Brautarlækjarannáll 2012
- Þorkell Daníel Jónsson
- Oct 14, 2012
- 3 min read
Forsetakosningar 30. júní - 2. júlí 2012

Vorum hér í Brautarlæk í einstaklega fallegu veðri á laugardag og sunnudag. Örlítið rigndi seinni partinn á sunnudag en ekki nóg til að jörð vöknaði svo neinu næmi. Á mánudag er þungskýjað og erum við að vona að það fari að rigna því við ætlum að bera áburð á trén.

Við klipptum gljávíðinn sem var farinn að þrengja að blágreninu sem stendur lengst í austur á flötinni við húsið. Reittum illgresi frá birkiplöntunum á hólnum og slógum lúpínuna. Einn bolti datt ú handfanginu á orfinu. Þurfum að finna annan fyrir sunnan.
Ókum upp að Tangavatni á sunnudagskvöldinu og prófuðum að kasta flugu í vatnið. Það bar engan árangur en við sáum fisk. Himbrimapar var að sinna sínu á vatninu.
Dældum duglega úr holunni sem er nauðsynlegt ef við ætlum að fá gott vatn.
Á myndinni til vinstri er landróverinn okkar á bakkanum þar sem Halli og Gísli geymdu hestana sína forðum daga þegar þeir veiddu í vatninu. Snjófjöllin og Tröllakirkja bera við himinn.
Málverk í sumarblíðu 11. - 15. júlí 2012

Komum á miðvikudegi í blíðskaparveðri. Hugmyndin var að nýta góðviðrið til málverka. Veðurspáin brást ekki og sólin skein glatt í tvo daga. Hitin komst hæst í tuttugu gráður og til gamans létum við sólina baka mælinn á pallinum og mælirinn sýndi 47 gráður. Pallurinn var heilmálaður og einnig bárujárn á húsi og járn og tréverk á og í kringum glugga.

Krakkarnir undi sér vel við busl og annan leik í sólinni á meðan fullorðna fólkið málaði.
Áfram var gott veður yfir helgina en það var skýjað. Skýfarið var einstaklega fallegt og þegar sólinn settist var eins og himininn logað yfir Hvammmúlanum. Á laugardeginum fórum við að skoða fossana Glanna og Laxfoss og Margrét og Valli litu við á leið sinnu norður á Mývatn.
Geitungabótox og Hreðavatn 27. - 29. júlí 2012
Ókum inn í Sanddal þar sem eru nokkur sumarhús. Þeim hefur ekkert fjölgað. Heimsóttum Þóri og Rósu á Hóli á laugadag og hittum Erlu í Króki sem kom við á göngu með hundinn sinn. Geitungur stakk mig í efri vörin þegar ég var að rífa frá trjánum við lækinn neðan við bústaðinn. Strax myndaðist fallegt geitungabótox á vörinn en það hjaðnaði nú skjótt aftur.
Hlýtt var þessa daga, um 14 gráður.
Grábrók og Hreðavatn 27. - 29. júlí 2012

Það var mjög fallegt veður í dalnum á föstudag og laugarda. Við nýttum góðviðrið til að ganga á Grábrók og skoða okkur um inn með Hreðavatni. Þar rákumst við á Stefán, Hildi og Aðalheiði og sú litla var nýbúin að landa sínum fyrsta fiski. Þau komu síðan í Brautarlæk og fengu sér kvöldmat með okkur.
Sunnudagurinn heilsaði með vætu og veðurspáin gerði ráð fyrir áframhaldi á því. Það er mjög gott og ætti að vera gróðri mjög til framdráttar ef hlýindin haldast. Úðuðum skordýraeitri áður en við fórum í bæinn.
Ungi eða flækingur 10. - 12. ágúst 2012
Norðurá er mikil að vöxtum enda hefur rignt mikið um helgina. Veðrið hefur samt sem áður verið milt. Lítill vindur og hiti að jafnaði í kringum fimmtán gráðurnar. Ókum norður yfir heiði á laugardeginum og sóttum Hvammstanga heim. Skoðuðum Selasetrið og einar þrjár sjoppur með íslensku handverki.
Á sunnudagsmorgninum settist fallegur fugl á pallinn hjá okkur og gátum við ómögulega áttað okkur á því hvaða fugl þetta var. Fuglinn var rauðbrúnn að lit og gátum við engan vegin tegundagreint hann. Auðvitað gæti þetta hafa verið ungi en einnig er möguleiki á að þetta hafi verið flækingur.
Hornsíli og heyjað fyrir naggrísi 17. - 19. ágúst 2012


Berin hafa þroskast vel eftir rigninguna um síðustu helgi enda vorum við dugleg að tína. Berin voru stór og liðmörg. Veðrið lék við okkur. Mjög hlýtt og sólríkt. Fórum upp að Fiskivatni þar sem Guðrún og Harpa tíndu aðalbláber en Lilja og Þorkell fóru að veiða. Þau veiddu sjö hornsíli og tvær brunnklukkur. Harpa heyjaði fyrir naggrísina.
Þann þrettánda október komum við síðan ásamt Inþóri, Dísu og börnum og skiptum um rúðu og glerlista í einum glugganum í stofunni.
Comentarios