Brautarlækjarannáll 2021
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jan 9, 2022
- 7 min read
Kofinn okkar í sveitinni var nokkuð vel nýttur í ár af okkur hjónum. Sautján sinnum gerðum við okkur ferð í dalinn og dvalarnætur voru 38.

Fyrsta ferð í Brautarlæk var farin um áramótin en sú ferð var farin til að róa taugaveiklaðan hund sem á mjög svo erfitt með sprengjugleði borgarbúa. Dvölin var hin þægilegasta þótt kalt væri því það var meinlætaveður að öðru leiti allan tímann. Það að við skyldum hlífa hvutta við sprengjuregninu gerði það að verkum að hann var allt annar hundur eftir áramótin en undanfarin ár. Við munum örugglega endurtaka þetta því taugaveiklaður hundur er ekki skemmtilegur félagsskapur.
Við gerðum hlé á Brautarlækjarferðum yfir hörðustu vetrarmánuðina og fórum ekki aftur í sveitina fyrr en um mánaðamótin apríl – maí. Aðkoman var ekki kræsileg. Súr lykt fyllti vitin þegar við opnuðum húsið. Allt hafði skemmst í frystinum því rafmagnið hafði slegið út þannig að það var jökulkalt í húsinu. Vatnshitarinn við kranana skemmdist og klósettkassinn einnig. Við fórum tvær ferðir til viðbótar í Brautarlæk í maí og allan mánuðinn var norðanátt ríkjandi. Veðrið var bjart og fallegt en við fundum virkilega fyrir því hve illa húsið er einangrað. Kuldinn læsir sig í bakið sitji maður við útvegg.

Tímann nýttum við í að taka til undir húsinu. Þar hefur ýmislegt drasl safnast upp í gegnum árin og mörgu þurfti að henda. Við höfum í gegnum tíðina verið að ergja okkur yfir sorpþjónustunni í Borgarbyggð. Vissulega höfum við gert athugasemdir og vitum að við erum ekki ein um það. Viðbrögð hafa frekar verið að fækka móttökugámum fyrir sorp heldur en hitt. Núna er staðan þannig að ef við ætlum að henda venjulegu heimilissorpi þurfum við að aka 19 kílómetra niður á Hreðavatn og aðra 19 til baka, samtals 38 kílómetra til að henda sorpi. Það sem undan kofanum okkar kom má ekki fara í venjulegt sorp þannig að það er 100 km ferðalag að henda því. Sem betur fer getum við nýtt ferðina suður og hent í leiðinni því endurvinnslustöðin í Borgarnesi er opin frá tíu til tvö á laugardögum og frá tvö til sex á sunnudögum.

Næst dvöldum við í Brautarlæk fyrstu helgina í júlí. Lúsmýið gerði sig heimakomið í framdal Norðurárdals í fyrra og í þessari ferð fengu bæði ég og Guðrún að kenna á því. Ef einhverjum ástæðum slapp móðir mín sem var með í för við bit. Þegar við mættum voru óvelkomnir gestir í landinu. Sauðfé hafði komist inn. Í ljós kom að það var opin þjóðbraut inn í landið við endann sem veit upp í háls. Girðingin þar er að fótum komin. Það er komin tími til að endurgirða. Í júlí var endanlega ákveðið að við ásamt eldri systur eiginkonunnar myndum kaupa hlut yngstu systurinnar í Brautarlæk. Nú höfðu skapast forsendur til að ráðast í þær endurbætur sem eru nauðsynlegar að okkar mati og einnig stækkun hússins þannig að það rúmi fleira fólk. Við teiknuðum tvær hugmyndir að stækkun sem gerðu báðar ráð fyrir tveimur herbergjum. Okkur þótti allt mæla með stækkun í átt að Hvammsmúla þannig að á endanum varð það lendingin. Reyndar bættum við herbergi við þannig að stækkunin verður sennilega um rúma 50 fermetra þannig að húsið endar í rúmum hundrað fermetrum. En fyrst ætlum við að byggja fimmtán fermetra geymsluskúr.
Allur ágúst, september og október voru helgaðir byggingu skúrsins. Þrátt fyrir að hann sé bæði án, hitunar, einangrunar og rafmagns fylgja æði mörg handtök svona byggingu. Staðsetning skúrsins krafðist töluverðar gröfuvinnu. Við leigðum smágröfu í um vikutíma og jöfnuðum landið undir skúrinn og grófum hólkana niður fyrir undirstöðurnar. Það var þónokkur halli á landinu þannig að við urðum að flytja töluverðan jarðveg yfir á túnbleðilinn austan megin við íbúðarhúsið. Eftir þessa jarðvegsflutninga og gröftin var landið í kringum bústaðinn frekar ókræsilegt. Allt vaðandi í mold en þó ekki drullu því við vorum heppin með veðrið.
Stöplana höfðum við hugsað okkur að grafa 120 cm niður sem er umtalsvert dýpra en allar ráðleggingar segja. Ástæðan er að við viljum hafa þetta eins traust og kostur er því hér eru veturnir heldur harðari en í Reykjavík. Svo djúpt komumst við nú ekki því flestir staurarnir fóru 90 cm niður. Sá staur sem dýpst fór var 100 cm en sá sem grynnst fór var 75 cm. Þetta kemur ekki að sök því allir sitja þeir á klöpp og ráðleggingar segja að 60 til 70 cm dýpt sé nóg.
Eftir að hafa gengið frá undirstöðunum undir skúrinn hófumst við handa við að smíða grindina. Við ákváðum að stytta okkur leið og keyptum tilbúna grind í Byko. Þar af leiðandi þurftum við ákaflega lítið að saga og vorum tiltölulega snögg að reisa grindina. Veggjagrindin er byggð úr 45 x 95 mm við en gólfgrindin úr 95 x 145 mm við. Vissulega er þetta undir stöðlum en húsið er ekki hugsað til annars en að vera geymslu/smíðaskúr. Næst var húsið klætt og stífað af að utan með 9 mm krossvið og þakið var klætt með 1 x 6 mótatimbri.

Núna voru smíðadagarnir orðnir þrettán og haustið að nálgast. Viðbúið var að veðrið sem til þessa hafði leikið við okkur færi að tefja framkvæmdir. Það er ekkert sem átti að koma á óvart því það haustar snemma þarna í nágrenni við heiðina. Síðustu helgina í ágúst náðum við að klæða leggja þakpappa á þakið. Það leit reyndar ekki vel út með veðrið því það rigndi öðru hvoru. Við vorum svo heppin að á laugardeginum létti til í smá stund og það kom bæði sól vindur þannig að viðurinn á þakinu þornaði á engri stund. Á fór pappinn.
Næst lögðumst við í að ganga frá gólfinu. Við ákváðum að ganga frá því eins og um íbúðarhús væri að ræða. Fyrst settum við 1 x 6 mótatimbur undir gólfið sem hefur það hlutverk að halda við pappann sem kom næst, músanetið sem kom þar ofan á og 6 mm krossviðsplötuna sem kom þar ofan á. Síðan var einangrað með 14,5 mm steinull og rakavarnarplast sett þar ofan á. Að lokum voru 30 mm gólfplötur lagðar á gólfið. Áður en við fórum í bæinn lokuðum við húsinu til bráðabirgða þannig að ekki rigndi inn frá hlið. Guðrún reyndi aðeins að tína bláber. Þau eru ekki stór og veðrið þessa helgina bauð ekki mikið upp á berjatínslu. Hún náði þó berjum í nokkrar sultukrukkur.
Fyrstu helgina í september stefndum við á að loka og þétta með öllum götum við þakskeggið nema loftunargötum auðvitað. Við ætluðum einnig að klæða allan skúrinn að utan með þakpappa. Það tókst að hluta og hefði klárast ef við hefðum ekki tafist vegna rigningar á sunnudeginum og síðan sprakk á bílnum. Á laugardagmorgninum litum við Guðrún út um svefnherbergisgluggan. Þar var fjöldi þrasta og þúfutitlinga að gera sér mat úr rótunum af gljávíðirunnanum sem við rifum upp í ágúst. Guðrún segist einnig hafa orðið vör við músarindil en maríuerlan er farin til Suður – Afríku. Ótrúlegt ferðalag á fuglinum þeim.
Helgina þar á eftir mætti fyrsta alvöru haustlægðin. Okkur tókst nú samt að ljúka við að klæða pappann á húsið, setja járnið á þakið og setja lektur undir klæðninguna á húsið, ganga frá músaklæðningunni og álhornunum fyrir vatnsklæðninguna. Síðan var byrjað að klæða húsið með viðhaldsfríu klæðningunni sem keypt var hjá Þ. Þorgrímssyni. Klæðningin sú er mun dýrari en venjuleg timburvatnsklæðning en það er öruggt að við eigum ekki eftir að sjá eftir þeim aurunum því ekki munum við þurfa að fúaverja hana á þriggja ára fresti.
Þriðju helgina í september var enn ein smíðaferðin farin í Brautarlæk. Að þessu sinni var takmarkið að ljúka við að klæða húsið. Það hefði tekist ef okkur hefði ekki vantað átta plötur. Á sunnudeginum var lagst í smávegis tiltektir og forláta borð smíðað innst í skúrnum. Nú var hann algerlega orðinn vatns og vindheldur þannig að við gátum farið að flytja geymsludót úr íbúðarhúsinu yfir í skúrinn. Við fréttum fyrr í sumar af varmadælu sem var til sölu í Grímsnesinu. Við rukum til og keyptum hana. Við lukum dvölinni þessa helgina með því að finna henni stað og hengja hana upp. Okkur skilst á söluaðilum varmadæla að hitunarkostnaður ætti að lækka um allt að 70%. Við eigum eftir að sjá hvort það gangi eftir. Síðan er það spurning hvort hún muni ráða við að halda hita á húsinu í allan vetur.

Fyrstu helgina í október lukum við að klæða smíðaskúrinn og tengdum varmadæluna og blásarann við rafmagn. Nú var ekkert annað eftir en að fá þjónustumann frá Gastec til að skjótast til okkar til að lofttæma og dæla kælivökva á hana. Helgina á eftir vorum við Guðrún ein í Brautarlæk og nýttum tímann til að flytja alls kyns dót úr íbúðarhúsinu yfir í smíðaskúrinn. Við fórum einnig í að undirbyggja undir klæðningu á þakskeggið. Klæðninguna sjálfa ætluðum við að mála fyrir sunnan því haustveðrin eru komin í algleymi uppi í dal og engin leið að mála neitt.
Á miðvikudeginum skutumst við Kristján upp í dal til að taka á móti þjónustumanninum frá Gastech. Varmadælan fór í gang og hóf að vinna sitt verk. Það heyrðist aðeins í henni eins og búið var að vara okkur við að gæti verið með þessar loftvarmadælur. Ekki var það samt svo mikið að það truflaði okkur neitt. Við vorum bara kát með að hún virkaði eins og hún átti að gera. Þjónustumaðurinn frá Gastec sagði samt að það heyrðist óeðlilega mikið í henni sem myndi lagast ef við myndum skipta um legu í viftumótornum. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif varmadælan hefur á hitakostnaðinn. Núna er hitakostnaðurinn á milli 19 – 20 þúsund krónur á mánuði. Gastec maðurinn taldi að hann gæti farið niður í sjö þúsund krónur á mánuði. Ég er nú efins um að það gangi eftir en ef hann fer niður í tíu þúsund þá er það fundið fé og varmadælan verður ekki lengi að borga sig.
Síðasta helgin og vetrarfrísdagarnir í grunnskólunum í Reykjavík var síðasta dvalarhelgin okkar í Brautarlæk þetta árið. Smíðaskúrinn var nánast tilbúinn. Aðeins á eftir að mála glugga og hurð og setja flasningar á þakskeggið. Hvað skyldi nú skúrinn hafa kostað þegar upp var staðið? Upphafleg kostnaðaráætlun stóðst náttúrulega engan vegin. Hún hljóðaði upp á 1.160.000 kr. Þar var reyndar ekki áætlað fyrir fúavörn, gröfuvinnu og dýrari gerðinni af klæðningu. Endanleg niðurstaða varð 1.640.730 kr.















































Comments