top of page

Brautarlækjarannáll 2022

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Apr 12, 2022
  • 8 min read

Updated: Apr 9, 2023

Vatnslaust 16. og 17. apríl 2022


Við höfðum ekki komið í Brautarlæk síðan um áramótin eða í þrjá og hálfan mánuð. Veturinn hefur verið harður og mikill snjór eins og sjá mátti á myndum frá dóttur okkar sem fór í dalinn um miðjan febrúar. Okkur fannst kominn tími til að fara í eftirlitsferð. Við gistum eina nótt og Kristján og Imba voru með í för. Varmadælan hafði staðist veðrinu snúning og hélt húsinu heitu. Samt vorum við með lélegt vatnsrennsli og undruðumst það.


Guðrún sem heyrir betur en ég benti mér á að hún heyrði stöðugt suð í dælunni eins og hún væri alltaf í gangi. Fyrst datt okkur í hug að frost hefði sprengt vatnslögn. Það hefur nú gerst áður hjá okkur en við fundum engin merki um slíkt. Við Kristján tókum þá hattinn af holunni og þá kom vandinn í ljós. óhreinindi höfðu komist í segullokann og hann hélt opnu niður í holu. Dælan var sem sagt stöðugt að dæla úr holunni og ofan í holuna.


Það var ansi mikill snjór allt í kringum húsið þegar dóttir okkar dvaldist í húsinu um miðjan febrúar. Eins og við var að búast á þessum árstíma var engin leið að komast á bílnum upp að húsinu þannig að það þurfti að leggja honum niður við veg og draga allar föggur á snjóþotu upp að húsi. Eins og sjá má á myndinni þá myndaðist skafl framan við útihurðina. Það er nýtt því venjulega hefur snjórinn ekki safnast fyrir þarna. Hugsanlega er það vegna þess að hjólhýsið stendur núna þarna framan við og breytir farvegi vindsins.


Nýjar hillur 27. - 29. maí 2022


Undir lok maí er ennþá frekar kalt í dalnum en þó eru komin merki um að sumarið sé á næsta leiti. Við Guðrún vorum tvö ein í húsinu og nýttum tímann til að setja upp hillur í stofuna og svefnherbergið. Það hefur alltaf verið hálf önugt hjá okkur hvað lítið pláss er til að leggja hluti frá sér. Hillurnar bæta aðeins úr því.


Aldrei þessu vant þá ákváðum við að sólunda fé í veiðileyfi í Norðurá. Sólunda segi ég því það er auðvitað algert bruðl að eyða svona miklum peningum í að eltast við fisk. Maggi mágur ætlaði að koma með í þessa veiði og þar sem hann þekkir ekki staðhætti röltum við hjónin meðfram ánni og tókum myndir af næstu veiðistöðumvið Brautarlæk.


Þessi veiðistaður er nánast beint niður af Brautarlæk og kallast Snagafit. Ég hef svo sem ekki frétt mikið af veiði þarna en maður skyldi ekki sleppa að skoða hann ef maður á dag í ánni. Bærinn sem sést á myndinni heitir Hvammur.


Sumarið í algleymi 12. - 31. júlí 2022

Brautarlækjarannáll 12. - 31. júlí 2022



Fram undan var þriggja vikna sameiginlegt sumarfrí okkar hjóna og fríinu vörðum við öllu í Brautarlæk. Þau voru ekki mörg verkin sem biðu okkar en einhver þó. Girðingin að sunnanverðu er hætt að halda fé og þótt fjárbúskapur á Hóli hafi verið lagður af á síðasta ári þá er enn fjáránauð umkring. Hvaðan það fé kemur vitum við ekki. Sennilega mest úr Þverárhlíðinni.


Við hófumst strax handa við að rífa gömlu girðinguna sem er 190 metra löng. Hve gömul girðingin er vitum við ekki því Brautarlækjarlandið afmarkast af gamalli girðingu sem var aðhald fyrir kýrnar á meðan foreldrar eiginkonunnar voru bændur í Króki. Þessi girðing hefur aldrei verið endurnýjuð á meðan bústaðurinn hefur staðið þarna og það eru 45 ár. Guð veit hvenær girt var fyrir kýrnar. Það var sem sagt fyrir löngu kominn tími á endurnýjun.


Lappi sullar í Gufá.

Girðingarvinnan var ágætis svitaverk því enginn blés vindurinn og það var hlýtt. Bölvað mýið ætlaði okkur lifandi að drepa og ekki voru geitungarnir ánægðir með bröltið í kringum búin þeirra. Á þremur stöðum varð ég fyrir árásum geitunga og tvisvar var ég stunginn. Lappi fékk einnig að kynnast hörku geitunganna og fór erfiðu leiðinna að því að læra að maður stingur ekki nefinu í geitungabú. Hann fékk stungu eða stungur við augað og bólgnaði hressilega. Við komumst að því að ofnæmislyfið Loritín virkar á bæði hunda og menn. Á meðan við Lappi stóðum í girðingabrasinu málaði eiginkonan hurð og glugga á smíðaskúrnum sem við smíðuðum í fyrra. Girðingavinnunni lauk á endanum með aðstoð Kristjáns og við hjónin ókum með girðingaleyfarnar á endurvinnslustöðina í Borgarnesi.

Kaffi Kyrrð í Borgarnesi.

Áfram var dásemdar veður. Við fengum okkur hádegisnasl á Kaffi Kyrrð í Borgarnesi og skoðuðum okkur um í sveitinni við Laxholt. Einn daginn skutumst við yfir Grjóthálsinn og ókum upp að Hermundarstöðum í Þverárhlíð og áfram svo langt sem hægt var að komast. Við ætluðum okkur að finna troðninginn upp að Fiskivatni en ekki tókst nú það. Ef til vill er enginn troðningur upp að vatninu. Á leiðinni til baka skoðuðum við okkur um í kringum Helgafell og enduðum túrinn á því að fá okkur kvöldmat í Hreðavatnsskála. Já, það er aftur orðið líf í skálanum. Vonandi næst að halda honum opnum áfram.


Lappi ofan við Selgil innst í Þverárhlíð. Væri gengið til norðurs upp hálsinn kæmi maður að Sýrdalsborgum austanmegin. Fiskivatn væri þá til vesturs.

Kolufossar í Víðidalsá í Kolugili.

Þrátt fyrir að ekki sé um langan veg yfir Holtavörðuheiðina að fara höfum við hjónin aldrei gert okkur ferð að gljúfrinu sem tröllskessan Kola gróf í Víðidalsá. Gljúfrið er vel þess virði að skoða enda stórbrotið. Að sjálfsögðu er það kennt við skessuna og heitir Kolugljúfur og fossarnir sem falla um það Kolufossar. Kristján og Imba ætluðu að vera með okkur Guðrúnu þessa síðustu daga dvalarinnar og það voru þau sem stungu upp á því að við gerðum okkur ferð að Kolugljúfri. Við sáum ekki eftir því. Gljúfrið er stórbrotið og fossarnir hver öðrum fallegri. Reyndar var rigning á meðan við vorum við gljúfrið og satt best að segja þurfti maður að fara varlega á göngunni meðfram gljúfrinu því það getur verið hált í bleytunni.


Seinni partinn fórum við út á Hvammstanga. Þar rákumst við á Baldur og Móra saman á göngu. Baldur og Edda voru á fullu í framkvæmdum en þau eru að byggja við húsið sem þau eiga á Hvammstanga. Húsið stendur niður í fjöru og þeir félagarnir Lappi og Móri glöddust mjög yfir að hittast og ruku saman niður í fjöru. Móri greyið er farinn að eldast mjög og hefði kannski átt að sleppa því ferðalagi því hann komst ekki af sjálfsdáðum til baka. Við pöntuðum kvöldmat á veitingastaðnum Sjávarborg en áður en að kvöldmat kom renndum við spölkorn út á Vatnsnesið til að skoða Hamarsrétt.



Hamarsrétt stendur í fjörukambinum á vestanverðu Vatnsnesinu. Sunnan við réttina er Kallhamarinn en nafn sitt fékk hamarinn vegna þess að upp á hann var farið þegar koma þurfti boðum til bátanna sem voru að veiðum fyrir utan. Það var áður mikið útræði frá þessum stað og enn má sjá rústir sjóbúða sunnan við hamarinn. Deginum lauk síðan með kvöldverði á Sjávarborg. Veitingastaðurinn er í sama húsi og Selasafnið og útsýni er frábært út á Hrútafjörðinn. Daginn eftir þennan bíltúr var haldið suður og sumarfríið var búið.



Bara veiði 3. - 5. ágúst 2022


Guðrún á göngu á milli vatnanna á Hólmsheiði.

Við hjónin skruppum í Brautarlæk þessa fyrstu helgi í ágúst ásamt Imbu og Kristjáni. Við ókum síðan á laugardeginum yfir heiðarnar tvær, Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði til að veiða á þriðju heiðinni, Hólmsheiði. Þar er eitt vatnanna Gullhamarsvatn og þangað röltum við, slitum upp níu fiska og héldum heim í svefninn.

Norðurá 12. - 14. ágúst 2022


Margrómuð Norðuráin rennur fram hjá kofanum okkar. Áður en laxinum var brotin leið áfram upp með ánni nýttu afi og pabbi Guðrúnar það sem hún hafði að gefa. Þá var heilmikill urriði á veiðisvæðinu sem er kallað Fjallið og engin var samkeppnin við minnkinn því sá skaðvaldur var ekki búinn að hasla sér völl á landinu. Núna hefur laxinn tekið yfir og hefur okkur áhugafólkinu um veiði þótt súrt að tíma ekki öðru en að horfa á veiðimennina út um stofugluggann.


Þessa helgina varð breyting á því við keyptum allar þrjár stangirnar á Fjallinu í félagi við Magnús mág og Stefán systurson Guðrúnar. Vorum mjög heppin með aðstæður og laxinn til í að taka flugurnar. Nokkrir komu á land.

Hvers vegna eru engin ber 26. - 29. ágúst 2022


Núna var komið að berjatínsluhelginni en því miður vissum við Guðrún að berin voru ekki á hverju strái. Við vorum nefnilega búin að sjá að það voru afskaplega fáir vísirar á lynginu. Hverju er um að kenna vitum við ekki. Líklegt þykir okkur að það hafi frosið í vor eftir að lyngið blómstraði. Hvað um það. Við ætluðum samt að reyna að ná í einhver bláber svo við ættum einhverja sultu í vetur.


Laugardagurinn var afskaplega fagur þannig að ég freistaðist til að ganga upp á hálsinn ofan við Brautarlæk. Langaði að ná fallegum yfirlitsmyndum. Á meðan dunduðu mamma og Guðrún sér við að tína þau fáu ber sem fundust. Gangan á hálsinn var gjöful því ég náði mjög fallegum yfirlitsmyndum ofan af borgunum þarna uppi. Þegar ég kem niður hafði berjatínslan, eins og við var að búast, ekki verið eins gjöful.


Á sunnudeginum þrjóskuðumst við Guðrún áfram við berjatínsluna en mamma sagði þetta gott. Hún hafði eiginlega gengið frá sér við tínsluna á laugardeginum. Á endanum náðum við að tína rúmlega fjóra lítra af bláberjum sem Guðrún sultaði hið snarasta. Afraksturinn urðu 25 sultukrukkur þannig að við eigum eitthvað af sultu í vetur. Heima tíndi Guðrún síðan dálítið af sólberjum og rifsberjum og þar fengust nokkrar krukkur í viðbót. Það verður nú að segjast eins og er að sumarið 2022 var það alversta berjasumar sem við munum eftir.


Síðasti fiskur ársins 9. - 11. september 2022


Fjársafnið rennur niður af Holtavörðuheiði í átt að Hellisá á leið sinni yfir í Þverárrétt.

Veiðitímabilinu lýkur venjulega hjá okkur hjónunum í ágúst en það er ástæðulaust að hætta svo snemma. Það má alveg finna fisk í september. Við skelltum okkur því í kofann okkar á föstudegi ásamt Imbu og Kristjáni. Við Guðrún ókum síðan í bítið á laugardeginum yfir Holtavörðuheiðina og áfram yfir í Húnavatnssýsluna. Við ætluðum að veiða í síðasta sinn þetta sumarið í Hópinu. Við mættum fjársafni miklu þegar við erum rétt að leggja á heiðina. Það voru víst fyrstu leitir þessa helgina.


Leitarmenn voru frekar óheppnir með veðrið því það var niðaþoka á heiðinni. Við Guðrún vorum nokkuð viss um að þessi leit hlyti að verða frekar misheppnuð. Imba og Kristján hittu á nokkra leitarmenn sem Imba kannaðist við á meðan við Guðrún vorum í veiðinni. Aðspurðir sögðu þeir að það hefði gengið vel að smala fénu niður. Það er því fé sem leitarmenn sáu. Þegar við Guðrún komum til baka seinni partinn var mikið fé ennþá á heiðinni enda var ekki við öðru að búast.


Við mættum síðan í kofann rétt fyrir kvöldmat og sögðum fátt af veiðinni. Ein sjóbleikja beit á agnið hjá Guðrúnu og var það síðasti fiskur þessa veiðiárs.

Veturinn er að taka völdin 21. - 23. október 2022


Ég og Lappi á göngu meðfram Norðurá. Í baksýn eru fjárhúsin í Króki.

Það er októberfrí í skólunum í Reykjavík og við hjónin ákváðum að skella okkur í dalinn um helgina. Byrjuðum á því að heimsækja sundlaugina í Borgarnesi. Það er kominn haustbragur á hlutina þar því það voru ekki margir í lauginni. Ferðamönnum hefur fækkað. Veðrið gaf samt alveg tilefni til sundferðar. Í lauginni var aðallega ungt fólk og okkur hjónunum til undrunar og ánægju var það allt saman óvenju viðræðugott. Þegar við vorum komin efst í Norðurárdalinn var greinilegt að veturinn er að taka völdin þar.


Hitinn á meðan dvöl stóð var í kringum frá mínus þremur gráðum upp í plús þrjár og vindur var stilltur. Inni í húsi sagði hitamælirinn að hitinn væri um 23 gráður en út við veggina var kaldara, um það bil 13 gráður. Varmadælan nær ekki alveg að gegnumhita illa einangrað húsið. Urðum þess vegna að láta stóra ofninn í stofunni hjálpa til.


Við litum út fyrir svefninn á föstudagskvöldinu. Sýnin til norðausturs var mögnuð því á heiðum himininum sindruðu stjörnurnar í þúsundatali og norðurljósin dönsuðu yfir Sveinatungumúlanum.



Á meðan karlinn sóaði tímanum í að horfa á fótbolta fóru frúin og hundurinn í gönguferð og könnuðu trjáræktina í Króki.

Afslöppun og fótbolti 26. og 27. nóvember 2022


Það var eiginlega skyndiákvörðun að skjótast í Brautarlæk þessa helgina. Höfðum ekki farið í sveitina í heilan mánuð þannig að okkur fannst vera kominn tími á að fara í eftirlitsferð. Veðrið var fallegt á laugardeginum. Sjörnubjart og hiti við frostmarkið og logn. Þegar við lögðumst til hvílu um kvöldið dönsuðu norðurljósin á himninum. Á leiðinni upp Norðurárdalinn sáum við að snjór er farinn að setjast í Sátudalinn í Baulufjöllunum en neðar er jörð ennþá auð.


Við erum aðeins farin að hugsa til væntanlegra framkvæmda á húsinu. Við sömdum við teiknistofuna Kvarða um að teikna viðbygginguna. Kristján svili fékk vinnubílinn lánaðann til að flytja slatta af timbri uppeftir. Þetta timbur gæti nýst okkur í vinnupalla þegar framkvæmdir verða komnar á fullt. Annars var ferðin ekkert annað en afslöppun yfir fótbolta. Heimsmeistaramótið í Katar er nefnilega í gangi þessa dagana.


Comments


bottom of page