ekki erlenda ferðamenn á þessum slóðum en að þessu sinni heilsaði franskt par upp á okkur þar sem við sátum á hólnum ofan við Einstaka klett. Frakkarnir röltu áfram niður í eyri en við heim í Brautarlæk.


Á myndinni til vinstri eru Guðrún og Lappi með æskuheimili Guðrúnar í baksýn. Á myndinni til hægri er Guðrún við klakana sem höfðu safnast upp á eyrinni við Norðurá.


Ekið inn með Hreðavatni 8. - 10. júní 2019


ree

Selvatn og gamli bústaðurinn við Kiðá.


Það tekur tíma að smíða skúr. Sennilega er það ástæða þess að það liðu þrír mánuðir á milli ferða í Brautarlæk og við komum ekki aftur í dalinn fyrr en um hvítasunnuhelgina 8. – 10. júní. Við vorum nefnilega upptekin við að smíða geymsluskúr í garðinum okkar fyrir sunnan. Veðrið var ljómandi gott og við gátum nýtt tíman í hefðbundið viðhald. Skröpuðum og máluðum bárujárnið utan á húsinu og sáum að það er kominn tími á að mála þakið. Við hittum Gunnar í Króki niður við hlið. Hann var ásamt dóttur sinni að dunda við að rífa gömlu fjárhúsin. Það er ekki vanþörf á því. Öruggast er auðvitað að rífa þau áður en þau fara að fjúka um sveitina. Ansi er hann duglegur karlinn orðinn 86 ára gamall. Gunnar flutti okkur þær fregnir að bæði Hóll og Dýrastaðir væru til sölu.


Mamma kom með okkur í þessa ferð og við gerðum okkur ferð yfir að Jafnaskarði. Ókum meðfram Hreðavatninu að norðvestanverðu og upp á hálsinn þar sem bústaðurinn hans Gumma Daníels frá Hreðavatni stendur. Síðan ókum við áfram yfir að gamla bústaðnum við Kiðá og Selvatn. Það vel þess virði að gera sér ferð þarna inn eftir því svæðið er eins og ævintýraveröld.



Tvö afmæli 21. - 23. júní 2019


ree

Það var tilgangur með ferðinni í Brautarlæk í þetta skiptið. Yngsta systirinn átti fimmtugsafmæli og hélt það hér í dalnum. Veislan hófst með súpu í Bifröst, síðan var gengið niður í Paradísarlaut og endað í kökukaffi í Brautarlæk. Þegar flestir þeir voru farnir sem ekki ætluðu að gista var gítarinn gripinn og sungið fram eftir kvöldi.


Daginn eftir var síðan annað afmæli því Sigurbjörg átti sinn 87. afmælisdag hér. Veðrið þessa daga var eins og best verður á kosið þótt ekki hafi verið mjög sólríkt. Hitinn var 17 – 19 gráður.


Borið á pallinn og blöðrubólga 15. - 17. júlí 2019


ree

Áfram er veðurblíðan einstök. Bjartur himinn frá laugardegi til mánudag. Á sunnudeginum steig hitinn í 21 gráðu í forsælu. Maður kemst víst aldrei hjá viðhaldinu svo við nýttum góðviðrið til að bera Herregård, litur Burmateak á dekkið á pallinum. Þetta endist víst ekki nema þrjú til fjögur ár þannig að við ættum að vera aftur á pallinn sumarið 2023 ef vel á að vera.


Á meðan þornaði á pallinum reyndum við að veiða í Krókavatni. Þar vorum við í samfélagi fugla því á vatninu voru himbrimapar eins og alltaf, álftapar og hávellupar. Við bakkana voru síðan óðinshani og snjótittlingur. Heiðarblómin eru mörg byrjuð að blómstra og skemmtum við okkur við að reyna að þekkja tegundirnar. Þekktum hrafnaklukku, lambagras, geldingarhnapp, kattarauga og músareyra. Ein jurtin blómstraði fallegum bláum blómum og hana þekktum við ekki. Blómagreiningarlykillinn sagði okkur að þettta fallega blóm heitir maríuvendlingur.


Lappi var með í för og var spenntari fyrir veiðinni en honum var hollt. Hann krækti sér í blöðrubólgu af öllu volkinu.


Brúará, Gíslavatn og Fornihvammur 5. - 7. júlí 2019


ree

Hversu oft hefur maður ekki í heiðarferðum horft til Eiríksjökuls. Enn einu sinni varð hann mér að myndefni. Að þessu sinni var útsýnisstaðurinn á hæðinni við vörðuna ofan við Gíslavatn. Laugardagurinn sjötti júlí var kjörinn til að rölta upp að Gíslavatni. Guðrún skutlaði mér að Brúará. Þar var áinn krossuð og gengið upp hálsinn þar til vatnið fannst. Það tók mig smá stund að finna vatnið eða öllu heldur að trúa því að ég hefði fundið það. Það var nefnilega mun minna en ég hafði átt von á.


Á vatninu var álftapar með þrjá unga og í vatninu var enginn fiskur. Eða vonandi var fiskur en enginn sem vildi flugurnar mínar. Ég gekk síðan örlítið aðra leið til baka og kom niður örlítið austan við Fornahvamm.


Silungs- og berjaveiði 16. - 18. ágúst 2019


ree

Við dvöldum lítið í Brautarlæk í júlí. Komum þó við á leið okkar norður í Fnjóskadal og gistum eina nótt og gistum síðan aðra nótt í byrjun ágúst. Þessa helgina ætluðum við að nýta til veiða í heiðarvatninu og í að tína ber. Það hafði nefnilega litið vel út með berjasprettuna í júlí en því miður þá rigndi ekki neitt og þar af leiðandi varð berjatínslan aumari en við áttum von á.


Silungsveiðin var heldur betri því nokkrir silungar náðust á land. Dvölin við vatnið var heldur kalsöm því vindur var töluverður og hitinn ekki nema átta gráður. Vatnsstaðan var sérlega lág enda hefur ekkert rignt svo nemi nokkru í sumar.


Haustlitir 21. - 22. september 2019


ree

Það leynir sér ekki að haustið er komið. Gróðurinn farinn að skipta litum og litadýrðin hreint stórfengleg. Veðrið er gott og birtan gullinn þannig að aðstæður eru eins góðar og þær geta orðið til ljósmyndatöku. Hitinn yfir daginn reis meir að segja upp í 16 gráður. Við röltum með norðuránni sem er mjög vatnsmikil. Hausinu hafa nefnilega fylgt rigningar. Króksfoss er varla foss núna, frekar myndi maður kalla þetta flúðir.


Þega við komum að hliðinu sat fjöldinn allur af hröfnum í öspunum við veginn. Þeir styggðust auðvitað við komu okkar en fóru ekki langt. Þeir voru á flögri um kring allan tíman sem við vorum á staðnum.


Lappi og Dalton voru með okkur í för þessa fallegu haustlitadaga. Harpa var einnig með okkur í ferðinni.


Skíðin 29. - 30. desember 2019


ree

Í geymslunni hjá okkur hafa legið skíði sem eru ekki beint af nýjustu gerð. Það er frekar ólíklegt að þau verði nokkru sinni til einhvers brúks héðan í frá. Okkur þótti þau frekar eiga heima í Brautarlæk en í geymslunni heima. Loksins núna létum við verða af því að grípa þau með og hengja þau upp. Það er nefnlega lítið hægt að gera úti við því þar hefur veturinn öll völd.


Við áttum hreint ágæta tvo daga í Brautarlæk með Kristjáni og Imbu svona undir lok árs. Gerðum ekkert annað en að hengja gömlu skíðin upp.

Comments


bottom of page