Brautarlækjarannáll 2018
- Þorkell Daníel Jónsson
- Sep 24, 2018
- 5 min read
Updated: Apr 9, 2023
Rigningatíð 29. júní - 1. júlí 2018

Þetta ætlar að verða leiðindasumar. Það hafa verið óhemju miklar rigningar og við hjónin erum að koma í Brautarlæk í fyrsta sinn á árinu um mánaðamótin júní – júlí. Ætli við höfum nokkru sinni verið svona seint á ferð áður. Ástæðan eru annir fyrir sunnan því við höfum verið að múrviðgera húsið okkar fyrir sunnan. Rigningin þar hefur valdið miklum töfum á þeim framkvæmdum þannig að við höfum þurft að sitja fyrir hverri þurri stund. En nú erum við mætt í Brautarlæk og að sjálfsögðu er þoka og rigning. Þannig var veðrið fram á laugardalskvöld en þá stytti upp okkur til mikillar gleði.
Guðrún og Dísa systir Guðrúnar nýttu tímann til að stytta gardínur og setja upp í stofuna. Erum að reyna að myrkva betur því hér verður óþægilega bjart á nóttunni þegar sól er hæst á lofti.
Uppþvottavél eykur lífsgæðin 20. - 22. júlí 2018

Það var mikil bylting þegar við keyptum MATSUI uppþvottavélina í Elko. Síðan gerðum við þau mistök að taka hana ekki suður þegar haustaði. Það var nefnilega ekki nóg að losa úr slöngum því vatnið inni í vélinni fraus auðvitað og hún ónýt. Við vorum búin að átta okkur á hve mjög hún bætir lífsgæðin hér svo við keyptum aðra vél sömu tegundar og tengdum hana í þessari ferð.

Við felldum eitt birkitré og gljávíði við göngustíginn niður að læk og söguðum neðstu greinarnar af blágreninu austan við húsið. Baráttan við lúpínuna á hólnum heldur áfram og við slitum upp þær lúpínur sem voru farnar að sína sig.
Siggi og Kristbjörg litu við og saman fórum við í forvitnisleiðangur inn í Sanddal. Þar eru nokkur sumarhús en þeim er misvel viðhaldið. Þau hjónin eru að leggja í hestaleiðangur um nágrennið á mánudaginn og voru að setja hesta í gerði hjá Gunnari í Króki.
Heimferð flýtt til að fara á slysó 29. - 30. júlí 2018

Það spáir góðu veðri á sunnudaginn. Það hefur ekki verið mikið um slíkt í sumar. Dagsins ætlum við að njóta í dalnum og fengum Hörpu og Dalton til að slást í för. Við héldum áfram að slíta upp lúpínugreyin sem stinga upp kollinum á hólnum. Henni gefum við engin grið. Hér var hlýtt en hvass vindur blés að austan. Hestamenn að norðan sem voru í hestaferð með Sigga og Kristbjörgu höfðu skilið eftir búnað á meðan á ferðinni stóð. Ferð hestamannanna varð heilmikil slarkferð því það hreinlega styttir ekki upp sunnan heiða þetta sumarið.

Á sunnudeginum stökk ég til og klippti gljávíði frá tveimur fallegum furum vestan við húsið. Í kjölfarið var rokið í bæinn því trjágrein rakst í augað á mér. Sársaukinn var frekar mikill svo heimsókn á slysó var málið um leið og við komum suður. Greinin hafði rispað hornhimnuna aðeins þannig að trjáklippingarnar kostuðu óþægindi í um vikutíma. Sem betur fer þá greri þetta fljótt og vel.
Þurrt þrjá daga í röð! 4. - 6. ágúst 2018

Þau undur og stórmerki gerðust í þessari ferð í dalinn að það var þurrt þrjá daga í röð. Þetta hefur ekki áður gerst þetta sumarið. Það var meira að segja svo að sólbaðsveður var á laugardag og sunnudag. Við Guðrún komum í bústaðinn á laugardeginum. Imba og Kristján voru þar fyrir. Sonur Imbu og fjölskylda komu í laugardagsheimsókn og slógum við af því tilefni upp heilmikilli veislu.
Á myndinni til vinstri er það sem eftir stendur af bænum Vogum í Dölum. Þar fæddist elsti bróðir eiginkonunnar. Á myndinni til hægri er staðafell í Dölum.
Á sunnudeginum skelltum við okkur í bílferð yfir Bröttubrekku. Komum við í Knarrarhöfn og töfðum fólkið um stund frá framkvæmdunum. Síðan var ekið áfram út Fellsströndina. Komum við á Vogi og Stakkabergi þar sem skyldfólk Imbu tók á móti okkur. Þar var skipts á kveðjum og fengum við sögu af ævagömlum jakkafötum sem héngu þar inni í skáp. Ókum síðan í gegnum Klofning og inn á Skarðsstöð sem er smáskipahöfn og sennilega gömul verstöð. Síðan ókum við Saurbæinn og Svínadalinn til baka. Snæddum kvöldmat í Búðardal og litum við í minjasafninu þar. Síðasta stopp var síðan í Sveinatungu. Þar var enginn á staðnum en heilmiklar framkvæmdir í gangi. Gaman að sjá að loksins er verið að gera eitthvað við gamla húsið.

Á mánudeginum röltum við yfir að Króki þar sem Erla og Gunnar tóku vel á móti okkur. Enn eru þrjú tár í Baulunni.
Á myndinni hér til hægri er Sveinatunga í Norðurárdal. Loksins er verið að gera þetta fornfræga hús upp.
Einn lax lá í Snagafitinni 11. - 12. ágúst 2018

Markmið helgarinnar var að veiða brúnan silung. Veiðileyfið höfðum við fengið vikuna áður. Veiðin gekk ljómandi vel því fimm fallegir silungar lágu í valnum. Á laugardeginum þegar við hófum veiðar í vatninu var lofthitinn einar átján gráður. Á meðan við vorum við veiðarnar snerist hann til norðanáttar og féll hitinn niður í eina gráðu.

Á sunnudeginum fengum við gest í landið okkar. Sauðkind með tvö lömb var í suðvesturhorninu. Mikil veisla hjá þeim því þar fékk lúpínan að blómstra. Reynslan hefur kennt okkur að ekkert þykir sauðkindinni betra en lúpínan. Hún var að sjálfsögðu rekin útfyrir. Við röltum með ánni og rákumst á einn lax í Snagafitinni.
Bíflugurnar brugðust 15. - 16. september 2018

Það var hlýtt og notalegt þegar við komum í Brautarlæk á föstudeginum. Það hefur samt verið kalt í háloftununum því norðurljósin dönsuðu fyrir okkur á himninum. Á laugardeginum var sérlega fallegt veður og ákváðum við að nýta daginn í bíltúr yfir á Hvammstanga. Þar litum við inn á Gallerí Bardúsa sem er bæði handverkssala og minjasafn. Kristján hvað upp þegar hann leit yfir munina á minjasafnin: „Hva, þetta er bara eins og að koma heim!“ Já margir þessara muna voru til á heimilum okkar þegar við vorum að alast upp. Það segir eitthvað um okkur. Við litum síðan inn á kaffihúsið fyrir ofan Selasafnið og fengum okkur kaffi og köku.
Á sunnudeginum fóru Guðrún og Imba yfir í kirkjugarðinn í Hvammi en við Kristján skoðuðum möguleikann á að færa vatnslagnir inn í hús svo við séum ekki alltaf á tauginni með að neysluvatnið frjósi á köldum haust og vornóttum. Að öllu jöfnu hefðum við átt að vera að tína ber en að sögn Einars skordýrafræðings þá brugðust bíflugurnar þetta árið. Þær komust aldrei af stað til að frjóvga berin.
Tími kominn á endurbætur 21. - 23. september 2018

Okkur er virkilega farið að langa að gera endurbætur á þessu gamla húsi. Til þessa hefur aðeins verið hægt að gista í því yfir allra hlýjustu mánuðina því húsið er illa einangrað og það heldur ekki hita nógu vel. Athugun okkar Kristjáns um síðustu helgi sýndi að veggir eru einangraðir með 7 cm plasti og 3 cm glerull og einangrun í gólfi er ekki nema 6,7 cm. Húsinu var aldrei ætlað að vera neitt annað en sumarhús. Við Guðrún létum okkur dreyma um betra hús og teiknuðum upp ýmsar hugmyndir að því hvernig við gætum bætt húsið. Niðurstaðan er auðvitað alltaf sú að húsið er of lítið.
Gengið að Sveinatungu 15. - 16. desember 2018

Áfram héldum við að bollaleggja um framtíð þessa litla húss. Eigum við að halda því eins og það er? Eða eigum við að byggja við það? Eða jafnvel rífa það og byggja nýtt. Síðan mætti halda því og byggja annað vestan megin við lækinn? Við höfum alltaf verið án heita vatnsins en núna settum við upp hitagræju sem við tengdum við eldhúsvaskinn og fengum heitt vatn.

Við fengum okkur göngutúr inn að Sveinatungu. Þar var enginn á staðnum en greinilega heilmiklar framkvæmdir í gangi. Einhver hefur keypt þetta gamla hús og jörðina og stendur núna í því að gera það upp. Það er ánægjulegt því það er ósköp nöturlegt þegar bæjarhúsin grotna svona niður.







Comments