Brautarlækjarannáll 2020
- Þorkell Daníel Jónsson
- Aug 18, 2020
- 8 min read
Vetrarrölt um Hvammsmúla 21. - 23. febrúar 2020

Undanfarna tvo mánuði hefur tíðarfarið verið einstaklega erfitt. Hver lægðin hefur rekið aðra þannig að björgunarsveitir landsins hafa haft í nógu að snúast. Þetta tíðarfar hefur því miður valdið slysum á fólki og skemmdum á eignum. Þann fjórtánda febrúar kom stóri hvellurinn. Ógnvænlegt óveður geisaði um land allt þann daginn. Vindstyrkurinn fór til dæmis upp í 72 m á sekúntu undir Hafnarfjalli. Það þarf vel byggð hús til að standast slíkan vindstyrk. Okkur Guðrúnu þótti af þessum sökum ástæða til þess að bregða okkur í Brautarlæk til að skoða stöðu mála þar.

Húsið stóð enn á sínum stað og allt var eins og þegar við skildum við síðast. Veðrið var gott. Frost 4 6 gráður, vindur stilltur. Smávegis snjókoma var á sunnudeginum en á laugardeginum var bjart veður. Við hjónin ákváðum þá að gera það sem við höfum rætt um að gera í fjölmörg ár. Að ganga upp á Hvammsmúlann. Hvammsmúlinn er beint á móti Brautarlæk og höfum við margoft á haustinn smalað múlann með Hvamsfólkinu. Sú smölun hefur reyndar aðeins farið fram úr stofuglugganum þannig að Hvammsfólkinu var lítil hjálp í því.

Við ókum upp að veiðihúsinu og gengum þaðan. Gangan á múlann er auðveld og hún er jafnvel enn auðveldari að vetri við þessar aðstæður. Snjórinn lyftir okkur upp fyrir hrísið þannig að það var ekki að þvælast fyrir okkur eins og það hefði gert að sumri til. Hvergi annars staðar þarna í framdalnum þvælist hrísið fyrir göngufólki. Einhvern tíman spurði ég tengdaföður minn að þessu. Hann taldi að skýringin lægi í því að Hvammsjörðin er kirkjujörð og kirkjan átti hrístökurétt víða. Þannig gátu ábúendur Hvammsjarðarinnar sparað birkið á sinni jörð og sótt hrís til húshitunnar annað.

Enn ríkir veturinn 9. - 11. apríl 2020

Við ákváðum að hafa tilmæli almannavarna um að halda okkur heima um páskana að engu. Tilmælin voru sett fram til að páskaferðalangar færu nú ekki að auka álagið á heilbrigðiskerfið. Það er nefnilega árvisst að einhverjir fara sér að voða í ferðum sínum um páskana. Síðan var auðvitað verið að koma í veg fyrir smit bærist á milli landshluta. Hvaða smit er nú verið að tala um. Jú, það er veiruskömm af kórónuætt sem tröllríður samfélögum heimsins og veldur sjúkdóminum Covid-19. Þessi skjúkdómur er það skæður að eldra fólk og þeir sem veikir voru fyrir létust hugsanlega af völdum hans.

Við ákváðum samt að það væri ástæðulaust fyrir okkur að sitja heima. Við töldum það ekki vera ábyrgðarleysi því við höfum í einu og öllu farið eftir tilmælum tengdum veirunni. Ferð í Brautarlæk um páska hefur verið árviss viðburður í rúm fjörutíu ár og aldrei höfum við þurft að leita nokkurrar aðstoðar né hafa samneyti við annað fólk nema við vildum. Hér erum við nefnilega frekar einangruð og til að komast hingað er ekki yfir neinn fjallveg að fara og átta hundruð metrar í næsta hús. Athafnir okkar eru heldur ekki líklegar til að valda slysum því þær felast í lestri, ritun og lausn krossgáta. Reyndar fórum við í eina gamalmennagönguför eftir sveitaveginum upp að brú. Það var sennilega það háskalegasta sem gert var í þessari ferð.
Harpa og hundarnir Lappi og Dalton voru með okkur Guðrúnu að þessu sinni. Þeir voru alsælir með frelsið sem þeir hafa hér. Veturinn ræður enn ríkjum. Snjór er í sköflum en autt er inn á milli. Norðurárin er enn í klakaböndum og gaman að ganga með henni. Hitinn var frá mínus þremur gráðum upp í fjórar í plús á meðan á dvöl stóð.
Gamla grillið var orðið frekar lúið svo við Guðrún ákváðum að endurnýja það. Komum við í Bauhaus á leiðinni og versluðum eitt stykki Broil King grill.

Bollalagt um verkefni sumarsins 8. - 10. maí 2020

Í þriðja sinn á þessu ári erum við Guðrún stödd í Brautarlæk og í þriðja sinn er veðrið einmuna gott. Það er reyndar ísskápshiti úti við en það hitnar vel þegar sólarinnar nýtur við og hennar nýtur svo sannarlega við þessa dagana. Himininn er heiður og tær enda engin uppgufun af landinu þegar lofthitinn er svona lágur. Þegar þetta er ritað stendur hún Guðrún mín við eldavélina steikir sveppi og lauk sem nota skal í sósuna með nautakjötinu sem bíður þess að fara á nýja grillið. Hljómsveitin Hjálmar flytur lagið sitt „Ég verð að fá mér kærustu.“ Bæði sötrum við á Grand Mariner og á borðinu stendur 1000 Stories Chabernet Sauvignon, árgangur 2017, rauðvín frá Kaliforníu. Á flöskunni stendur að vínið hafi verið látið eldast í viðartunnum sem áður höfðu geymt Bourbon vín. Bragðið er sagt einkennast af vanillu og ýmsum jurtum. Ekki veit ég með vanilluna en við þóttumst finna keim af sultu og töluverðu tannín. Þetta er uppskrift að kvöldi sem getur ekki klikkað.
Laugardaginn nýttum við í að bera áburð á trén á skikanum okkar í kringum húsið. Létum 25 kg nægja og lögðum áherslu á að bera áburð að minnstu trjánum. Sátum síðan á pallinum og nutum sólarinnar. Um miðjan dag renndum við upp á heiði. Lögðum Kiunni á háheiðinni og gengum inn á heiðina til að sjá yfir Holtavörðuvatn. Vatnið er enn ísi lagt enda eru töluverð frost ennþá. Í nótt sem leið fór frostið til að mynda niður í níu gráður. Álftirnar eru samt mættar en halda sig við heiðarsporðinn og bíða þess að ísa leysi af vötnum heiðarinnar. Maríuerlan er einnig mætt. Við höfum séð hana á vappi um flötina við húsið. Hún hefur svo lengi sem við munum verið með hreiðrið sitt undir húsinu.
Við nýttum rólegheitin til að bollaleggja um verkefni sumarsins hér í Brautarlæk. Málun á þakinu er komin á tíma og við komumst ekki hjá því að leggjast í smávegis girðingarvinnu. Annar hliðstaurinn hefur brotnað í vetur. Það gæti vel verið að við létum loksins verða að því að setja almennilegt járnhlið við innaksturinn inn á skikann. Girðingin frá vestari læknum að horni og einnig girðingin sem veit að Háreksstaðalandinu er orðin döpur þannig að við komumst ekki hjá því að gera eitthvað í því máli í vor. Einnig freistar það okkur mjög að kaupa nokkrar furur til að setja niður ofan við húsið.

Stóra verkefnið sem bíður er grunnvinnan undir skúrinn sem við höfum ákveðið að byggja við borholuna. Fyrsta verkið verður að grafa fyrir skúrnum og slétta landið áður en við setjum niður undirstöðustaura eða sláum upp fyrir grunni. Hvor leiðin sem verður farin þá þurfum við að finna stað fyrir allan jarðveginn sem kemur upp úr grunninum. Okkur hjónunum datt í hug að ef til vill væri snjallt að setja hann í norðvesturhornið á skikanum okkar. Þá myndum við losna við lúpínuna úr horninu því við myndum færa hana á kaf undir jarðveginn og hreinlega kæfa hana. Væri það ekki stórsnjallt?
Þrjár furur og girðingavinna 22. - 24. maí 2020

Við komum í Brautarlæk seint á föstudagskvöldinu með kerruna drekkhlaðna af girðingarefni. Okkur þótti gott að vera komin með efnið á staðinn fyrir hvítasunnuhelgina því þá stendur til að fara almennnilega með girðingunni og jafnvel girða upp á nýtt. Loksins ætlum við að láta verða að því að setja niður almennilegt hlið við innaksturinn inn á skikann okkar. Þegar ég fór að bera hliðið við þá þótti okkur það helst til lítið þannig að við þurfum að drösla því í bæinn aftur og finna hlið í hentugri stærð. Það er lágmark að hliðið sé fjórir metrar að breidd.

Undanfarin ár höfum við nánast ekkert sinnt trjánum. Ástæðurnar eru sennilega annir við framkvæmdir fyrir sunnan. Núna erum við aðeins að vakna til lífsins með þetta að nýju. Bárum á trén í síðustu ferð og núna settum við þrjár fimmtíu sentímetra stórar furur niður, hver af sinni gerð.
Broddfuran er afskaplega harðgert tré sem hægt og örugglega vex 5 – 10 sentímetra á ári. Hana kelur aldrei. Ég hefði haldið að broddfuran væri kjörin í íslenska jörð en hún er alls ekki algeng hér. Fyrstu trén voru gróðursett á Hallormsstað á árunum 1903 – 1905. Þau tré eru orðin rúmlega níu metra há. Það tekur broddfuruna um það bil tuttugu ár að bera fræ og hún verður gríðarlega gömul. Ef þetta grey sem við erum að setja niður lifir gæti hún þess vegna staðið enn við Brautarlækinn eftir tvö til þrjúþúsund ár. Heimkynni broddfurunnar eru í yfir tvö þúsund metra hæð í Kaliforníu. Hún verður þar í kringum 15 metra há.
Bergfuran er nægjusamt tré sem getur lifað í flestum jarðvegsgerðum. Rétt eins og broddfuran vex hún hægt en á endanum getur hún orðið 10 – 20 metra hátt tré. Hún er mjög lík stafafurunni en nálarnar eru heldur lengri á henni og eru dökkgrænar en grágrænar á stafafuru. Einnig eru nálaslíðrin lengri á bergfuru. Fyrstu bergfururnar voru settar niður rétt fyrir aldamótin 1900. Elstu trén eru á Grund í Eyjafirði, á Þingvöllum og við Rauðavatn. Heimkynni hennar eru í Vestur – Evrópu, aðallega í Pyrenafjöllunum.

Stafafura er þriðja tréð sem við settum niður. Hún er algengasta furan sem nýtt er í skógrækt á Íslandi. Af henni eru tvö afbrigði. Annars vegar strandafbrigði sem verður 3 – 10 metrar á hæð og afbrigði sem vex inn til landsins og verður 15 – 30 metra hátt. Ekki vitum við af hvorri tegundinni stafafuran sem við settum niður er. Okkur þykir líklegra að hún sé strandfuran. Heimkynni stafafurunnar er vesturströnd Norður-Ameríku og Klettafjöllin Hún verður 4 – 600 ára gömul.
Við settum plönturnar niður ofan við Brautarlækjarhúsið. Okkur vantaði eitthvað til að bæta næringuna í jarðveginum og litum við hjá Þóri og Rósu á Hóli til að athuga hvort við mættum sníkja af þeim eins og eina kerru af taði. Það reyndist auðsótt mál.
Staurasleggja og vírklippur 29. maí - 1. júní 2020

Við ákváðum að nýta hvítasunnuhelgina í girðingarvinnu. Verkefni helgarinnar var að girða vesturenda skikans okkar, samtals um 150 metra. Imba og Kristján komu með hljólhýsið og þar gistu Hanna og Halli en þau komu að norðan til að vera með okkur yfir helgina.
Girðinging í kringum Brautarlækjarskikann þarfnast eins og aðrar girðingar stöðugs viðhalds. Við verðum að viðurkenna að við höfum ekki alltaf staðið okkur sem skildi í að lappa upp á hana enda er þetta ekki skemmtilegasta verkið. Undanfarin ár hefur kæruleysið verið heldur mikið. Afleiðingin eru heimsóknir sem okkur líkar ekki alls kostar við. Við viljum síður að skikinn okkar verði viðbótar beitarland fyrir Hólsféð. Að sjálfsögðu eru rollurnar áhugasamar um að komast inn fyrir því gróðurþekjan innan girðingar er mun þykkari en þekjan utan hennar.

Meiri girðingarvinna 7. - 9. júní 2020

Fátt skal nú um þessa helgina segja. Helginni var varið í að sinna endurnýjun girðingarinnar. Veðrið mjög gott til vinnu. Hlýtt en þó ekki of hlýtt.
Enn meiri girðingavinna 13. - 15. júní 2020

Hlutirnir gera sig víst ekki sjálfir. Áfram var unnið í girðingunni þessa helgina. Við skulum segja að góðir hlutir gerist hægt og satt best að segja þá er ekki eins brýnt og áður hefur verið að girðingin sé fjárheld. Núna eru bændurnir á Hóli að bregða búi. Þá er ekkert fjárbú í grennd við okkur og eina féð sem sækir að kemur úr Þverárhlíðinni. Jörðin er til sölu og það kæmi okkur á óvart ef einhverjir keyptu sem ætluðu sér að stunda fjárbúskap á jörðinni.

Pása frá girðingavinnau 1. - 3. júlí 2020

Það má öðru hvoru gera ekki neitt. Við tókum okkur pásu frá girðingarvinnunni í júlí og vörðum tímanum í þess að njóta útiverunnar í sveitinni. Lappi var heima hjá Hörpu að þessu sinni því við ætluðum að skjótast yfir á Hólmsheiðina til að veiða í Hólmavatni. Sem við gerðum og náðum þar sex urriðum á land.
Á laugardeginum var feykilega fallegt veður svo við Guðrún röltum um nágrennið og nutum veðursins. Í gerði í Háreksstaðalandi voru gæfir hestar á beit. Fururnar sem við settum niður í fyrra virðast ætla að pluma sig ágætlega.
Girðingin kláruð 14. - 16. ágúst 2020

Þessa helgina var loks lokið við að endurnýja norðurenda girðingarinnar í Brautarlæk. Girðingin er 175 metrar og tvö hlið á henni. Okkur Kristjáni til furðu uppgötvuðum við að við snerum netinu öfugt. Það er nefnilega mislangt á milli að ofan og neðan. Fljótlega eftir að girðingavinnunni var lokið var kind með tveimur lömbum komin inn. Við héldum auðvitað að það væri vegna þess að girðinganetið sneri öfugt en það var nú ekki málið. Suðurgirðingin er hriplek og bíður þess að vera endurnýjuð.
Comments